Fréttasafn

Nýr aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á Hrafnistu Skógarbæ

 

Jana Kristín Alexandersdóttir hefur verið ráðin aðstoðardeildarstjóri hjúkrunar á 1. og 3. hæð Hrafnistu Skógarbæ frá 1. júlí 2021. Jana lauk B.Sc. prófi í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2018. Hún hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur í Skógarbæ frá því í nóvember árið 2020. Jana starfaði áður á Landspítalanum m.a. á Kvenlækningadeild.

 

Lesa meira...

Heimsóknartakmörkunum aflétt á Hrafnistuheimilunum frá og með 15. júní

 

Samkvæmt sóttvarnaryfirvöldum er staðan á Íslandi varðandi heimsfaraldur Covid-19 nú góð og verulegar tilslakanir hafa verið boðaðar á samkomutakmörkunum frá og með 15. júní. Þetta eru gleðifréttir og hefur Neyðarstjórn Hrafnistu ákveðið að aflétta verulega þeim heimsóknartakmörkunum sem hafa verið undanfarin misseri á heimilunum.

Frá og með 15. júní verða heimilin opnuð að nýju eins og fyrir tíma kórónuveirunnar. Engar takmarkanir eru á fjölda heimsóknargesta og aðstandendur hafa heimild til að vera í samrýmum deilda með íbúum og starfsfólki. Áfram verður þó ávallt að sýna ýtrustu varkárni í heimsóknum og mikilvægt er að hafa áfram í huga persónulegar sýkingavarnir s.s. handþvott og handsprittun til forðast að smit berist á milli einstaklinga.

 

Neyðarstjórn Hrafnistu tilkynnti íbúum að aðstandendum þessar breytingar í dag:

Tilslökun á heimsóknartakmörkunum á Hrafnistuheimilunum frá og með þriðjudeginum 15. júní 2021

 

Lesa meira...

Boðaþingshátíð í tilefni af 10 ára afmæli Hrafnistu í Boðaþingi

 

Í síðustu viku voru sumarblómin sett niður á Hrafnistu í Boðaþingi með aðstoð íbúa, grasið slegið og beðin hreinsuð. Í vikunni hófst síðan afmælisvika Boðaþings en í mars árið 2020 varð Hrafnista í Boðaþingi 10 ára og þá buðu aðstæður í samfélaginu ekki upp á veisluhöld. Nú rúmu ári síðar er svo sannarlega kominn tími til að fagna þessum fyrsta áratug Hrafnistu í Boðaþingi. Það verður nóg um að vera næstu daga til að halda upp á þau tímamót.

Boðaþingshátíðin hófst formlega á miðvikudaginn þegar Guðrún Árný söngkona reið á vaðið og hugljúfir og dásamlegir tónar fylltu húsið. Dagurinn í gær var svo fullur af lífi og fjöri þegar opnuð var sýning á afrakstri Listaklúbbs Boðaþings en þar má sjá verk eftir íbúa og gesti dagdvalar í Boðaþingi. Að sjálfsögðu var skálað í freyðivíni fyrir listamönnum og gestum. Þá var haldið Kráarkvöld að hætti Breta eftir kaffið og þar var svo sannarlega líf og fjör.

 

Lesa meira...

Hátíðarhöld á Sjómannadaginn og heiðrun sjómanna

 

Hefðbundin dagskrá Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins var haldin með takmörkunum á sjómannadaginn, þann 6. júní sl. Hátíð hafsins við gömlu höfnina var ekki haldin í ár vegna gildandi samkomutakmarkana en að venju ríkti mikil hátíðarstemning á Hrafnistuheimilunum á sjómannadaginn þar sem skreytingar og flöggun eru hafðar í hávegum og íbúum og aðstandendum boðið í hátíðarkaffi.

Látinna og týndra minnst
Dagskráin hófst að morgni sjómannadagsins með minningarathöfn um drukknaða og týnda sjómenn við Minningaröldur Sjómannadagsráðs við Fossvogskirkju þar sem þeirra var minnst. Við athöfnina stóðu aðilar frá Landhelgishæslunni heiðursvörð og blómsveigur var lagður að minnismerkinu um óþekkta sjómanninn.

Sjómannamessa í Dómkirkjunni
Að lokinni minningarathöfn í Fossvogi hófst hin árlega sjómannamessa  í Dómkirkjunni þar sem biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, predikaði. Séra Sveinn Valgeirsson þjónaði fyrir altari og starfsfólk Landhelgisgæslunnar las úr ritningunni. Dómkórinn söng undir stjórn Kára Þormar organista. Einsöng annaðist Magnús Már Björnsson. Hátíðarmessunni var að venju útvarpað á Rás 1 Ríkisútvarpsins.

Heiðrun sjómanna

Að lokinni guðsþjónustu voru sjómenn heiðraðir eins og venja er en vegna fjöldatakmarkana var heiðrunarathöfn Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins með óhefðbundnu sniði í ár. Sökum heimsfaraldursins féll Hátíð hafsins niður en Sjómannadagsráð lét ekki deigan síga og hélt látlausa athöfn í þjónustumiðstöðinni Sléttunni á Sléttuvegi fyrir sjómenn þá er skarað hafa fram úr og skilað af sér farsælu starfi til sjós. Þeir sem voru heiðraðir eru Guðlaugur Jónsson, Árni Sigurbjörnsson, Benedikt Svavarsson, Jón Bjarnason og Ólafur Theódór Skúlason. Hefð er fyrir því að karlakór flytji viðeigandi sönglög af þessu tilefni en ákveðið var að sníða stakk eftir vexti og fá Gissur Pál Gissurarson til að þenja raddböndin fyrir viðstadda. Á daginn kom að ekkert píanó var til staðar á Sléttunni og því yrði enginn undirleikurinn. Fulltrúar Sjómannadagsráðs settu sig því í samband við stórútgerðarmanninn Guðmund Kristjánsson í Brimi og sögðu honum frá málavöxtum. Guðmundur er vanur því að láta hendur standa fram úr ermum og var fljótur til að glæða þjónustumiðstöðina tónum og lífi með því að kaupa stórgóða slaghörpu af gerðinni Kawai. Hljóðfærið var svo vígt af Bjarna Frímanni Bjarnasyni, hljómsveitastjóra og píanóleikara, sem annaðist undirleik í athöfninni. Þessi höfðinglega gjöf mun nýtast gestum þjónustumiðstöðvarinnar á Sléttunni og íbúum á Hrafnistu Sléttuvegi við hin ýmsu tilefni um ókomna tíð. Sjómannadagsráð þakkar Guðmundi Kristjánssyni í Brimi innilega fyrir þessa rausnarlegu gjöf. Viðburðurinn var mjög hátíðlegur og tókst mjög vel til en honum var streymt á heimasíðu Sjómannadagsráðs og á Facebooksíðu Sjómannadagsráðs.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við athöfnina en eftir heiðrun sjómanna var boðsgestum boðið að þiggja veitingar. Þennan dag hélt KK tónleika fyrir gesti og gangandi á Sléttunni.

Íslands Hrafnistumenn
Síðasta dagskrárlið Sjómannadagsráðs á sjómannadaginn í ár annaðist Ríkisútvarpið á Rás 1 með dagsrárliðnum Íslands Hrafnistumenn. Í þættinum ræddi Margrét Blöndal við Hálfdan Henrysson, formann ráðsins og Guðmund Hallvarðsson, fyrrverandi formann um sögu Sjómannadagsráðs.

 

Lesa meira...

Streymt frá heiðrun sjómanna

 

Eins og venja er verða sjómenn heiðraðir á sjómannadaginn en að þessu sinni við lokaða athöfn að viðstöddum mökum og aðstandendum þeirra sem heiðraðir verða ásamt fulltrúum Sjómannadagsráðs. Heiðrun sjómanna hefst kl. 13.30 á Facebooksíðu Sjómannadagsráðs.

Smellið hér til að melda ykkur á viðburðinn og fylgjast með athöfninni.

 

Lesa meira...

Tilslakanir á grímuskyldu gesta á Hrafnistuheimilunum

 

Gerðar hafa verið tilslakanir á grímuskyldu gesta á Hrafnistuheimilunum frá og með deginum í dag, þriðjudaginn 25. maí 2021.

Aðrar reglur eru óbreyttar enn um sinn.

Neyðarstjórn Hrafnistu tilkynnti íbúum að aðstandendum þessar breytingar fyrr í dag:

Tilslakanir á grímuskyldu gesta á Hrafnistuheimilunum taka gildi þriðjudaginn 25. maí 2021

 

Gestir eru vinsamlegast beðnir um að athuga að starfsmenn Hrafnistu eru ekki allir fullbólusettir og því þurfum við enn að fara varlega og virða nándarmörk.  

 

Lesa meira...

Jónína Jörgensdóttir 35 ára starfsafmæli á Hrafnistu

 

Jónína Jörgensdóttir (Jonna), söngstjóri og kaupfélagsstjóri með meiru í Kaupfélaginu á Hrafnistu í Laugarási, hefur starfað á Hrafnistu í hvorki meira né minna en 35 ár. Um leið og við óskum henni til hamingju með áfangann er henni þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem hún hefur sýnt heimilinu í gegnum tíðina.

Af því tilefni fékk Jónína afhenta starfsafmælisgjöf samkvæmt venju á Hrafnistu þegar haldið var upp á tímamótin í gær. 

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Sigrún Stefánsdóttir forstöðumaður Hrafnistu í Laugarási og Jonna.

 

Lesa meira...

Síða 27 af 175

Til baka takki