Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 31. mars 2017 - Pétur Magnússon, forstjóri

Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 31. mars 2017.

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

Takk fyrir síðast – frábær árshátíð!

Ég vona að allir séu að jafna sig eftir síðustu helgi þegar sameiginleg árshátíð starfsfólks allra Hrafnistuheimilanna fór fram í Gullhömrum. Um 650 manns stútfylltu húsið og var síðustu mönnum nánast troðið inn með skóhorni. Árshátíð Hrafnistu hefur aldrei verið fjölmennari og líklega aldrei verið betur heppnuð, þó margar hafi þær verið góðar. Veislustjórarnir Saga Garðars og Steindi jr. fóru á kostum og höfðu á orði að þau hefðu aldrei upplifað annað eins enda var gríðarleg jákvæð orka og stemning í mannskapnum lagt fram á nótt. Maturinn flottur og frábær skemmtiatrið sem enduðu með dansleik Magna og félaga í „Á móti sól“.

Það var rosalega að gaman að sjá hvað yngri kynslóðin í starfsmannahópnum var tilbúin að vera með og nánast allar deildir héldu forpartý og fjölmenntu í gleðina. Þið eigið sannarlega öll þakkir skyldar fyrir ykkar þátt í að gera þennan viðburð jafn magnaðan og raun bar vitni. Á svona kvöldum er ekki annað hægt en að vera ótrúlega stoltur af því að vera hluti af hinu glæsta starfi (og starfsfólki) sem fram fer á Hrafnistuheimilunum. Það þarf jú líka að vera gaman í vinnunni og það er sannarlega nóg af skemmtilegu og fjörugu fólki á Hrafnistu.

-Takk fyrir ykkar framlag við að gera Hrafnistu jafn glæsilega og raun ber vitni!

Nýtt kynningarmyndband um Hrafnistu

Á árshátíðinni um síðustu helgi frumsýndum við stutt kynningarmyndband (2-3 mín) um starfsemi Hrafnistu sem hefur verið gert fyrir okkur. Það er mál manna að mjög vel hafi tekist til. Myndbandið verður opinberlega aðgengilegt á næstunni (líklegast verður það sett á YouTube) og ætlunin er að þetta kynningarmyndband sé sýnt sem víðast og oftast við öll tækifæri þegar verið er að kynna Hrafnistu.

Þannig að endilega verið dugleg að nota myndbandið og sýna það sem oftast og víðast J

50 ára starfsafmæli í fyrsta skipti í sögu Hrafnistu!

Í gær var merkisatburður í sögu Hrafnistuheimilanna en þá kvöddum við „Dísu í borðsalnum“

á Hrafnistu í Reykjavík, sem um leið er fyrsti starfsmaðurinn í 60 ára sögu Hrafnistuheimilanna, sem nær því að hafa starfað hjá fyrirtækinu í 50 ár! Þetta er auðvitað ótrúlega sjaldgæft en á næstunni mun samt annar starfsmaður Hrafnistu ná þessum áfanga. Sennilega mun það hins vegar aldrei gerast aftur enda eru það örfáar undantekningar í samfélaginu núorðið að einhver vinni allan sinn starfsaldur hjá sama fyrirtæki.

Í tilefni tímamótanna var Dísu haldin mikil veisla í gær - hún fékk 350.000 kr ferðainneign hjá ÚrvalÚtsýn í tilefni 50 ára starfsafmælisins, kveðjugjafir og Jóhannes Kristjánsson skemmtikraftur kom og kitlaði hláturtaugar viðstraddra meðan tertum, snittum, kaffi og einhverju sterkara var skolað niður. Dísa byrjaði á Hrafnistu 18 ára gömul árið 1967 og kveður nú Hrafnistu eftir fjölbreyttan og merkan feril - Takk kærlega fyrir samstarfið Dísa!

Forsetinn heimsækir Ísafold

Á fimmtudaginn (6. apríl) stendur mikið til á Ísafold. Þá á ekki bara Hrönn forstöðumaður afmæli, heldur ætlar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, að heimsækja okkur þangað. Forsetinn mætir í hús kl. 14 og eftir stutta hátíðardagskrá með íbúum og öðrum gestum, verðum boðið upp á rjómatertur og kaffi. Að því loknu mun forsetinn heilsa upp á íbúa og fara í skoðunarferð um húsið.

Við hlökkum mikið til enda alltaf gaman að fá forseta landsins til að heiðra starfsemi Hrafnistu með nærveru sinni. Venju samkvæmt munum við fá ljósmyndara til að fylgja forsetanum svo að sem flestir íbúa og starfsmenn geti fengið mynd af sér með forsetanum.

Rétt er að geta þess að forsetinn hefur einnig staðfest komu sína til okkar í Reykjavík og Hafnarfjörð í byrjun júní til að taka þátt í afmælishöldum vegna 60 og 40 ára afmælis heimilanna. Það verður nánar kynnt þegar nær dregur.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Síða 2 af 92

Til baka takki