Leit

social link

 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 8. september 2017 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 8. september 2017.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Umfjöllun um stækkun hjúkrunarheimilis í Kópavogi

Um síðustu helgi og í byrjun vikunnar, var nokkuð fjallað um seinkanir á stækkun hjúkrunarheimilis okkar í Kópavogi. Því miður hefur orðið verulegur dráttur á því að hönnun húsnæðisins hefjist og þar með framkvæmdir.

Þessi seinni áfangi byggingarinnar er í eigu ríkisins og Kópavogsbæjar, rétt eins og sá hluti sem er í notkun núna. Við erum svo rekstraraðilinn.

Ástæða seinkunarinnar er að lögbannsbeiðni var sett fram í marsmánuði síðastliðnum af arkitektunum sem hönnuðu fyrri hluta hjúkrunarheimilisins og þjónustumiðstöðina. Framkvæmdasýsla ríkisins taldi seinni áfangann þurfa að fara í hönnunarsamkeppni en hönnuðir eldri hluta hjúkrunarheimilisins vilja að réttur þeirra til hönnunar nýja hússins verði viðurkenndur. Sýslumaður hefur fallist á lögbannsbeiðni vegna hönnunarsamkeppni um húsið. Í framhaldi hefur gerðarbeiðandi höfðað mál til staðfestingar lögbanninu en líkur eru á því að um tvö ár geti tekið að greiða úr ágreiningnum gegnum dómstóla.

Það versta er að meðan lögbannið er í gildi og deilur standa yfir fyrir dómstólum, má ekkert aðhafast frekar í undirbúning heimilisins.

Nýjustu heimildir segja að málið verði ekki dómtekið fyrr en í janúar 2018 þannig að ljóst er að nýja byggingin verður aldrei tilbúin til notkunar fyrr en í fyrsta lagið árið 2021, en ferlið er 2-3 ár eftir að hönnun hefst.

 

Að lifa að eilífu

Í dag sæki ég forvitnilega ráðstefnu sem heitir „who want‘s to live forever“ í Háskólabíói. Þar er fjallað frá nokkrum áhugaverðum hliðum um líf okkar mannanna og hvað í lífstíl, mataræði og annarri hegðun okkar, hefur áhrif á heilsu okkur og ekki síður á öldrun líkamans. Það er auðvitað búið að fara yfir margar forvitnilegar rannsóknir: Til dæmis ræða um ljósmagn í umhverfinu eftir mismunandi tímum sólarhringsins og áhrif þess, mataræði frá öllum hliðum og hvenær dagsins er best að borða og hvenær ekki, og margt fleira.

Af mörgu forvitnilegu situr nú mest í mér að minna okkur mannkynið á hversu lífsgæði okkar hafa aukist svakalega mikið á síðustu 100 árum eða svo.

Árið 1900 voru almennar lífslíkur aðeins 47 ár og aðeins 1 af hverjum 100 náði 90 ára aldri. Aðeins 2/3 barna sem fæddust náðu 5 ára aldri og algengasta dánarorsökin var að völdum sýkinga. Árið 2010 eru almennar lífslíkur 79 ár og 1 af hverjum fjórum nær 90 ára aldri. Sýkingar eru ekki lengur eitt af okkar stærstu heilsuvandamálum en ýmsir aðrir sjúkdómar eru mættir til leiks. Ótrúlegar breytingar á heilsu og lífstíl á aðeins 100 árum. Spurning hvort þetta heldur áfram svona eða nær hámarki einhvers staðar eða er nútíma lífstíllinn að fara að lækka þessar tölur aftur?

Umfjöllun um þessi mál var líka í Kastljósi á RÚV í gærkvöld, ef þið hafið áhuga á að skoða þessi mál nánar.

http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/kastljos-og-menningin/20170907

 

Heimsókn frá Noregi

Á miðvikudaginn fengum við á Hrafnistu heimsókn frá góðum gestum. Þetta voru fulltrúar frá norska fyrirtækinu Diakonhjemmet. Þetta fyrirtæki er umfangsmikið einkafyrirtæki í Noregi en það er ekki rekið í hagnaðarsjónarmiði, rétt eins við hér á Hrafnistu. Hins vegar starfrækja þau ekki aðeins hjúkrunarheimili heldur einnig heimaþjónustu, spítala, leikskóla og háskóla fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Fyrirtækið hefur vaxið mikið á síðustu árum og er meðal annars að hanna nýtt svæði með íbúðum og hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Gestirnir, sem voru aðallega frá hjúkrunarheimilishlutanum, skoðuðu starfsemi okkar í Reykjanesbæ, Garðabæ og Kópavogi auk þess að drekka kaffi í Skálafelli í Reykjavík.

Það var líka mjög gaman að ræða við gestina sem eru auðvitað að fást við svipuð viðfangsefni og við – á sumum sviðum eru Norðmenn komnir lengra en við en á öðrum sviðum standa Íslendingar þeim framar. Í þeim samanburði stöndum við á Hrafnistu mjög vel og margt sem gestirnir sögðust geta lært frá Hrafnistu.

 

Góða helgi!

 

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS