Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 27. apríl 2018 - Gestaskrifari er Halldór Eiríksson, verkefnastjóri innkaupa og rekstrar

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2017_fostudagsmolar_2018.jpeg

Langhlaup fyrir byrjendur

„Ankeri!“ hrópar leiðbeinandinn og hópurinn tekur kröftuglega undir einum rómi „Ankeri!!“, stekkur hæð sína í loft upp svo glymur í öllu húsinu. Þannig minnist ég vel heppnaðra stjórnendadaga á Laugarvatni sl. vetur. Þetta er eitt af mörgum skemmtilegum námskeiðum sem stjórnendum hefur verið boðið upp á undanfarin misseri hjá Hrafnistu. Svona námskeið gefa okkur tækifæri til að eiga góðan dag, hrista hópinn saman og læra sitthvað gagnlegt í leiðinni. Það er ekki annað hægt en að þakka fyrir þetta framtak.

-Á ofangreindu námskeiði lærðum við að rétt líkamsstaða og það að bera sig vel smitar út frá sér í auknu sjálfstrausti og vinnugleði. „Fake it untill you make it“ eins og kaninn segir. Og ekkert jafnast á við að hefja daginn dansandi fyrir framan spegilinn með heyrnartólinn í botni og kyrja „What a feeling!“ öðrum fjölskyldumeðlimum til armæðu og nágrönnum til mikillar undrunar. Maður verður óstöðvandi þann daginn!

-Á 5 choices námskeiðinu var farið yfir 5 lykilákvarðanir sem við getum tekið til að bæta árangur jafnt í vinnu og einkalífi og auka „focus“ á það sem máli skiptir. Við lærðum að flokka verkefni eftir mikilvægi og hversu áríðandi þau eru. Okkur var m.a. kennt að setjast niður og skipuleggja vikuna framundan með þetta í huga og fylgja planinu eftir með styttri daglegri yfirferð. Er þeim tíma vel varið.

-Á samskiptanámskeiðinu vorum við t.d. minnt á að það skiptir miklu máli hvernig við segjum hlutina og hvað við nákvæmlega segjum. Og góð regla er að passa upp á að allir skilji og meðtaki niðurstöðu fundar á sama hátt og gott er að umorða hlutina til að tryggja sameiginlegan skilning. Svo fengum við að vita að það er ekki til neitt sem heitir „multi-tasking“ en það vissum við karlmennirnir í hópnum reyndar fyrir!

-Á núvitundarnámskeiðinu lærðum við að það tekur einungis 4 mínútur til að koma ró á tvístraðan huga með einfaldri núvitundartækni og koma einbeitingunni í betra horf. Ekki skemmir fyrir að hugur í núvitund er betri í að hlusta og hæfari í samskiptum! Svona tengist þetta nú allt skemmtilega ef út í það er farið.

Vitanlega er þetta aðeins brot af þeim lærdómi sem við höfum fengið á ofangreindum námskeiðum. Óþarfi er að taka fram að námskeiðin kynna okkur fyrst og fremst fyrir tólum og tækjum sem þarf að vinna með að þeim loknum því þau gagnast takmarkað nema við tileinkum okkur verkfærin og samtvinnum inn í okkar daglega líf. Það er undir sjálfum okkur komið. Þó skilaboðin séu í sjálfu sér einföld er samt svo auðvelt að setja þau til hliðar í amstri dagsins þó góður vilji sé fyrir hendi. Ástundun og skuldbinding eru hér lykilorðin býst ég við því það er mikið langhlaup að breyta af áralöngum venjum og ósiðum. Það er áskorunin framundan.

Sjálfur hef ég reynt að tileinka mér margt úr þessum fróðleik – í öðru mætti ég standa mig betur í eins og gengur – en að sjálfsögðu þarf hver og einn að vinsa úr og vinna með það sem virkar best. Það lærist með tímanum. Ég ætla a.m.k. að reyna að gera mitt besta! – skítt með nágrannann!

Ankeri!

 

Nýr sorpsamningur – aukin flokkun

Eins og einhverjum rekur etv. minni til tók Gámaþjónustan nú nýverið við sorphirðumálunum hjá Hrafnistuheimilunum í stað Íslenska Gámafélagsins. Um leið var aðstaðan tekin út á hverju heimili og aukið við möguleikana á bættri flokkun á sorpi frá því sem verið hefur. Þannig var bætt við sér gám(um) fyrir hreinan bylgjupappa og öðrum sér gám(um) fyrir plast á hverju heimili.

Við þessi tímamót var í fyrsta skipti hafin flokkun á sorpi á Nesvöllum og Hlévangi og er óhætt að segja að þau heimili hafi tekið vel við sér því gámar af flokkuðu sorpi yfirfylltust og þurfti að bæta við ílátum til að hafa undan. Önnur heimili hafa líka verið áhugasöm og hefur Hulda S. Helgadóttir verið innan handar við að greiða úr spurningum sem upp hafa komið en starfsfólk getur leitað til hennar sem fyrr um ráðgjöf og leiðbeiningarefni.

Jafnframt má benda á að hægt er að fá leiðbeinendur frá Gámaþjónustunni í heimsókn til þess taka stutt 20-30 mín fræðsluerindi um flokkunarmál og fór t.a.m. eitt slíkt fram í Hafnarfirði nú í vikunni. Áhugasamir geta leitað til Fræðsluteymisins (Lucíu) ef áhugi er fyrir slíku.

Ég vil að endingu hvetja samstarfsfólk til að halda áfram að vera duglegt að flokka því í því felst þó nokkur peningalegur sparnaður sem ráðstafa má í þarfari hluti. Umhverfislegur ávinningur er þó ekki síður mikilvægur eins og t.d. umræðan um plastnotkun landsmanna ber með sér. Best er þó að minnka magn sorps eins og hægt er. Því miður er oft erfiðara í að komast en um að tala að minnka sorpmagn t.d. í formi plasts og pappa því það fylgir þeirri vörunotkun sem er samfara starfseminni. Það besta sem við getum gert – a.m.k til skamms tíma litið – er að gera sem best úr stöðunni með því að flokka plastið og pappírinn frá og koma til skila í viðeigandi gáma. Öðru máli gegnir um matarsóun, en magn matarúrgangs er stórt séð alfarið í okkar höndum. Við rotnun á urðuðum mat verður til metangas sem er mjög öflug gróðurhúsalofttegund og því er minnkun matarsóunar m.a. þess vegna þarft innlegg í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

 

Bestu kveðjur,

Halldór Eiríksson

Verkefnastjóri innkaupa og rekstrar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur