Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 5. nóvember 2021 - Gestahöfundur er Gunnur Helgadóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistuheimlanna

 

Í þessum töluðu orðum hef ég unnið á Hrafnistu í 10 mánuði og haft tækifæri til að fá innsýn í það mikilvæga starf sem unnið er á öllum heimilunum. Mig langar að þakka fyrir þær frábæru móttökur sem ég fékk sem nýliði í starfi. Á öllum stöðum var tekið á móti mér með áhuga og alúð. Ég vona að okkur beri gæfa til að taka á móti öllum nýliðum á þann hátt og að þeir finni hvað þeir eru velkomnir sem hluti af Hrafnistu teyminu.

Á Heilbrigðissviði vinnur flottur hópur fagfólks. Það er aðdáunarvert hvað þau taka á móti verkefnum með jákvæðu hugarfari, það er líka mikilvægt í þeirra huga að veita góðan faglegan stuðning við Hrafnistuheimilin og hjálpast að í smáum sem stórum verkefnum. Það sást líka greinilega hver samstaðan er þvert á Hrafnistu þegar þurfti að takast á við heimsfaraldur og verja íbúa Hrafnistu.

Á haustmánuðum var haldinn vinnudagur Heilbrigðissviðs með það að markmiði að forgangsraða verkefnum til næstu 12 mánaða og virkilega skoða hvaða verkefni myndu á þessum tímapunkti nýtast sem best til að auka gæði og þjónustu Hrafnistu við íbúa og starfsmenn.  Mikilvægt er líka  að horfa til forgangsröðunar þegar við erum að læra að lifa með heimsfaraldri og færa starfsemina í eðlilegt horf eftir þung tvö ár með heimsfaraldri.

Niðurstaðan er sú að við settum okkur eftirfarandi 5 aðalmarkmið til að vinna með næstu 12 mánuði.

  • Auka sýnileika Heilbrigðissviðs þannig að auðvelt sé að leita til okkar eftir aðstoð og skýrt fyrir öllum til hverra eigi að leita með viðkomandi mál. Okkar hlutverk er að þjónusta heimilin og tryggja gæði þeirrar þjónustu sem verið er að veita með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi.
  • Finna leiðir til að nýta okkur velferðartækni meira og betur. Núna er  verið að innleiða kerfi sem er kallað e-Med á flestum heimilunum sem heldur rafrænt utan um lyfjaávísanir íbúa. Kerfið mun auka öryggi lyfjaumsýslu til muna.  Í farvatninu er líka að  innleiða kerfi sem bætir skráningu í rauntíma á því mikilvæga starfi sem unnið er í aðhlynningu.
  • Fara í átak til að auka gæði Líknar og lífslokameðferðar á Hrafnistu og er sú vegferð þegar hafin með námskeiðum fyrir hjúkrunarfræðinga og lækna í samstarfi við Líknarteymi Landsspítala. Eftir áramót er síðan stefnt á að auka fræðslu um verkjameðferð og mati á verkjum.
  • Styrkja innviði og þar er Gæðahandbók Hrafnistu verkefni sem þarf sífellt að vera í endurskoðun og uppfærslu til að mæta þeim breytingum sem eru gerðar til okkar frá ytra umhverfi gegnum lög og reglugerðir og ekki síður til að auka gæði okkar þjónustu með skýrum verkferlum.
  • Síðan er í okkar huga mikilvægt að góð samskipti séu höfð að leiðarljósi í stóru teymi eins og Hrafnista. Virðing og heiðarleiki séu undirstaða okkar í samskiptum við samstarfsfólk, íbúa og aðstandendur.

Ég er bjartsýn þegar ég horfi fram á veginn og hlakka mikið til að takast á við okkar framtíðarverkefni með sterku teymi Hrafnistuheimilanna.

Takk fyrir mig.


Ég vil óska ykkur góðrar helgar og minni á mikilvægi persónulegra sóttvarna.

Gunnur Helgadóttir,
Framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs

 

Lesa meira...

Síða 46 af 330

Til baka takki