Top header icons

Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 23. ágúst 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 23. ágúst 2019.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Starfsafmæli í ágúst

Nú í ágúst fagna nokkrir úr okkar glæsta starfsmannahópi formlegum starfsafmælum. Fá allir afhentar starfsafmælisgjafir frá Hrafnistu í tilefni að því og stendur sú afhending yfir þessa dagana. Þeir sem eiga starfsafmæli í ágúst eru:

 

3 ára starfsafmæli: Marta Kristmundsdóttir á Sól-/Mánateig í Laugarásnum. Í Hraunvangnum eru það Valdís Pálmadóttir á Ölduhrauni og Nevruze Cabarova á Báruhrauni. Einnig Sveindís Svana Guðmundsdóttir á Nesvöllum.

5 ára starfsafmæli: Í Hraunvangnum eru það Bryndís Jónsdóttir í Borðsal/eldhúsi.

10 ára starfsafmæli: Ladawan Chotcharee í Borðsalnum í Laugarásnum. Í Hraunvangnum er það Jóhanna Bjarnadóttir á Sjávar-/Ægishrauni.

15 ára starfsafmæli: María Kristín Jónsdóttir á Lækjartorgi í Laugarási.

20 ára starfsafmæli: Elesía Daisog Bragason á Lækjartorgi í Laugarási. 

 

Við óskum þeim öllum til hamingju og þökkum kærlega fyrir glæst störf í þágu Hrafnistu!

 

Að líta björtum augum á hlutina

Við á Hrafnistu þjónustum vel yfir 1.000 manns á degi hverjum. Aðallega eru þetta eldri borgarar og er markmiðið að aðstoða fólk við að njóta lífsgæða í samræmi við óskir, getu og þarfir hvers og eins. Þetta er mikið og merkilegt starf og auðvitað er mikilvægt að við sjálf höldum því á lofti að svo sé. Auk þessa hóps sem við þjónustum beint, erum við í reglulegum samskiptum við þúsundir aðstandenda.

Í ljósi stærðar okkar og umfangs erum við oft í fjölmiðlum. Sem betur fer er það yfirleitt á jákvæðum nótum en þó eru það kannski neikvæðu fréttirnar sem fá mesta umfjöllun og athygli, bæði í samfélaginu en eins hjá okkar starfsfólki.  Oft gagnrýnum við fjölmiðla fyrir að vilja bara fjalla um neikvæða hluti en við þurfum þá líka að bera þá ábyrgð að vera dugleg að benda á jákvæða hluti og það sem vel er gert.

Þó við höfum ekki nákvæmar tölur til að styðjast við þá er alveg ljóst að yfirgnæfandi meirihluti þjónustuþega okkar og aðstandenda þeirra er ánægður með þjónustuna okkar – þessu er mikilvægt að halda til haga til að minna okkur á það góða starf sem við erum að vinna.

Svo við gleymum nú ekki að líta björtum augum á hlutina tók ég saman nokkur dæmi um jákvæða strauma og kveðjur sem við fáum frá aðstandendum og íbúum sem vilja hvetja okkur til dáða. Bara núna í sumar hafa, meðal annars, borist til mín að:

-Á einu heimili var deildarstjóra færðar 200.000 krónur frá ættingjum íbúa sem var nýlátinn. Aðstandendurnir voru mjög ánægðir með starfsemina á deildinni og vildu að peningarnir yrðu nýttir í að sameiginlega myndi starfsfólk deildarinnar gera eitthvað skemmtilegt fyrir sjálft sig.

-Á öðru heimili barst þessi orðsending í síðustu viku (örlítið stytt til að ekki sé hægt að greina hver á í hlut): HRÓS! Ég vil koma á framfæri hrósi og þakklæti til ykkar fyrir frábæra ummönnun á móður minni. Í hvert skipti sem ég kem að heimsækja hana þá mætir manni bros og létt er yfir öllum, jafnt starfsfólki sem skjólstæðingum. Á Hrafnistu er gott að vera. En og aftur takk fyrir umönnunina. Mbk. X

-Á þriðja heimilinu voru ættingjar með þessi skilaboð til stjórnanda:  „...komu ættingjar íbúa til mín og sögðu heimilið vera himnaríki, húsnæðið, maturinn og starfsmenn væru til fyrirmyndar, x hefur aldrei á sinni ævi búið við eins góðar aðstæður <3„

-Á fjórða heimilinu voru hjúkrunardeildastjóri og aðstoðardeildastjóri kallaðir nýlega á fund með ættingjum íbúa sem nýlega hafði látist. Þar voru þeim færðir tveir konfektkassar og falleg þakklætisorð ásamt umslagi. Í umslaginu voru 250.000 krónur sem eiga að beiðni íbúans og aðstandenda að nýtast starfsfólki deildarinnar á ákveðinn hátt í námsferð sem fyrirhuguð er á næstunni.

Svona kveðjur til okkar eru sannarlega vel til þess fallnar að minna okkur á að láta ekki neikvæða umræðu trufla okkur og láta góðu verkin tala!

 

Dvalarrými í Laugarási heyra sögunni til

Um þessar mundir eru merkileg tímamót í sögu Hrafnistu. Fyrsta Hrafnistuheimilið í Laugarásnum var upphaflega dvalarheimili með dvalarrýmum þegar starfsemin hófst fyrir rúmlega 60 árum. Eftir því sem tíminn leið varð hluti íbúanna á sjúkradeildum sem síðar nefndust hjúkrunarrými og nú síðustu 10 ár hefur verið unnið markvisst (í samræmi við stefnu stjórnvalda) að fækka dvalarrýmum og breyta þeim í hjúkrunarrými. Í vikunni var síðasti íbúinn til að vera í dvalarrými á Hrafnistu í Laugarásnum færður yfir í hjúkrunarrými og þar með lýkur sögu dvalarrýma á Hrafnistu í Laugarásnum. Eftir eru þó í starfsemi hússins tæplega 200 hjúkrunarrými, 30 dagþjálfunarrými með áherlsu á endurhæfingu og 30 dagþjálfunarrými fyrir einstaklinga með heilabilun.

 

Góða helgi og gleðilega menningarnótt!

 

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur