Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 6. október 2017 - Gestaskrifari er Harpa Gunnarsdóttir, fjármálastjóri Hrafnistuheimilanna

Lesa meira...

Tíminn flýgur hratt....   

Haustið er tími skipulags og áætlanagerðar í flestum fyrirtækjum og ekki laust við að máltækið „Það er eins og gerst hafi í gær“ komi upp í huga mér þar sem það er eins og við séum rétt nýbúin að klára áætlun og skipulag fyrir árið 2017.  En samkvæmt dagatalinu er víst komið ár síðan og tími til kominn að fara að huga að 2018!  Tíminn flýgur svo sannarlega hratt hjá.  Við þurfum að hafa okkur öll við svo við gleymum ekki að lifa í núinu.  En þegar nóg er af verkefnum og umfangsmikill rekstur er í gangi – er auðvelt að gleyma sér.

Það var útlit fyrir það í byrjun haustsins að í fyrsta skipti í nokkur ár yrði rekstrargrunnur hjúkrunarheimila ljós með góðum fyrirvara vegna ársins 2018.  Rammasamningur sem gerður var milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila í október 2016 gera okkur kleift að hafa betri yfirsýn yfir reksturinn en áður var.   Það var því ánægjulegt að fara inní haustið með þá tilfinningu að nú yrði áætlanagerð vegna rekstrar 2018 auðveldari en áður var.  Allt virtist stefna í að daggjöld fyrir rekstur hjúkrunarheimila fyrir 2018 yrðu ljós með góðum fyrirvara þar sem fjárlagafrumvarp vegna ársins 2018 var lagt fram á Alþingi strax í byrjun þings í haust.  En fljótt skipast veður í lofti og nú eru framundan kosningar til þings og allsendis ómögulegt að segja hvenær fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar fyrir árið 2018 lítur dagsins ljós.  Við látum það ekki stoppa okkur af og höldum ótrauð áfram í okkar verkefnum.

Í október fer af stað undirbúningsvinna fyrir rekstrar- og fjárhagsáætlun Hrafnistuheimilanna fyrir komandi resktrarár.  Að áætlanagerðinni koma fjölmargir stjórnendur heimilanna og nær ferlið yfir 8-10 vikur.  Hrafnistuheimilin eru sex og deildir heimilanna samtals um 30 talsins.   Á Hrafnistu leggjum við áherslu á að stjórnendur deilda og heimila komi að áætlanagerðinni fyrir sína einingu. Það gera þeir með því að rýna í mönnunarmódel, launakostnað, veikindahlutföll, ástand búnaðar og fleiri þætti sem hafa áhrif á kostnað.  Það eru því hátt í 40 starfsmenn Hrafnistu sem huga þessa dagana að horfum og áætlun fyrir árið 2018.

Hrafnista hefur á að skipa öflugum hópi starfsmanna sem leggur metnað sinn í að sinna þjónustunni við heimilisfólk sem allra best.  Hjá Hrafnistu starfa um 1.200 starfsmenn og margir þeirra hafa starfað fyrir fyrirtækið í áratugi.  Tryggð, traust og vinnuframlag starfsmannanna í þjónustu við aldraða verður seint fullþakkað. 

Sem fyrr er framundan spennandi vetur,  hlaðinn verkefnum sem miða að því að gera þjónustuna við heimilisfólk og aðra skjólstæðinga Hrafnistuheimilanna betri og skilvirkari.  Það er okkar helsta markmið og það má alltaf gera betur.  Miklu betur.

 

Góða helgi
Harpa Gunnarsdóttir
fjármálastjóri Hrafnistuheimilanna.

 

Lesa meira...

Síða 7 af 117

Til baka takki