Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 10. febrúar 2017 - Gestaskrifari er Sigurður Helgason, forstöðulæknir Hrafnistuheimilanna

Lesa meira...

 

Síðustu jól ferðaðist ég um Víetnam og fékk tækifæri á að heimsækja öldrunarheimili og sjúkrahús. Ég ætlaði í þessum pistli að fara í samanburð á aðbúnaði og hugarfari en mundi þá eftir molum Bjarneyjar (11. nóv 2016) og Soffíu (21. okt 2016) sem mér fannst frábærir og ákvað að framlengja mola Bjarneyjar um kosti og ókosti vaktavinnu og viðhorf.
Einn af „ókostunum“ er að þurfa að vinna kvöld, nætur, helgar og á hátíðisdögum. Á um 35 ára ferli mínum sem læknir hef ég tekið ógrynni vakta á hátíðisdögum og lærðist fljótt að viðhorf mitt til vaktavinnu yrði að vera jákvætt ef þrauka ætti. Það að eiga ótruflaða stund með sjálfum sér eða sínum nánustu er lúxus en vaktir og bakvaktir geta líka verið gæðatími.  Vissulega eru vaktir mismunandi en hvort sem um ræðir kvöld- og næturvaktir í sveitahéraði, á bráðamóttöku, fæðingardeild eða á Hrafnistu er alltaf ákveðin óvissa í loftinu og ókyrrð í huganum. Þú getur lent í erfiðum málum og sumum, sérlega unglæknum og nemum, er alltaf efst í huga það alvarlegasta sem getur hent og eru jafnvel með hjartslátt næturlangt á vakt þótt síðan oftast gerist ekkert.  Á nær 16 árum á bakvöktum á Hrafnistuheimilunum hefur vissulega margt gerst en með því að taka viðhorfið „haustaki“ í upphafi mátti gera vinnuna gefandi og skemmtilega. Þetta er t.d. fólgið í því að:
- vera alltaf fyrirfram viss um að þessi vakt verði erfið og vera síðan kátur með að allt var rólegt. 
- fara stundum án tilefnis á heimilið á bakvakt, hvort sem er kvöld eða helgar, og sinna íbúum sem þú hvort eð er ætlaðir að hitta næsta dag eða eftir helgi. Þá hitti ég íbúa undir öðrum aðstæðum en í dagvinnu virka daga sem getur verið æði fróðlegt.
- líta á það sem bónus að rekast jafnvel á marga ættingja á sunnudegi og geta farið yfir mál íbúa án þess að kalla þurfi til formlega fjölskyldufundi eða talað um annað en veikindi. Samtöl við lækni á dagvinnu snúast nær 100% um kvilla en á kvöldum, helgum og hátíðisdögum er fólkið í öðrum gír þar sem samtal er óundirbúið og oft við skemmtilegar aðstæður eða með ættingja.
- setja sjálfum sér fyrir verkefni hvort sem er að sinna pappírsvinnu, lesa eða fara í ræktina og tíminn á bakvakt flýgur (þetta atriði með ræktina er reyndar ekki hægt að uppfylla á bundinni húsvakt hversu róleg sem hún er nema aðstöðu verði breytt !!).

Ég hef reynt að koma þessu viðhorfi áleiðis til læknanema og aðstoðarlækna m.a. í kennslu við Læknadeild HÍ og fæ enn af og til símtöl frá áður örmagna afleysingalæknum úti á landi sem hafa breytt sínu viðhorfi og eru kátir.  

 

Sigurður Helgason

Forstöðulæknir Hrafnistuheimilanna

 

Lesa meira...

Síða 2 af 85

Til baka takki