Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 8. mars 2019 - Gestaskrifari er Ester Gunnsteinsdóttir, deildarstjóri sjúkraþjálfunar Hrafnistu Boðaþingi Kópavogi

Ár er liðið.

Núna 1. mars síðastliðinn var komið ár síðan ég hóf störf hjá Hrafnistu. En ég starfa á Hrafnistu Boðaþingi, í göngufjarlægð frá heimili mínu, sem er ómetanlegt þegar ég rifja upp þær klukkustundir sem ég eyddi áður sitjandi í bíl í umferðarhnútum. Óhætt er að segja að fyrsta árið hefur verið fjölbreytt og krefjandi en umfram allt skemmtilegt og gefandi.

Ein af skemmtilegustu stundunum í vinnunni er þegar við erum með boccia, en það er tvisvar í viku hjá okkur. Boccia er einfaldur boltaleikur sem hentar fyrir alla og hægt að aðlaga að þörfum þeirra sem þurfa og getur haft góð heilsufarsleg og félagsleg áhrif á þátttakendur. Það krefst útsjónarsemi, eykur samhæfingu, styrk og jafnvægi en á umfram allt að vera skemmtilegt.

Mikill áhugi hefur verið hjá íbúum og gestum dagdvalarinnar á boccia hjá okkur í Boðaþingi og er það mjög vel sótt en allt að 20 manns mæta tvisvar í viku og spila. Allir eru velkomnir og alltaf góð stemmning. Eftir því sem fjöldinn hefur aukist í vetur jókst þörfin fyrir fleiri bocciasett hjá okkur og tóku spilararnir okkar sig saman nýlega og söfnuðu fyrir nýju setti.  Það tók ekki langan tíma og var mjög gleðilegt að telja upp úr Mackintosh söfnunardósinni nýlega og fara og kaupa nýtt sett sem er nú komið í notkun. Það litla sem vantaði uppá gáfu starfsmenn glaðir úr dósasjóðum sínum. Söfnunin skapaði enn meiri stemmningu í hópnum og jók á samkennd.  Einnig er gaman að segja frá því að á síðasta ári höfum við tvisvar brotið upp æfingarnar og farið með hópinn okkar og keppt við þau á Hrafnistu Ísafold og einnig fengið þau í heimsókn til okkar í keppni og kaffi. Ekki síst eru bocciatímarnir góð samvera, íbúar kynnast betur hvor öðrum, bæði milli deilda og einnig gestum dagdvalar. Þeir eiga góða stund þar sem stundum reynir á þolinmæði og umburðarlyndi en einnig er létt kappsemi við lýði. Fyrir utan þau alkunnu góðu áhrif sem regluleg hreyfing hefur á almenna heilsu og lífsgæði.

 

Góða helgi.

Ester Gunnsteinsdóttir

Deildarstjóri sjúkraþjálfunar

Hrafnistu Boðaþingi

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur