Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 10. nóvember 2017 - Gestaskrifari er Svanhildur Blöndal, prestur á Hrafnistu í Reykjavík og Hafnarfirði

 

Ekki fyrir löngu var ég að ræða við vinkonur mínar.  Við sátum á kaffihúsi á Laugaveginum og ræddum ýmislegt eins og gengur.  Við pöntuðum okkur kaffi og smurt brauð.  Oft segjum við hver annarri frá því sem við erum að aðhafast hverju sinni og að sjálfsögðu ræðum við börnin og barnabörn okkar og gefum hver annarri góð ráð.  Það er svo gott að geta rætt við vinkonur sínar um það sem á dagana drífur, bæði það sem er gleðilegt og einnig það sem er erfitt og sorglegt.  Í þetta skipið vorum við að segja hver annarri frá því hvernig við bregðumst við, þegar okkur finnst skýin hrannast upp þannig að vart sjáist til sólar.  Þessar vinkonur mínar hafa nefnilega svo skemmtilega sýn á lífið.  Mér er samt sérstaklega minnisstætt sem ein vinkona mín sagði:  Þegar fortíðarþráin, eins og hún orðaði það, herjar á finnst henni gott að lesa Guðrúnu frá Lundi eða jafnvel Ingibjörgu Sigurðardóttur, því þá rifjar hún upp í leiðinni æskuna og stundirnar sem hún átti með ömmu sinni sem eru henni svo kærar.  Samveran með ömmunni gerði hana að betri manneskju.  Það var einmitt mildi ömmunar og viskan sem vinkona mín minntist með mikilli hlýju og finnst gott að rifja upp.  Amman sem alltaf hafði tíma og næga þolinmæði.  Vinkonu minni fannst líka svo gaman af því að heyra frá æskuheimili ömmunnar.  Það er þessi arfleið sem amma hennar hefur skilið eftir til barna sinna og barnabarna og auðvitað í leiðinni til komandi kynslóða.  Og það er svo dýrmætt. 

Lífsviðhorf skiptir miklu máli fyrir okkur og aðra sem við eigum samskipti við.  Ég held að viðhorf okkar ráði miklu um það hvernig við tökumst á við lífið.  Og líka hvernig okkur líður svona dagsdaglega.  Ég held líka að fæst okkar gerum okkur grein fyrir gífurlegum krafti hugans. Hugurinn er nefnilega stórkostlegt fyrirbæri og einnig máttugur.  Það er svo mikilvægt fyrir okkur að hugsa jákvæðar og kærleiksríkar hugsanir.  Það birtir til í huga okkar og allt verður svo miklu auðveldara ef okkur tekst að eiga gleðistund á hverjum degi og einnig að sjá hinar broslegu hliðar mannlífsins.

Ég ætla að rifja upp örsögu sem mér finnst vera góð saga en hún fjallar einmitt um bjartsýni.  Í sögunni kemur skýrt fram að það er ekki sama hvernig við horfum á hlutina.  Sagan er eitthvað á þessa leið:  Fyrir mörgum árum í Ameríku var skóverksmiðja nokkur sem vildi auka söluna.  Fyrirtækið ákvað að senda tvo sölumenn til Afríku til þess að auka markaðshlutdeildina hjá sér.  Þessir ágætu menn fóru og kynntu sér markaðinn í Afríku.  Fljótlega kom skeyti frá öðrum þeirra og í skeytinu stóð:  Algjörlega vonlaus markaður, hér eru allir berfættir, enginn í skóm.  Sama dag kom annað skeyti frá hinum sölumanninum en þar brá við allt annar tónn:  Hér eru endalausir sölumöguleikar!  Allir berfættir og enginn í skóm!

Það er svo gaman að vera með fólki sem hugsar í lausnum en ekki í vandamálum og sér bjarta hliðar á málum.  Og þannig vegnar okkur líka best.Það er svo gott að hafa gleðina að félaga, það er eitt af því dýrmætasta, því þá erum við umvafin bjartsýni.  Oft sjáum við líka hlutina í öðru ljósi og getum í leiðinni gefið meira af okkur.  Þess vegna er svo mikilvægt að við göngum glöð inn í daginn.   

 

Með vetrarkveðju, Svanhildur

 

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur