Top header icons

COVID spurt og svarað Hrafnista á Facebook
 

Föstudagsmolar 1. mars 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 1. mars 2019.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Alþjóðlegi hrósdagurinn er í dag!

Í dag, föstudaginn 1. mars er Alþjóðlegi hrósdagurinn. Ingrid Kuhlman, sem heldur úti síðunni „Hrós dagsins“ á Facebook, er aðal hvatamaðurinn að deginum hér á landi. Hún segir: „Allir hafa efni á að hrósa og allir græða á því. Það er ekkert sem gleður meira, gefur meiri orku og gerir fólk ánægðara en hrós sem er sett fram af einlægni. Hrós felur í sér kærleika og lætur aðra finna að við kunnum að meta þá. Hrós fyllir tankinn og er koss á sálina.“

Það á nú ekki að þurfa Alþjóðlegan hrósdag, til að þess að forstjórinn sendi starfsfólki sínu hrós. Ég hef áður skrifað hér að það eru alger forréttindi að fá að vera í forsvari fyrir svona glæstan starfsmannahóp, eins og Hrafnistuheimilin búa yfir. Sama má segja um starfsemina þegar maður sér eldmóðinn og kraftinn hjá ykkur við að vilja gera sífellt betur í þágu aldraðra og halda þannig áfram með Hrafnistu í leiðtogahlutverkinu í öldrunarþjónustu á Íslandi. Áfram þið, áfram Hrafnista!

Hrafnista er einn stærsti vinnustaður hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða hér á landi!

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem eru að meginstefnu til ekki ríkisfyrirtæki og starfa á heilbrigðissviði samkvæmt þjónustusamningi eða öðrum tengdum greiðslum frá ríkinu, t.d. daggjöldum. Innan samtakanna eru í dag 46 fyrirtæki, félagasamtök og/eða sjálfseignarstofnanir, þ.á.m. flest hjúkrunarheimili landsins. Meðal aðildarfélaga eru Hrafnistuheimilin, Grund hjúkrunarheimili, SÁÁ, Krabbameinsfélag Íslands o.fl. Greiðslur ríkisins til aðila innan SFV nema samanlagt um 15 % af heildarútgjöldum ríkisins til heilbrigðismála á ári.

Til fróðleiks er gaman að geta þess að aðildarfélög samtakanna mynda samanlagt fjölmennasta vinnustað sjúkraliða á landinu og næst fjölmennasta vinnustað hjúkrunarfræðinga (á eftir Landspítalanum). Um 10% hjúkrunarfræðinga landsins starfa hjá aðildarfélögum SFV. Innan samtaknna eru Hrafnistuheimilin langstærst en um 100 hjúkrunarfræðingar starfa á Hrafnistuheimilunum sem setur okkur á lista sem einn af fimm stærstu vinnustöðum hjúkrunarfræðinga hér á landi. Um 32% sjúkraliða landsins starfa hjá aðildarfélögum SFV og samkvæmt nýjustu talningu er 116 sjúkraliðar við störf núna á Hrafnistuheimilunum sem gerir okkur einnig að einum allra stærsta vinnustað sjúkraliða hér á land.

Öskudagurinn er 6. mars – hvað ætlar þú að vera?

Nú styttist í eina af mínum uppáhaldsvikum ársins – bolludag, sprengidag og öskudag.

Á síðustu árum hefur í mörgum fyrirtækjum magnast upp sá siður að starfsfólk smelli sér í búninga á öskudeginum og fari aðeins út fyrir þægindaramman. Þetta er skemmtilegur siður sem sannarlega er mikilvægt að viðhalda ekki síst hér á Hrafnistuheimilunum.

Mig langar því að nota þetta tækifæri og hvetja ykkur, ágæta samstarfsfólk, til dáða í búningamálum eða bara til að vera með höfuðfat þennan dag. Marga þarf reyndar ekkert að hvetja þar sem komnar eru flottar hefðir á sumum deildum fyrir búningum, jafnvel búningaþemum. En annars staðar þarf kannski aðeins að ýta við hlutunum og aðstoða við að koma á skemmtilegri stemningunni í vinnunni. Auðvitað er ekki hægt að skylda einn eða neinn, en við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar enda held ég að allir (flestir) hafi nú bara mjög gaman af þessari tilbreytingu þegar upp er staðið. 

Þetta þarf ekki að vera flókið og Hafnarfjörður er t.d. nú þegar byrjaður að auglýsa og hvetja fólk til að mæta í búningum eða með höfuðfat.

 

Að lokum er gaman að geta þess að í dag eru 5 ár síðan Hrafnista tók við rekstri Hlévangs í Reykjanesbæ.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur