Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 26. febrúar 2021 - Gestahöfundur er Guðrún Snæbjört Þóroddsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri Hrafnistu Nesvöllum

Föstudagspistill 26. febrúar 2021

Loksins kom röðin að okkur, starfsfólki hjúkrunarheimilanna, að fá langþráða bólusetningu gegn covid19 ótuktinni sem setti allt á annan endann, og það á heimsvísu. Það voru frekar blendnar tilfinningar samt, smá kvíði í mannskapnum, enda hafa heyrst hryllingssögur af aukaverkunum bóluefnisins. Á sama tíma var þó tilhlökkun og gleði að geta nú séð fyrir endann á þessu leiðinda ástandi. Við getum brátt losað okkur við maskana, sem á eftir að verða saga til næsta bæjar,  enda flestir komnir með kæki, eins og að setja stút á munninn, skeifu eða ýmsar grettur, jafnvel ullað á einhvern sem er leiðinlegur. Það hefur allt verið falið á bak við maskana, sem er orðin venjulegur staðalbúnaður allra í dag. Það má búast við því að fólk gleymi sér og geri þetta allt saman maskalaust við og við sem verður örugglega ansi spaugilegt. Við getum faðmað fólkið okkar á ný og hætt að láta eins og það sé eitrað eða geislavirkt. Hellingur af hressandi fermingarveislum framundan, hjá fermingarbörnum í allt of litlum fötum eftir ítrekaðar frestanir á veisluhöldunum. Við getum jafnvel farið á barinn, eða listasýningu, í góðra vina hópi og fengið okkur bjór á eðlilegum djammtíma, án þess að eiga það á hættu að lögreglan mæti á staðinn og hendi manni út með skömm og sekt og láti það svo leka í blöðin þar sem maður er tekinn af lífi af netverjum.

En það virðist sem að bóluefnið fari verr í ungu kynslóðina, sem er heldur betur skellur, þegar undirrituð fékk ekki eina einustu aukaverkun. Það má segja að það sé eins og að fá blauta tuska í andlitið að maður flokkist ekki lengur í hóp með „unga fólkinu“. Takk covid19 fyrir það!

Já nú horfir til bjartari tíma og meira að segja ætlum við að sleppa vel undan vetri, næstum komið vorveður, og það í febrúar. Ferðaskrifstofurnar  reyna að freista landans með allskyns gylliboðum um ferðir, m.a. á sólarstrendur. Maður lætur sig dreyma, og vonar að það fari að verða óhætt, í nánustu framtíð, að taka einu tilboðinu og fara í gott frí með fjölskyldunni. Á meðan maður situr með lokuð augun í miðjum dagdraumi að hugsa um draumafríið, þá einmitt fer jörðin að skjálfa, alveg linnulaust og það svo hressilega, að hættustigi er lýst yfir. Maður veit ekki hvort maður eigi að grenja eða hlægja. Þvílíkt varnarleysi gegn móður náttúru. Við Suðurnesjabúar loksins orðin róleg aftur eftir landrisið við Þorbjörn í fyrra og allt havaríið um mögulegt eldgos og öllu sem því fylgir. Undirrituð er í allskyns grúbbum á facebook í kjölfarið, svona til varúðarráðstöfunar,  m.a.„bátar til sölu“, já, allur er varinn góður.

Svona er lífið, upp og niður og allskonar. Einu tímabili lýkur og annað tekur við. Við þurfum bara að muna að standa upprétt, halda utan um hvort annað (það má núna, amk. með búbblunni okkar, Þórólfur gaf leyfi í gær), muna að hafa húmorinn í farteskinu og að njóta líðandi stundar.

Góða helgi!

Guðrún Snæbjört Þóroddsdóttir,

hjúkrunardeildarstjóri Hrafnistu Nesvöllum Reykjanesbæ.

 

Lesa meira...

Síða 71 af 330

Til baka takki