Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 2. febrúar - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 2. febrúar 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

10 ára starfsafmæli í gær!

Í gær, fyrsta febrúar átti ég sjálfur 10 ára starfsafmæli á Hrafnistu. Hef ég af því tilefni fengið afhenta hefðbundna 10 ára starfsafmælisgjöf frá Hrafnistu eins og allir starfsmenn sem ná þessum starfsaldri – 25.000 króna gjafabréf á Grillmarkaðinn. Takk kærlega fyrir mig.

Það var sem sagt 1. febrúar árið 2008 sem ég steig mín fyrstu spor hér. Það er óhætt að segja að tíminn líði hratt, mér finnst ég stundum vera bara nýbyrjaður. Þrátt fyrir 10 ár finnst mér ég ennþá læra heilmikið nýtt á hverjum degi og það má sannarlega segja að engir tveir dagar séu eins. Ég hef líka lofað sjálfum mér að ef ég er kominn með þann þankagang að ég geti ekki lært neitt nýtt og búið sé að gera allt eins gott og mögulegt er – þá er kominn tími til að hætta; því það er alltaf hægt að gera eitthvað betur. Sjálfsagt ýmsum til ama en vonandi einhverjum til gleði, skal það upplýst hér að ég er ekki ennþá kominn að þessum tímapunkti.

Á þessum 10 ára starfsafmælisdegi mínum er gaman að hugsa til baka. Ég held að upp úr standi allur fjöldinn af framúrskarandi skemmtilegu, drífandi og kröftugu fólki sem heldur Hrafnistu gangandi. Það eru alger forréttindi að fá að vera í forsvari fyrir svona hóp og starfsemi þegar maður sér eldmóðinn og kraftinn við að vilja gera sífellt betur í þágu aldraðra og halda þannig áfram með Hrafnistu í leiðtogahlutverkinu í öldrunarþjónustu á Íslandi.

Hrafnista í Garðabæ fagnaði 1. árs afmæli í gær!

Ekki má gleyma því að dagurinn í gær var merkisdagur í sögu Hrafnistu vegna þess að þá var nákvæmlega eitt ár síðan við tókum við rekstri hjúkrunarheimilisins Ísafoldar í Garðabæ. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar en í heild erum við mjög ánægð með hvernig til hefur tekist. Ýmsum verkefnum er þó ennþá ólokið en í því sambandi má ekki gleyma því að ekki er hægt að gleypa fíl í einum bita. Þetta kemur allt smásaman og er hluti af því að gera góða Hrafnistu ennþá betri.

Í tilefni dagsins var íbúum heimilisins boðið upp á gamaldags lambahrygg í hádeginu sem eldaður var á hverri deild fyrir sig og auðvitað var spilað og sungið. Þetta tókst allt ljómandi vel – til hamingju með daginn Garðabær!

Svartklæddur miðvikudagur – 31. janúar

Án efa vakti fátt jafnmikla athygli á liðnu ári og svonefnd #MeToo umræða. Hér á landi sem víðar, hefur orðið mikil vakning um hverskonar kynbundið ofbeldi og áreitni undir þessu nafni. Vakningunni er ætlað að draga þessi mál fram í dagsljósið og reyna að breyta menningu samfélaga á þann hátt að kynbundið ofbeldi og áreitni verði ekki lengur liðin.

Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) hvatti konur til að klæðast svörtu síðasta miðvikudag, 31. janúar. Hugmyndin var að sýna þannig samstöðu og stuðning við #MeToo vitundarvakninguna sem hefur verið í gangi undanfarið.

Við á Hrafnistu ákváðum að vera með í þessu og á öllum heimilum var starfsfólk (líka við karlarnir) og íbúar hvatt til að klæðast svörtum fötum þennan dag. Þátttakan var almennt mjög góð og vilj ég nota þetta tækifæri og þakka ykkur fyrir að taka þátt og sýna málefninu samstöðu.

Perónuverndarmál í skoðun á Hrafnistu

Þann 25. maí n.k. tekur gildi ný evrópsk persónuvendarlöggjöf en um er að ræða umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á persónuverndarlöggjöfinni í 20 ár.

Öll fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og stjórnvöld vinna nú að undirbúningi á innleiðingu löggjafarinnar.

Skipaður hefur verið umbótahópur á Hrafnistu til að undirbúa innleiðingu hennar í okkar starfsemi og vinnur hópurinn í náinni samvinnu við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Þessi mál verða svo kynnt betur þegar þau eru farin að skýrast en ekki er ólíklegt að einhverjir verkferlar hjá okkur breytist í tengslum við þetta.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS 

 

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur