Top header icons

Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 17. maí 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 17. maí 2019.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

Nú vinnum við Júróvisíon!

Væntanlega hefur ekki farið framhjá neinum að á morgun er Júróvision-kvöldið þar sem Hatari mun láta hatrið sigra heiminn (eða a.m.k Evrópu). Að vanda er mikið um dýrðir og búið er að skipuleggja spennandi júróvisíon-partý á öllum deildum Hrafnistuheimilanna en löngu er komin skemmtileg hefð fyrir því hér á Hrafnistu. Eftir æsispennandi undanúrslit er úrslitakvöldið sjálft að renna upp og þá er um að gera að skella aftur í partý.

Mig langar að þakka ykkur, ágæta samstarfsfólk, fyrir að vera tilbúin til að leggja á ykkur aukalegt vinnuframlag, svo þessi „partý“ verði að veruleika. Tilbreyting og upplyfting sem þessi tilbreyting er, gerir ótrúlega mikið fyrir fólkið okkar, mun meira en flesta grunar.

Hrafnista heldur áfram að vera leiðandi aðili í þjónustu við aldraða

Í vikunni vígðum við formlega nýja dagdvöl fyrir einstaklinga með heilabilun en þessi dagdvöl ber nafnið Viðey og er staðsett á Hrafnistu í Laugarási. Umfjöllun um vígsluna má finna á heimsíðu Hrafnistu.

Eitt af markmiðum Hrafnistu er að vera leiðandi í þjónustu og umönnun við aldraða. Með opnun Viðeyjar erum við sannarlega að uppfylla þetta hlutverk okkar þar sem Viðey er stærsta dagdvöld fyrir einstaklinga með heilabilun hér á landi. Við á Hrafnistu höfum síðustu ár verið leiðandi aðili í starfsemi dagdvala enda erum við stærsti aðilinn sem starfrækir dagdvalir hér á landi. Viðey hefur því alla burði til að verða leiðandi aðili á sínu sviði hér á landi. Það verður spennandi en krefjandi starf sem býður starfsfólksins á Viðey en það er um að gera að senda þeim öllum enn og aftur hamingjuóskir og bestu kveðjur um gott gengi!

Skógarbær varð 22. ára í gær!

Hrafnista Skógarbær átti 22 ára afmæli í gær en eins og flestir vita tókum við á Hrafnistu við rekstri hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar nú í maí á þessu ári og var Skógarbær þar með sjöunda Hrafnistuheimilið ⯑ Vegna þessa var haldin glæsileg afmælisveisla í gær þar sem söngkonan Katrín Halldóra kom og söng lög Ellýjar Vilhjálms fyrir íbúa og gesti. Húsfyllir var á tónleikunum og á eftir var boðið upp á afmælistertu. Skemmtilegar myndir frá afmælistónleikunum má sjá í frétt á heimasíðu Hrafnistu.

Til hamingju með daginn Skógarbær!

Aðalfundur Landspítala

Eftir hádegið í dag sótti ég aðalfund Landspítala. Þjóðarsjúkrahúsið okkar er eins og flestir vita langstærsta heilbrigðisstofnun landsins með yfir 5.000 starfsmenn. Ef Hrafnista væri skilgreind sem heilbrigðisstofnun værum við sú næst stærsta. Við á Hrafnistu erum því skiljanlega í miklu og yfirleitt mjög góðu samstarfi við ýmsar deildir spítalans og því áhugavert að fylgjast með gangi mála þar. Þar að auki var ég á síðasta ári skipaður í ráðgjafaráð Landspítala þannig að út frá því sjónarhorni var fundurinn einnig forvitnilegur fyrir mig. Ársskýrslu Landspítala má finna á heimasíðu spítalans og hvet ég áhugasama til að skoða skýrsluna.

 

Góða helgi og gleðilegt júróvisíon!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur