Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 23. febrúar 2018 - Gestaskrifari er Hjördís Ósk Hjartardóttir, deildarstjóri á Sjávar- og Ægishrauni Hrafnistu Hafnarfirði

Sumarið er 1995, ég er á sautjánda ári og er hjólandi á leið í sumarvinnuna mína á Hrafnistu. Þetta sumar starfaði ég við ræstingar á 4. hæðinni og næstu 5 ár vann ég á Hrafnistu með skólanum í aðhlynningu. Ekki grunaði mig þetta sumar að Hrafnista ætti eftir að eiga svona stóran stað í hjarta mínu tuttugu og þremur árum seinna.

Á deildinni minni Sjávar- og Ægishrauni starfar frábært starfsfólk sem gerir alltaf sitt besta til þess að heimilisfólkinu okkar líði sem best. Heimilisfólkið  á hug okkar allan og við reynum á hverjum degi að aðstoða það með okkar faglegu nálgun, virðingu og umhyggju.  

Í desember hefur starfsfólkið á Sjávar- og Ægishrauni boðið heimilisfólkinu okkar í jólakaffi. Starfsfólkið tekur sér tíma í dagsins önn, bakar fyrir heimilisfólkið og býður upp á dýrindis kræsingar. Frá heimilisfólkinu upplifum við mikla gleði og ánægju. En það er enginn eins ánægður og við starfsfólkið að fá þetta tækifæri til að gleðja.

Í vetur þá opnuðum við Facebook síðu fyrir aðstandendur. Við hugsuðum út frá okkur, hvernig vildum við hafa þetta ef foreldrar, makar eða aðrir ættingjar væru á hjúkrunarheimili. Við myndum vilja fá fréttir og við myndum vilja fá myndir af okkar ættingjum. Síðunni okkar hefur verið mjög vel tekið og við erum stolt af henni.

Eftir síðustu jól þá heilsaði ég upp á heimiliskonu hjá mér og spurði hvernig henni liði hjá okkur á Hrafnistu. Afskaplega vel sagði hún og þegar ég spurði hana hvort það væri eitthvað sem hún saknaði eftir að hún flutti til okkar þá svaraði hún: „Já, ég sakna þess að baka ekki pönnukökur“. Ég svara henni að við myndum finna tíma til að baka pönnukökur. Viku seinna vorum við mættar fyrir framan eldavélina og hún kom með sínar þrjár pönnur og pönnukökuspaðann. Hún hafði sagt mér að hún kreisti alltaf sítrónu í deigið og að sjálfsögðu fór ég og verslaði sítrónu, svo allt yrði eins og hún var vön. Heimiliskonan mín bakaði pönnukökur fyrir 50 heimilismenn og starfsfólk. Hún saknaði þess að baka pönnukökur og í stað þess að segja mikið skil ég þig vel þá skelltum við í pönnukökuveislu og hún uppskar mikið lof fyrir. Það eru þessir litlu hlutir sem skipta svo miklu máli til að viðhalda gleðinni.

Þegar ég útskrifaðist úr hjúkrun þá hóf ég störf aftur hjá Hrafnistu og hér er ég enn og starfsaldurinn minn hjá Hrafnistu er rúmlega 18 ár. Ég er oft spurð, ertu enn á Hrafnistu eða það er sagt við mig já þú ert alltaf á Hrafnistu. Ég svara því stolt að hvergi annars staðar vill ég vera, því á Hrafnistu er unnin frábær vinna og það er alltaf eitthvað nýtt um að vera. Þegar ég var yngri þá var ég fljót að átta mig á hvernig hjúkrunarfræðingur ég ætlaði að vera. Ég ætlaði að vera sú sem þorði að takast á við nýjar áskoranir, ég ætlaði að vera sú sem var alltaf tilbúin að gera eitthvað nýtt, tilbúin að gera eitthvað skemmtilegt og tilbúin að vera fyrirmynd fyrir aðra. Ég er svo heppin að starfa á Sjávar- og Ægishrauni því á minni deild eru allir tilbúnir að vera fyrirmyndir, þau eru tilbúin að takast á við nýjar áskoranir og þau eru alltaf tilbúin að gera eitthvað skemmtilegt eins og að klæða sig sem Lína Langsokkur, kisur, indjánar eða kanínur á öskudaginn. Ég er óendanlega stolt af þeim og mér finnst þau langbest !

Lokaorð mín koma frá Mayu Angelou og þessi orð segja svo margt;

 „Mér hefur lærst að fólk gleymir því sem þú sagðir, fólk gleymir því sem þú gerðir en það gleymir því aldrei hvernig þeim leið nálægt þér“.

 

Góða helgi !

Hjördís Ósk Hjartardóttir

Hjúkrunardeildarstjóri

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 





Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur