Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 19. janúar 2018 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 19. janúar 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Bóndadagur runninn upp - Þorrablótin framundan á Hrafnistu!

Í dag er bóndadagur, fyrsti dagur hins forna mánaðar, þorra. Þessi árstími er jafnan mjög skemmtilegur hér á Hrafnistu enda blótum við þorran af miklum móð á öllum vígstöðvum. Fjörið hófst strax í hádeginu í dag þegar Ísafold og Hlévangur riðu á vaðið með hádegisþorrablótum þar sem harmonikkuleikur, söngur og fleira var til gamans ásamt matardásemdunum.

Í kvöld eru svo risafagnaður í Reykjavík þar sem engin önnur en söngkonan Regína Ósk verður veislustjóri. Ræðuhöld verða einnig sem og skemmtiatriði. Líklega verður engin Sjónavarpsútsending frá blótinu þetta árið sem er tilbreytning því síðustu tvö ár hafa sjónvarpsstöðvarnar sent beint frá blótinu okkar í kvöldfréttatímum. Við látum það þó ekki trufla gleðina – enda bara gaman og gleðiefni þegar fjölmiðlar sýna starfi okkar áhuga með jákvæðum hætti.

Í næstu viku eru það svo Nesvellir í Reykjanesbær og í vikunni þar á eftir verður hefðbundinn hádegisfagnaður  í Kópavogi og kvöldfagnaður í Hafnarfirði.

Hér er nánara yfirlit en blótin eru auglýst betur á hverju heimili fyrir sig. Gaman, gaman!

Föstudagur 19. janúar

Ísafold Garðabær – Hádegi

Hlévangur Reykjanesbæ – Hádegi

Reykjavík – Seinni partur

Föstudagur 26. janúar

Nesvellir, Reykjanesbæ - Hádegi

Föstudagur 2. febrúar

Kópavogur - Hádegi

Hafnarfjörður – Seinni partur

 

Ég vil einnig nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim fjölmörgu ykkar sem koma að bótunum með einhverjum hætti. Það eru margir sem leggja hönd á plóginn á þessum merku dögum, allt frá iðnaðarmönnum við uppsetningu í stóru sölunum, kokkunum sem útbúa matinn sjálfan, þjónum, skipuleggjendum, aðstoðarfólki við blótin og ekki síst starfsfólki inn á deildunum sjálfum en þar eru mörg auka handtök í tengslum við hátíðarhöldin.

Hafið heiður og þökk fyrir.

 

 

Starfsafmæli í janúar

Í byrjun árs eru nokkrir úr okkar glæsta starfsmannahópi að fagna formlegum starfsafmælum. Þetta eru:

3 ára starfsafmæli: Halla Karen Haraldsdóttir í Kópavogi

10 ára starfsafmæli: Mario Adolfo Rivera Vivar í eldhúsi og Henryka Biala á Lækjartorgi í Reykjavík.

20 ára starfsafmæli: Þórdís Unnur Þórðardóttir á Sólteig/Mánateig í Reykjavík.

Og síðast en ekki síst:

30 ára starfsafmæli: Lucia Lund mannauðsstjóri.

 

Hjartanlega til hamingju öll og hjartans þakkir fyrir tryggðina við Hrafnistu!

 

Gleðilegan þorra og góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Síða 1 af 125

Til baka takki