Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 31. ágúst 2018 - Pétur Magnússon, forstjóri

Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 31. ágúst 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Ný dagdvöl á Hrafnistu Reykjavík opnar ekki fyrr en eftir áramót

Í síðustu viku minntist ég hér á umræðu sem verið hefur undanfarið í fjölmiðlum um fjölgun dagdvalarrýma. Hrafnista hefur tengst þeirri umræðu þar sem eina verulega fjölgun dagdvalarrýma á næstunni verður hér hjá okkur á Hrafnistu. Eins og kynnt var fyrr í sumar þá var í samvinnu við Velferðarráðuneytið ákveðið að breyta hjúkrunardeildinni Viðey á Hrafnistu í Reykjavík í dagþjálfun fyrir einstaklinga með heilabilun (25-30 rými). Á Viðey eru í dag 11 hjúkrunarrými í húsnæði sem hentar illa til þjónustu á nútíma hjúkrunarheimili.

Til stóð að fara af stað með verkefnið og breytingarnar á haustmánuðum, en þar sem þetta er viðamikið verkefni sem þarfnast vandaðs undirbúnings þá sjáum við fram á að undirbúningsferlið taki lengri tíma. Því mun ný Dagþjálfun fyrir einstaklinga með heilabilun ekki taka til starfa fyrr en á nýju ári.

Nánari upplýsingar um skipulag breytinganna verða kynntar um leið og þær liggja fyrir.

 

Berglind mannauðsstjóri tekur sæti í launanefnd Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu

Frá og með 1. september tekur Berglind, mannauðsstjóri okkar, sæti í launanefnd Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), fyrir hönd Hrafnistu. Nefndin hefur séð síðustu ár um alla kjarasamningagerð fyrir Hrafnistuheimilin og önnur aðildarfélög samtakanna, við hin ýmsu stéttarfélög. Það er mikilvægt fyrir stóran aðila eins og okkur að hafa fulltrúa í samninganefnd SFV. Ég vil nota þetta tækifæri og óska Berglindi góðs gengis í samninganefndinni en framundan eru mörg krefjandi og spennandi verkefni, því strax á næsta ári eru lausir kjarasamningar við fjölmörg stéttarfélög sem okkar starfsemi tengjast.

 

Allt að gerast á Sléttuvegi

Í sumar hefur allt verið í fullum gangi við framkvæmdir við verkefni okkar á Sléttuvegi þar sem verið er að reisa nýtt hjúkrunarheimili (99 rýma), þjónustumiðstöð og leiguíbúðir. Jarðvegsframkvæmdum lauk í vor og nú í sumar hefur uppsteypa verið í fullum gangi. Jón Grétar, verkefnastjóri okkar á Sléttuvegi, tók þessar skemmtilegu myndir í vikunni af byggingarsvæðinu og er það hjúkrunarheimilið sem byrjað er að móta fyrir í þessum stóra grunni.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

Myndir frá byggingarframkvæmdum við Sléttuveg

Lesa meira...

Síða 179 af 330

Til baka takki