Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 18. mars 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 18. mars 2016.

 

Daggjöld hjúkrunarheimila rædd í ríkisstjórn í morgun

Tekjur hjúkrunarheimila eru nánast eingöngu í formi daggjalda. Upphæð daggjalda er ákvörðuð einhliða af ríkinu en viðurkennt er af ríkinu að upphæð daggjalda byggi ekki á kostnaðargreiningu þeirrar þjónustu sem á að veita heldur á ógegnsæjum uppreikningi daggjaldsins frá árinu áður. Útkoma úr RAI-mati hefur áhrif á upphæð daggjaldanna milli heimila en grunndaggjaldið byggir engu að síður ekki á kostnaðargreiningu raunverulegrar þjónustu sem veitt er né heldur þeirra þjónustu sem ætti að veita samkvæmt velferðarráðuneyti. Þar að auki hafa greiðslur til hjúkrunarheimila ekki hækkað á síðustu árum í samræmi við aukna hjúkrunarþyngd heimilanna.

Kannski er þó eitthvað að rofa til því að minnisblað var lagt fyrir, og samþykkt, af ríkisstjórn í morgun, þess efnis að styrkja daggjaldagrunn hjúkrunarheimilanna í samræmi við aukna hjúkrunarþyngd undanfarinna ára samfara frágangi á þjónustusamningum fyrir hjúkrunarheimilin við Sjúkratryggingar Íslands.

Við fögnum þó ekkert strax þar sem útfærslur á þessu eru ekki tilbúnar en engu að síður er ánægjuefni að eitthvað virðist vera að fara gerast í þessu málum. Nárari upplýsingar um málið er að finna í eftirfarandi frétt á heimasíðu velferðarráðuneytis

https://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/rikid-aformar-ad-auka-framlog-til-reksturs-hjukrunarheimila

Stjórnir starfsmannafélaganna

Í gær átti ég, ásamt Luciu mannauðsstjóra og Sigrúnu forstöðumanni í Reykjavík, sameignlegan fund með fulltrúum starfsmannafélaga á öllum Hrafnistuheimilunum, alls um 20 manns.

Það var mjög gott að hitta hópinn og við skiptumst á skoðunum um starfsemi starfsmannafélaga og ræddum hugmyndir af verkefnum; bæði sameiginlegum fyrir öll heimilin en einnig fyrir hvert og eitt starfsmannafélag.

Það var mjög ánægjulegt að upplifa jákvæðnina og metnaðinn í þessu góða samstarfsfólki okkar sem tekið hefur að sér að vera í forsvari fyrir skemmtanalífi heimilanna enda mikilvægt einkenni góðra vinnustaða að hafa öflug starfsmannafélög.

 

Starfsafmæli í mars:

Nú í mars eiga að vanda nokkrir starfsmenn okkar formlegt starfsafmæli og fá afhentar gjafir samkvæmt venjum okkar. Þetta eru:

3 ára starfsafmæli: Elín Sigríður Bragadóttir á Mánateig og Sigríður Harpa Jónsdóttir á Sólteig, báðar í Reykjavík. Í Hafnarfirði eru það Kristín Þóra Benediktsdóttir ræstingastjóri, Barbara Dorota Maj í ræstingu, Viktoría Valdimarsdóttir og Ragnhildur Ægisdóttir, báðar á Bylgjuhrauni, Henný Þrastardóttir og Elín Þóra Ingólfsdóttir, báðar á Sjávar-/Ægishrauni og Aldís Hauksdóttir hjúkrunarfræðingur.

5 ára starfsafmæli: Ásdís Teresita Einarsson og Þorbjörg Sigurðardóttir á Sólteigi/Mánateigi, Sigfríður Birna Sigmarsdóttir á Lækjartorgi og Finnbjörg Skaftadóttir, deildarstjóri í dagþjálfun.

10 ára starfsafmæli: Í Reykjavík eru það Jóhanna G. Erlingsdóttir og Rungjit T. Trakulma, báðar á Lækjartorgi og Jóhanna B. Guðmundsdóttir á Sólteig. Einnig Kristín Hafsteinsdóttir á Sjávar- og Ægihrauni í Hafnarfirði.

Kærar þakkir fyrir ykkar framlag til Hrafnistu og til hamingju með áfangann!

 

Gleðilega páska!

Svo er það páskahátíðin góða sem framundan er. Vonandi fá allir sitt páskaegg frá Hrafnistu sem verið er að dreifa þessa dagana. Jafnframt eru flestar deildir búnar að skreyta hjá sér og sum heimilin ætla að vera með “gulan dag” á miðvikudaginn þar sem starfsfólk og íbúar eru hvattir til að klæðast einhverju gulu í tilefni hátíðarinnar.

Ég vil bara nota tækifærið og óska ykkur og fjölskyldum ykkar góðra og gleðilegra páskahátíðar. Ég vona að þið náið öll að eiga góðar stundir, hvort sem þið eruð á vöktum eða fáið kærkomið frí.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur