Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 3. nóvember 2017 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 3. nóvember 2017.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Breska heilbrigðiskerfið

Á dögunum hlustaði ég á áhugaverðan fyrirlestur um breska heilbrigðiskerfið og helstu vandamál sem stjórnendur þar eru að glíma við.

Án þess að fara skrifa hér langan pistil um þetta áhugaverða viðfangsefni verð ég samt eiginlega að upplýsa ykkur um að fróðlegast að öllu var að heyra hve helstu áskorunarefnin þar eru námkvæmlega þau sömu og á Íslandi.

1: Aukið fjármagn vantar í kerfið en Bretar nota aðeins 8% af vergri þjóðarframleiðslu sinni í heilbrigðismál. Okkar hlutfall er um 8,9% í dag. Stærsta undirskriftarsöfnun Íslandssögunnar, sem fram fór í fyrra á vegum Kára Stefánssonar, krafðist þess að þetta hlutfall yrði aukið í 11%.

Bretar greiða þó sjálfir aðeins 2% af heilbrigðiskerfinu með komu- og sjúklingagjöldum meðan hlutfalllið okkar er komið í um 19%.

2: Of margar einingar í kerfinu sem vinna ekki nógu vel saman. Þetta er einnig vel þekkt í okkar heilbrigðiskerfi.

3: Framtíðaráhyggjur af skorti á hjúkrunarfræðingum. Nú vantar um 40.000 hjúkrunarfræðinga til starfa á Bretlandseyjum og á næstu árum fara um 20.000 hjúkrunarfræðingar á eftirlaun. Þetta er svipað og hjá okkur (hlutfallslega) en nýlega var í fréttum að 500-600 hjúkrunarfræðinga vantaði til starfa í íslenska heilbrigðiskerfið. Bretar hafa það þó fram yfir okkur að mun þægilegra er fyrir þá að sækja í erlent vinnuafl, því einhverra hluta vegna reynist fólki mun fljótar að læra ensku en íslensku. Bretarnir hafa þó miklar áhyggjur á hruni á erlendu vinnuafli hjúkrunarfræðinga þar sem BREXIT er strax farin að draga úr áhuga erlendra hjúkrunarfræðinga á að vinna í Bretlandi.

 

Að lokum er hér eitt skemmtilegt dæmi um hversu öldruðum er að fjölga í Bretlandi, rétt eins og hjá okkur.

Þegar Elísabet Englandsdrottning tók við krúnunni árið 1952 tók hún upp þann sið að handskrifa undir afmæliskort til allra breskra þegna sem náðu 100 ára aldri á viðkomandi ári. Árið 1952 voru þetta um 350 manns svo verkefnið var ekkert óyfirstíganlegt fyrir drottninguna.

Þegar drottningin fagnaði 60 ára valda-afmæli árið 2012 var þessi sami hópur hins vegar um 12.000 manns á ári, þannig að það er nokkuð síðan venjunum um eiginhandarundirritunina var breytt 

 

51 dagur til jóla! Jólagjöf Hrafnistu til starfsmanna er…

Þar sem nú eru aðeins 51 dagur til jóla vildi ég upplýsa ykkur að jólagjöf Hrafnistu til starfsfólks verður með sama hætti og í fyrra.

Þeir sem eru í 30% starfi eða meira fá inneignarbréf í Kringluna. Upphæð inneignarinnar var hækkuð í fyrra úr 5.000 kr í 7.500 kr og mæltist þessi breyting vel. Rétt er að taka fram að inneignarbréf í Kringlunni eru valin fram yfir hefðbundinn inneignarkort banka þar sem viðskiptabanki okkar rukkar 500 krónur fyrir hvert bankakort og þar með myndi innhald gjafarinnar rýrna í 7.000 kr. Það erum við ekki sátt við og völdum því að færa okkur í Kringluna. Jafnframt fá allir starfmenn Hrafnistu-miða í Laugarásbíó en miðinn gildir á sýningu þar fyrir tvo, ásamt poppi og kók fyrir báða aðila. Miði sem þessi er að verðmæti um 4.000 kr. Það skal áréttað að þeir sem eru í minna en 30% starfi fá einungis bíó-miðana að gjöf eins og verið hefur (fá ekki Kringlu-kortið), en allir sem eru í 30% starfi eða meira fá Kringlukort (7.500 kr) og bíómiðann.

Dreifing afmælisgjafa verður kynnt þegar nær dregur.

 

Hrafnistu-ráðstefnan í Hörpu 21. nóvember!

Nú styttist í afmælisráðstefnu Hrafnistu og Sjómannadagsráðs, sem áður hefur verið kynnt hér.

Ráðstefnan fer fram kl 9-16 þriðjudaginn 21. nóvember undir heitinu Lífsgæði aldraðra. Dagskrá ráðstefnunnar verður kynnt á næstu dögum en forseti Íslands verður meðal gesta. Ráðstefnan verður tvískipt og fer fram í Hörpu. Fyrir hádegi verður áherslan á starfsfólk í velferðar- og heilbrigðisþjónustu og er aðeins fyrir boðsgesti en eftir hádegi verður ráðstefnan opnuð fyrir almenning. Öllu starfsfólki Hrafnistu verður boðið á ráðstefnuna (ásamt ýmsum fleirum).

Endilega verið öll dugleg að skrá ykkur og mæta og njóta!

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur