Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 11. mars 2016 - Pétur Magnússon forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 11. mars 2016.

Um “vasapeninga” íbúa á hjúkrunarheimilum.

Á þriðjudaginn birtist í Fréttablaðinu greinin „Boltinn er hjá velferðarráðuneytinu“ eftir mig sem ég er að fjalla um það vasapeningakerfi sem nú er við líði á hjúkrunarheimilum þegar íbúar flytja inn. Nýlega voru stjórnendur hjúkrunarheimila ásakaðir fyrir að vera að verja þetta kerfi en það er nú aldeilis ekki raunin. Það vildi ég leiðrétta skýrt með greininni.

Greiðslufyrirkomulag á hjúkrunarheimilum er ákvarðað að stjórnvöldum einum og hjúkrunarheimilin hafa ekkert um málið að segja. Tryggingastofnun reiknar greiðsluþátttöku hvers og eins út frá skattframtali viðkomandi, fjárhagslegum eigum og fleiri atriðum sem hjúkrunarheimilin hafa enga vitneskju um. Að loknum útreikningi fá hjúkrunarheimilin greidda upphæð sem ekki svarar til raunkostnaðar og hefur ekki gert um árabil. Frádregin er svo sú upphæð sem viðkomandi einstaklingur á að greiða til heimilisins. Því þurfa hjúkrunarheimilin að innheimta hjá heimilisfólki það sem uppá vantar og það er staða sem er okkur mjög mótfallin.

Að mínu mati  jaðrar núvernadi kerfi við mannréttindabrot. Líkt og Landssamband eldri borgara hefur ályktað um, höfum við á Hrafnistuheimilunum hvatt stjórnvöld til að breyta fyrirkomulaginu til samræmis við það sem tíðkast í nágrannalöndunum. Sem framlag til þeirrar nauðsynlegu undirbúningsvinnu sem þarf að eiga sér stað sendi Hrafnista erindi til velferðarráðuneytisins á síðasta ári þar sem ráðuneytið var hvatt til dáða í þessum efnum. Hrafnista bauð ráðuneytinu jafnframt fulltrúa í vinnuhóp til þess að vinna að málinu og að nýtt kerfi yrði prufukeyrt á einu til tveimur Hrafnistuheimilum í tilraunarskyni.

Í stuttu máli felst hugmynd um nýtt fyrirkomulag í því að hver íbúi hjúkrunarheimilis haldi fjárhagslegu sjálfstæði, ólíkt því sem er í dag. Viðkomandi greiddi þá fyrir fæði, húsnæði, þvott og þrif, allt eftir því hvaða þjónustu viðkomandi kysi að notfæra sér. Þá myndi viðkomandi jafnframt greiða húsaleigu í samræmi við fermetrafjölda og gæði húsnæðisins. Önnur þjónusta væri valfrjáls. Kostnaður vegna umönnunar, þjónustu læknis- og hjúkrunar yrði greiddur af stjórnvöldum. Fulltúi velferðarráðuneytisins kynnti þessa hugmynd á félagsfundi Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu fyrir nokkrum árum. Þar var henni vel tekið og hvatt til þess að hugmyndinni yrði hrint í framkvæmd. Boltinn er því hjá velferðarráðuneytinu sem vonandi kemst í þetta mikilvæga mál sem allra fyrst.

 

Nýtt Hrafnistu-bréf að koma út

Í lok næstu viku berst okkur í hús nýtt eintak að Hrafnistubréfinu. Eins og þið sjálfsagt munið kemur það út tvisvar á ári í um tvöþúsund eintökum. Auk þess að vera dreift til heimilismanna Hrafnistuheimilanna fer það um víðan völl. Sjálfsagt er líka að leyfa því að liggja frammi í öllum setustofum annars staðar þar sem fólk kemur saman. Blaðið verður með hefðbundnu sniði og verður sjálfur Laddi á forsíðumyndinni.

Hrafnistubréfið er svo alltaf hægt að finna hér á heimasíðu Hrafnistu. Ef farið er á upphafssíðu er það til hægri og er auðvelt að lesa það með því að smella á myndina.

 

Páskaeggin eru að koma!

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum er starfsfólk Nóa Sírus að leggja lokahönd á framleiðslu á 2.500 gulleggjum fyrir Hrafnistuheimilin. Líkt og síðustu ár hefur Hrafnista látið framleiða fyrir sig páskaegg í minnstu stærð með sérstökum Hrafnistumálshætti. Hugmyndin með þessu er að allir í Hrafnstusamfélaginu (starfsfólk, heimilisfólk og góðvinir) fá eitt egg í tilefni páskahátíðarinnar. Vísvitandi er ekkert sælgæti inn í eggjunum heldur einungis hugmyndin að virkja þann skemmtilega páskasið að fólk fá smá súkkulaði og sinn páskamálshátt, til hátíðarbrigða.

Eggjunum verður dreift á næstunni og við treystum því að allir leggi sitt að mörgum að þau verði kláruð fyrr en síðar!

Páskarnir verða annars með hefðbundnu sniði og eftir helgina verður gefin út páskadagskrá Hrafnistu með helstu viðburðum og hátíðarmáltíðum.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur