Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 18. janúar 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 18. janúar 2019.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Starfsafmæli í janúar

Nú í byrjun árs eiga venju samkvæmt nokkrir úr okkar glæsta starfsmannahópi formleg starfsafmæli. Þetta eru:

3 ára starfsafmæli: Í Boðaþinginu eru það Stefán Orri Ragnarsson og Sara Katrín Farmer. Them Van Pham á Sólteigi/Mánateigi í Laugarásnum. Á Nesvöllum eru það Thelma Karen Kristjánsdóttir iðjuþjálfi og Karolina Agnieszka Ranoszek og Wieslawa Tusinska starfmenn hjúkrunardeilda. Á Hlévangi er það Ásta Birgisdóttir.

5 ára starfsafmæli: Karitas Kristgeirsdóttir á Bylgjuhrauni í Hafnarfirði, María Balcik á Nesvöllum og Hulda Birna Frímannsdóttir sjúkraliði í Laugarásnum.

10 ára starfsafmæli: Alma Ýr Þorbergsdóttir deildarstjóri dagdvalar í Hafnarfirði.

15 ára starfsafmæli: Ásgerður Tryggvadóttir á Lækjartorgi í Laugarásnum og Sólveig Guðjónsdóttir í dagdvöl í Boðaþingi.

20 ára starfsafmæli: Jolanta Slapikiene á Bylgjuhrauni í Hafnarfirði.

Hjartanlega til hamingju öll með þennan merka áfanga og trúnað og tryggð í þágu Hrafnistu.

 

Veigamiklar breytingar á eldhúsmálum hefjast í næstu viku

Fyrir utan framkvæmdir á Sléttuvegi í Fossvogi þar sem hjúkurnarheimili, þjónustumiðstöð og leiguíbúðir eru í byggingu á fullum krafti, verða án efa mestu framkvæmdir á vegum Sjómannadagsráðs og Hrafnistu á þessu ári, endurnýjun á eldhúsinu okkar í Laugarásnum. Eldhúsið, sem sannarlega er komið að endurnýjunarþörf, eldar nú fyrir heimilin okkar fjögur á höfuðborgarsvæðinu en eldhús okkar á Nesvöllum sér um matinn fyrir Nesvelli og Hlévang í Reykjanesbæ. Hugmyndin er að eldhúsið verði bæði stækkað út í portið fyrir utan og endurnýjað að miklu leiti það sem fyrir er. Stækkunin miðar að því að eldhúsið geti að framkvæmdum loknum annað því að elda til viðbótar fyrir Sléttuvegsstarfsemina okkar (200-300 hádegis skammta) og kannski 1-2 starfstöðvar til framtíðar.

Í næstu viku hefjast framkvæmdirnar sem áætlað er að ljúki í nóvember. Meðal annars þarf að flytja eldhúsið í nokkra mánuði yfir í Hafnarfjörð meðan framkvæmdirnar eru í hámarki en reiknað er með að þeir flutningar verði seinni partinn í mars. Framkvæmdirnar í Reykjavík munu í upphafi hafa nokkurt ónæði í för með sér þar sem brjóta þarf niður klöpp. Allt þetta verður kynnt vel og rækilega jafnóðum á viðeigandi stöðum en mikil áhersla hefur verið lögð á samvinnu og kynningu varðandi framkvæmdirnar þar sem við á.

Ég vil biðja ykkur að sýna þolinmæði og skilning í kringum framkvæmdirnar en það verður sannarlega spennandi að fá í notkun hjá okkur í lok árs eitt glæsilegasta eldhús sinnar tegundar.

 

Rúmlega 2.000 manns fengu greidd laun frá Hrafnistuheimilunum á síðasta ári

Nú styttist í skil á skattframtölum og til að það geti orðið þurfa fyrirtæki að senda frá sér launamiða. Samkvæmt Valgeiri deildarstjóra sendi bókhalds- og launadeildin okkar út í vikunni, á rafrænu formi, samtals 2.073 launamiða vegna ársins 2018. Þetta þýðir að árið 2018 höfum við komið að útreikningi launa hjá þessum fjölda sem gefur okkur hugmynd um þann fjölda fólks sem kemur að störfum hjá Hrafnistu. Inn í þessum tölum er sumarafleysingafólk, starfsfólk sem er í langtímaveikindum, fæðingarorlofi eða fær uppgjör af einverjum sökum og kemur því ekki beint að störfum. Þetta eru til fróðleiks svipað margir og allir íbúar sveitafélagsins Fjallabyggðar (Siglufjörður+Ólafsfjörður) svo dæmi séu tekin.

 

Árshátíð Hrafnistu er 13. apríl – Taktu daginn frá!

Ég vil svo minna ykkur á sameignlega árshátíð allra starfsmanna Hrafnistuheimilanna sem fram fer laugardaginn 13. apríl á Hilton Nordica. Gísli Einarsson fjölmiðlamaður er veislustjóri og partýpinni kvöldsins er enginn annar en Páll Óskar.

Undirbúningur er í höndum fulltrúa starfsmannafélaganna og allar nánari upplýsingar verða kynntar þegar nær dregur.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

Lesa meira...

Síða 5 af 173

Til baka takki