Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 15. júní 2018 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 15. júní 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk,

 

Hátíðarhöld Sjómannadagsins tókust vel!

Vonandi fór ekki framhjá neinum að Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur þann 3. júní.

Minningardagur um drukknaða sjómenn og hátíðarhöld Sjómannadagsins eru jú upprunalega tilefnið að stofnun Sjómannadagsráðs og enn þann dag í dag eru hátíðarhöldin lykilatriðið í starfsemi Sjómannadagsráðs, eiganda Hrafnistuheimilanna.

Af þessu tilefni var að vanda mikið um dýrðir á öllum Hrafnistuheimilunum og var hefðbundin dagskrá á öllum okkar heimilum sem var almennt mjög vel sótt af íbúum og ættingjum.

Kærar þakkir til ykkar allra og ykkar fólks við að leggja hönd á plóginn í undirbúningsferlinu og gera Sjómannadaginn jafn glæsilegan á Hrafnistuheimilunum og raun bar vitni!

 

Þjónusta Hrafnistu mælist mjög há í RAI-mati.

Nú um síðustu mánaðarmót lauk öðru RAI-mati þessa árs og er jafnan mjög forvitnilegt að sjá niðurstöðurnar. Svokallað RAI-mat, sem öll hjúkrunarheimili gera þrisvar á ári, er í raun opinber mælikvarði á þá þjónustu sem hjúkrunarheimili eru að veita. Niðurstaðan er fengin út með mjög löngum og ítarlegum spurningalista um heilsufar og þjónustu varðandi hvern einasta íbúa.

Niðurstöðurnar eru mjög ánægjulegar fyrir öll Hrafnistuheimilin og sýna enn og aftur að meðal hæstu hjúkrunarheimila landsins eru Hrafnistuheimilin sex. Heimilin eru langt yfir landsmeðaltali en mynda samt 25% af meðaltalinu. Það er því sannarlega mjög ánægjulegt en niðurstöðurnar sýna enn og aftur hversu gott og mikilvægt starf þið, ágæta starfsfólk Hrafnistu, eruð að vinna í þágu aldraðra.

Frekari upplýsingar um niðurstöður einstakra deilda eða heimila getið þið nálgast hjá deildarstjóra ykkar eða hjá heilbrigðissviði.

 

Útigrill á öllum Hrafnistuheimilunum í sumar!

Einn af hápunktunum í sumarstarfinu eru útigrillin hjá okkur. En þá tökum við okkur til í hádeginu á góðviðrisdegi, skellum út borðum og stólum og drífum sem flesta út. Kokkarnir kynda í grillunum og allir drekka sumarið í sig undir harmonikkutónlist. Þessari skemmtilegu hefð ætlum við markvisst að halda í heiðri í sumar eins og undanfarin ár, þrátt fyrir að þessar fyrstu vikur sumarsins lofi nú ekki beint góðu. Þar sem Hrafnistuheimilin eru nú orðin sex talsins og töluverð fyrirhöfn er að setja eina grillveislu í gang, höfum við raðað heimilunum niður á vikur.

Ég vona eins og venjulega að þið og ykkar fólk verði klár í slaginn þegar kallið kemur um grillveislu á ykkar heimili þannig að að grilldagurinn verði eins ljómandi góður og mögulegt er – enda þurfa allir að leggjast á eitt svo málin gangi upp.

Forstöðumenn (eða staðgenglar þeirra) eru með nánari upplýsingar um fyrirhugaða daga á hverju heimili en auðvitað verður verðurspáin að hafa síðasta orðið. Gróft yfirlit er svona:

25.- 29. júní – Hlévangur og Nesvellir

2.- 6. júlí – Hafnarfjörður

9.- 13. júli – Kópavogur

30. júlí - 3. ágúst – Reykjavík

13.-17. júlí – Garðabær

 

Heimsmeistarmót og þjóðhátíð um helgina!

Það er aldeilis spennandi helgi framundan en kl 13 á morgun, laugardag, leikur Ísland við Argentínu í heimsmeistarmótinu í fótbolta. Þjóðin er undirlögð af þessu og við hér á Hrafnistu ætlum ekki að vera neinir eftirbátar. Mér skilst að flestar deildir allra Hrafnistuheimilanna séu búnar að skreyta fyrir helgina í fánalitunum og eldhúsin okkar munu senda öllum deildum partý- glaðning fyrir leikinn. Margar deildir hafa hvatt alla til að klæðast bláu eða þjóðfánalitum í dag og á morgun. Það verður því bara að krossa fingur svo allt fari vel fyrir þjóðhátíðardaginn okkar á sunnudag.

Sannarlega gaman að sjá hvað fólk er samstillt við að skapa skemmtilega stemningu á deildum Hrafnistuheimilanna.

 

Góða helgi og gleðilega þjóðhátíð – Áfram Ísland!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur