Hrafnista Laugarási er staðsett í grónu hverfi í Laugardalnum þar sem stutt er í alla nærþjónustu með útsýni út á sundin, yfir borgina og Esjuna. Við heimilið er stór garður sem nýttur er til útivistar, auk þess sem stórar svalir eru á húsinu. Í garðinum er púttvöllur sem aðstandendur geta nýtt með íbúum. Á Hrafnistu Laugarási er rekið kaffihús þar sem kostur gefst á að setjast niður í fallegu umhverfi og njóta kaffidrykkja og veitinga.
Við heimilið er lífsgæðakjarni sem endurspeglar samspil hjúkrunarheimilis, leiguíbúða og þjónustumiðstöðvar. Með virku samstarfi þeirra sem þar búa, starfa og þangað sækja myndast kjarni með fjölbreyttri þjónustu sem stuðlar að auknu öryggi, meiri vellíðan og bættum lífsgæðum eldra fólks.
Á kaffihúsinu eiga íbúar og gestir notalegar stundir þar sem boðið er uppá kaffidrykki og aðrar veitingar. Einnig fara þar fram ýmsir skemmtilegir viðburðir og má sérstaklega nefna að Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur nokkrum sinnum haldið þar tónleika fyrir íbúa og gesti.
Við heimilið er skjólgóður og stór garður sem notaður er allt árið um kring. Ýmsar skemmtanir fara þar fram eins og t.d. árlegt sumargrill.