Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 29. október 2021 - Gestahöfundur er Soffía Egilsdóttir, umboðsmaður íbúa og aðstandenda Hrafnistu

Umboðsmaður íbúa og aðstandenda

Ég er svo heppin að vinna sem einn af umboðsmönnum íbúa og aðstandenda Hrafnistu en við erum þrjár sem sinnum átta heimilum Hrafnistu, í tveimur og hálfu stöðugildi.

Markmið umboðsmanna Hrafnistu er að aðstoða íbúa og aðstandendur við að fóta sig í framandi umhverfi, veita upplýsingar um starfsemi heimilanna og vinnufyrirkomulag ásamt því að stuðla að jákvæðum samskiptum og samvinnu milli starfsfólks og aðstandenda.

Eitt af starfi umboðsmanna er að halda kynningarfund með nánustu ættingjum fljótlega eftir að nýr íbúi flytur til okkar. Ég hitti því mjög marga ættingja á erfiðum tímum þegar ástvinur þeirra er að flytja af heimili sínu, sem hann hefur jafnvel búið á í yfir fimmtíu ár. Margir búnir að lenda í veikindum og geta þess vegna ekki búið lengur á sínu heimili.

Það er gefandi að hitta allar þessar fjölskyldur sem eiga það sameiginlegt að vilja stuðla að því með öllum ráðum að lífsgæði hins aldraða verði eins góð og mögulegt er. Fjölskyldur leggja mikið á sig og skipuleggja sig þannig að það sé alltaf einhver sem komi í heimsókn og nýja herbergið útbúið eins vel og hægt er. Flestar fjölskyldur ræða um það að hinn aldraði eigi aðeins það besta skilið þar sem hann eða hún sé búinn að leggja svo mikið á sig fyrir fjölskylduna.

Nauðsynlegt er fyrir aðstandendur að vita til þess að hinn aldraði er að fá hjá okkur þá umönnun sem hann þarfnast. Þess vegna fylgist fjölskyldan vel með líðan og hvað þeirra aðstandandi er að fást við yfir daginn.

Samstarf umboðsmanna Hrafnistu, íbúa og aðstandenda er mikilvægt, ekki síst fyrir aðstandendur til að fá svör við spurningum sínum og vangaveltum.

 

Góða helgi!

Soffía Egilsdóttir,

Umboðsmaður íbúa og aðstandenda Hrafnistu.

 

Lesa meira...

Síða 47 af 330

Til baka takki