Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 3. febrúar 2017 - Pétur Magnússon forstjóri

Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 3. febrúar 2017.

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

Nú á miðvikudaginn, 1. febrúar var merkur dagur í sögu Hrafnistu.

Það er ekki bara fyrir þær sakir að þann dag fagnaði undirritaður 9 ára starfsafmæli á Hrafnistu, heldur eru Hrafnistuheimilin nú orðin 6. Eins og kynnt hefur verið, tók Hrafnista við starfsemi hjúkrunarheimilisins Ísafoldar í Garðabæ frá og með deginum 1. febrúar. Heimilið mun nú formlega heita Hrafnista Garðabæ – Ísafold, en verður sjálfsagt í daglegu tali áfram kallað Ísafold. Garðabær hefur rekið hjúkrunarheimilið Ísafold frá opnun árið 2013 en þar búa 60 einstaklingar.

Ísafold er sannarlega spennandi verkefni og skemmtileg viðbót í Hrafnistufjölskylduna. Í þessu samhengi er ágætt að geta þess að markmið Hrafnistu er ekki endilega að verða sem stærst. Til okkar hafa leitað ýmsir aðilar um samstarf, sem við höfum ekki viljað fara í samstarf við. Okkar markmið er fyrst og fremst að fá hámarks gæði og þjónustu út úr þeim krónum sem okkur eru skammtaðar. Tilkoma Ísafoldar ætti í sjálfu sér ekki að hafa nein áhrif á daglega starfsemi annarra Hrafnistuheimila. Hins vegar horfum við mikið á hagkvæmni stærðarinnar og ljóst er að með ákveðinni stærð, samvinnu og samræmingu á milli heimilanna getum við boðið meiri gæði og þjónustu en ef heimilin væru rekin algerlega í sitt hvoru lagi. Þessu náum við helst með ýmsum samanburði og þjónustu stoðsviðanna okkar tveggja, heilbrigðissviðs og rekstrarsviðs og undirdeilda þeirra. Þeirra hlutverk er að auðvelda heimilunum dagleg störf og til þess að ná því markmiði, sem og að þau nýtist heimilunum sem best, þurfa þessi stoðsvið að vera ákveðið stór.

Ísafold þótti passa vel inn í þessar hugmyndir um starfsemi okkar enda nýtt og glæsilegt heimili með þjónustu samkvæmt RAI-mælitækinu, í hæsta gæðaflokki eða á sama stað og hin Hrafnistuheimilin. Því teljum við að tilkoma Ísafoldar ætti ekki að gera annað en styrkja sameignlega starfsemi og þar með bæta hag hinna Hrafnistuheimilannan með beinum og óbeinum hætti.

Þetta eru því mikil tímamót í sögu Hrafnistu.

Við höfum nú einnig tekið upp nýtt lógó fyrir Hrafnistu. Það er í raun smávægileg breyting frá því gamla en nú hefur bæst inn „Garðabær“ í gamla lógóið.

Lógóið var „frumsýnt“ í atvinnuauglýsingum dagblaðanna um síðustu helgi þegar við byrjuðum að auglýsa eftir sumarstarfsfólki á öll okkar sex heimili.

Ég vil biðja ykkur að skipta út gamla lógóinu sem fyrst og tileinka ykkur að nota nýja lógóið. Við förum kannski ekki að henda öllu prentuðu efni með gamla lógóinu en gætum þess vel í rafrænu efni og öllu nýju sem þarf að prenta að nota gildandi lógó. Frekari upplýsingar varðandi lógó má fá hjá Huldu S. Helgadóttur.

Hrafnista er því áfram í fremstu röð öldrunarþjónustu á Íslandi. Við erum ein af stærstu heilbrigðisstofnunum landsins með starfsemi í fimm sveitarfélögum og þjóna Hrafnistuheimilin um eitt þúsund öldruðum á hverjum degi. Þar af búa um 600 manns í hjúkrunarrýmum sem er um 25% hjúkrunarrýma í landinu. Fyrsta Hrafnistuheimilið tók til starfa í Reykjavík árið 1957 og er því 60 ára á þessu ári. Í Hafnarfirði eru 40 ár síðan Hrafnista tók þar til starfa og 2010 tók þriðja Hrafnistuheimilið til starfa í Kópavogi. Í Reykjanesbæ hefur Hrafnista rekið tvö hjúkrunarheimili, Hlévang og Nesvelli, frá árinu 2014 og verður Ísafold því sjötta hjúkrunarheimilið þar sem Hrafnista annast rekstur.

Um leið og ég óska ykkur öllum gleðilegs ferbrúarmánaðar vil ég nota þetta tækifæri og bjóða starfsfólk Ísafoldar hjartanlega velkomið í Hrafnistu-fjölskylduna!

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

Síða 3 af 85

Til baka takki