HANDBÓK ÍBÚA OG AÐSTANDENDA

Laugarás

Síðast uppfært: 4. mars, 2025

Formáli

Við bjóðum þig hjartanlega velkominn á Hrafnistu.

Markmið okkar er að veita íbúum og aðstandendum þeirra bestu mögulegu þjónustu sem hægt er á hverjum tíma. Hjúkrunarheimili, þar með talin Hrafnista, er ólíkt öðrum tegundum heilbrigðisstofnana að því leyti að einstaklingur flytur til okkar en dvelur ekki hjá okkur tímabundið. Til þess að upplifunin verði með besta móti þá skiptir máli að við eigum góð og heiðarleg samskipti þar sem virðing er höfð að leiðarljósi.

Í daglegum samskiptum mun starfsfólk Hrafnistu leggja sig fram við að veita góðar og almennar upplýsingar. Þessi handbók veitir einnig ákveðnar grunnupplýsingar sem ég legg til að þú og þínir aðstandendur skoðið í rólegheitum.

Við bendum einnig á handbók Samtaka fyrirtækja í velferðaþjónustu þar sem finna má nánari upplýsingar um lögbundnar skyldur hjúkrunarheimila og því sem er innifalið í dvalargjaldi.

Við hlökkum til að kynnast þér og þínum ástvinum.
María Fjóla Harðardóttir
Forstjóri Hrafnistu

Velkomin á Hrafnistu

Hugmyndafræði Hrafnistu

Framtíðarsýn Hrafnistu er að vera leiðandi í öldrunarþjónustu á Íslandi. Til að taka markviss skref í átt að þessari sýn er unnið stöðugt að því markmiði að veita framúrskarandi þjónustu til þess að íbúar, aðrir þjónustuþegar og aðstandendur upplifi öryggi, traust og vellíðan. Til að styðja við megin markmið Hrafnistu er unnið eftir hugmyndafræði sem lýsir því hvaða upplifun, menningu og tilfinningu við viljum skapa bæði fyrir íbúa og starfsfólk. Á Hrafnistu er lögð áhersla á að umhverfið sé heimilislegt, hlýlegt og öruggt þar sem íbúar eru hvattir til þátttöku í ákvörðunum og athöfnum daglegs lífs. Hugmyndafræðin er hjartað í starfsemi Hrafnistu en samhliða henni er unnið markvisst að ákveðnum verkefnum þvert á öll Hrafnistuheimilin sem ætlað er að bæta starfsumhverfið og þróa þjónustuna.

Hrafnista er heimili fólks og hugmyndafræði Hrafnistu gengur út á að starfsemin og verklag deilda sé sveigjanlegt og fari eftir þörfum einstaklingsins sjálfs. Það sama gildir í annarri þjónustu innan Hrafnistu. Starfsfólk Hrafnistu er til staðar fyrir íbúa og aðstandendur. Hluti af því að búa til heimilislegan brag og veita framúrskarandi þjónustu er að íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt í ákvörðunartöku um sína hagi. Þá er átt við t.d. hvenær þeir vilji fara á fætur, hvenær þeir vilji fara að sofa, hverju þeir vilji klæðast, þátttöku í matartímum og hvað þeir vilji gera yfir daginn.

Lífssagan og notkun hennar

Mikilvægt verkfæri til að kynnast íbúunum er svokölluð lífssaga sem allir fá senda til útfyllingar við flutning á heimilið. Hún inniheldur spurningar um íbúann, t.d. áhugamál, fjölskylduhagi og fleira. Með vandlega útfylltri lífssögu fá umönnunaraðilar tækifæri til að þekkja þarfir íbúans betur og geta átt innihaldsríkari samskipti við hann. Iðjuþjálfar heimilanna nota lífssöguna í daglegu starfi, til dæmis þegar verið er að skipuleggja félagsstarf. Það er því mikilvægt að aðstandendur aðstoði íbúann við að fylla lífssöguna út.

Að flytja á Hrafnistu

Umboðsmenn íbúa og aðstandenda

Á Hrafnistu starfa umboðsmenn íbúa og aðstandenda. Hlutverk umboðsmanns er að gæta hagsmuna íbúa Hrafnistu og vera aðstandendum innan handar ef þörf er á. Umboðsmenn eru hluti af stjórnendateymi Hrafnistu og eru í miklum samskiptum við stjórnendur hjúkrunardeilda.

Umboðsmenn boða til kynningarfundar ca. 3-4 vikum eftir að íbúi flytur á heimilið og fer á þeim fundi yfir stöðu hans, hvernig hefur gengið og hvað má betur fara. Á þessum fundi er einnig farið yfir hagnýt mál og útskýrt hvernig skipulag lækna- og hjúkrunarþjónustu er háttað og fleira sem tengist flutningnum. Á þessum fundi fá aðstandendur tækifæri til að ræða þau mál sem þeim finnst mikilvægt að komi fram sem varðar lífssögu og stöðu íbúa og umboðsmenn fylgja þeim málum eftir í samstarfi við stjórnendur hjúkrunardeilda.

Umboðsmenn koma einnig að flóknum málum sem geta komið upp á heimilunum ef deildarstjóri metur það svo að það sé hagur íbúans að fleiri komi að lausn vandans. Hjúkrunardeildarstjórar hafa því samband við umboðsmenn ef þörf er á. Netföng umboðsmanna má finna í tengiliðaskrá aftast í handbókinni.

Hagnýtar upplýsingar fyrir flutning á heimilið

Herbergin eru búin sjúkrarúmi, náttborði, fataskáp og myrkvunargardínum. Íbúar geta flutt með sér myndir og húsgögn til að gera herbergið að sínu. Mikilvægt er þó að huga vel að aðgengi íbúa og starfsfólks, sérstaklega ef notast er við hjálpartæki. Hafa ber í huga að mottur og snúrur stórauka líkur á byltum.

Íbúar koma með sæng, kodda og rúmteppi. Einnig þarf að koma með sínar eigin persónulegu snyrtivörur, s.s. andlitskrem, ilmvatn, sjampó o.þ.h.
Hrafnista býður upp á þvott á fatnaði íbúa, annan en viðkvæman þvott s.s. handþvott eða fatnað sem þarf sérstaka meðhöndlun. Til að draga úr líkum á að fatnaður týnist leggjum við áherslu á að aðstandendur merki allan fatnað. Hrafnista ber ekki ábyrgð á fatnaði sem skemmist eða týnist í þvotti. Mikilvægt er að aðstandendur fylgist vel með fatnaði íbúa og yfirfari fataskáp reglulega.

Í öllum herbergjum er tengibox sem hægt er að tengja sjónvarp, myndlykil og tölvu. Íbúar sjá um að útvega sér þá þjónustu sjálfir. Íbúar hafa aðgang að þráðlausu interneti Hrafnistu til að fara á fréttasíður o.þ.h. en ekki er hægt að streyma sjónvarpsefni eða öðru efni í gegnum þráðlausa internetið.

Hátíðisdagar

Margir aðstandendur velta fyrir sér hátíðarhöldum þegar ástvinur flytur á hjúkrunarheimili. Við á Hrafnistu skiljum þessar vangaveltur og leggjum áherslu á að hver íbúi geti átt fallega hátíðisdaga hvort sem það er heima hjá fjölskyldunni eða hjá okkur á Hrafnistu. Það er mjög misjafnt hvernig best er að skipuleggja slíka daga. Það fer eftir heilsu, dagsformi og aðstæðum íbúans. Sumir íbúar vilja og geta farið heim til fjölskyldunnar, en ekki allir. Stór hluti íbúa okkar eru orðnir hrumir og treysta sér ekki til að vera innan um marga eða lengi í burtu. Þeir myndu jafnvel njóta þess betur að eiga samverustundir á Hrafnistu með sínu nánasta fólki.

Á Hrafnistu höldum við upp á alla almenna hátíðisdaga. Þar leggjum við okkur fram við að skapa notalega og hátíðlega stemmningu. Borð eru dúkuð og skreytt, boðið er upp á hátíðarmat og allir eru í sínu fínasta pússi.

Fjölskyldur geta búið til hátíðarstundir með sínum ástvinum með því að hugsa aðeins út fyrir boxið. Við höfum séð margar fallegar samverustundir eiga sér stað á öðrum tímum en hefðin segir okkur.

Heimsóknir

Enginn ákveðinn heimsóknartími er á Hrafnistu. Gestir eru velkomnir á þeim tímum sem hentar þeim og íbúanum. Best er að hugsa þetta alltaf í takt við þarfir íbúans sem verið er að heimsækja. Vegna öryggis íbúa og starfsfólks, er aðaldyrum heimilanna læst á ákveðnum tímum og þá þarf að hringja dyrabjöllu til þess að láta opna fyrir sér.

Gæludýr eru velkomin í heimsókn á Hrafnistu.

Fjármál og greiðsluþátttaka í dvalarkostnaði

Þegar lífeyrisþegi flyst á hjúkrunarheimili falla niður lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Við það að greiðslur falla niður myndast réttur til ráðstöfunarfés sem er tekjutengt. Mikilvægt er að umsækjendur kynni sér þátttöku í dvalarkostnaði og kostnað við búsetu á vefsvæði TR sem reiknar út kostnaðarþátttöku. Hrafnista innheimtir kostnaðarþátttöku íbúa fyrir hönd TR og greiðsluseðill birtist í heimabanka íbúa. Þeir sem þurfa að hafa samband við Hrafnistu vegna greiðsluþátttöku íbúa geta haft samband við bókhaldsdeild Hrafnistu en netfang og símanúmer er að finna í tengiliðaskrá aftast í handbókinni.

Lögheimili

Lögheimili er sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Lögheimili er því gjarnan flutt á hjúkrunarheimilið. Það er í höndum íbúa eða aðstandenda að breyta lögheimili hjá Þjóðskrá.

Að búa á Hrafnistu

Velferðartækni

Hrafnista nýtir sér velferðartækni til að auka gæði og öryggi í þjónustunni. Dæmi um það er rafræn sjúkraskrá, smáforritið Iðunn sem stuðlar að auknu upplýsingaflæði á milli ólíkra faghópa vegna umönnunarþarfa íbúans, eMed rafrænt lyfjakort, Lyfjavaki sem heldur utan um skráningar á lyfjatiltekt og lyfjagjöfum og sjúkrakallkerfi. Öll þessi kerfi krefjast þess að starfsfólk noti vinnusíma við eftirlit og skráningu. Vinnusímar Hrafnistu gera starfsfólki einnig kleift að nálgast fræðslu og námskeið þar sem Hrafnista leggur ríka áherslu á að viðhalda faglegri þekkingu starfsfólks.

Öryggismál

Öryggismyndavélar

Til að gæta að öryggi íbúa og starfsfólks og í eignavörsluskyni, starfrækir Hrafnista öryggismyndavélar á heimilunum. Öll notkun og vinnsla myndefnis er í samræmi við gildandi lög og reglur Persónuverndar.

Myndatökur

Hrafnista biðlar til gesta á Hrafnistuheimilunum að virða það að Hrafnista er heimili íbúanna og að þeir eigi rétt á friðhelgi einkalífs á sínu heimili. Þar af leiðandi eru myndatökur eða upptökur af íbúum og starfsfólki Hrafnistu og miðlun þeirra á samfélagsmiðlum ekki leyfðar nema með þeirra samþykki.

Verðmætaskápar

Kjósi íbúi að hafa verðmæta muni inni í herberginu sínu þá er mikilvægt að hafa í huga að Hrafnista tekur ekki ábyrgð á persónulegum eigum hans og bætir þær ekki ef þær glatast, skemmast eða er stolið. Íbúum Hrafnistu er eindregið ráðlagt að tryggja verðmætar eigur sínar með innbústryggingu og geyma fjármuni í læstum hirslum sem þeir útvega sjálfir.

Ábendingar

Okkur á Hrafnistu er mjög umhugað um að veita bestu þjónustu sem völ er á. Mikilvægur liður í að tryggja gæði þjónustu er að allar ábendingar um það sem betur má fara og það sem vel er gert berist okkur í samtali eða með skilvirkum hætti. Á heimasíðu Hrafnistu er að finna ábendingahnapp og biðjum við ykkur að nýta hann til að koma ábendingum á framfæri.

Reykingar, neysla áfengis og vímuefna

Vegna eldhættu eru reykingar ekki leyfðar innanhúss á Hrafnistu. Óhófleg áfengisneysla sem truflar aðra íbúa og starfsfólk er ekki leyfð en ábyrg neysla áfengis er hins vegar leyfileg. Öll notkun ólöglegra fíkniefna er bönnuð á heimilunum og á lóðum Hrafnistu.

Óhófleg áfengisneysla eða notkun ólöglegra fíkniefna getur leitt til brottrekstrar af heimilinu.

Heilbrigðisþjónusta

Hjúkrunar- og læknisþjónusta

Meginmarkmið hjúkrunar- og læknisþjónustu á Hrafnistu er að viðhalda eða auka lífsgæði og miðast öll meðferð að því. Um er að ræða hjúkrunarstýrða læknisþjónustu sem felur í sér að hjúkrunarfræðingar meta þörf fyrir aðkomu læknis. Læknar á vegum Heilsuverndar sinna læknisþjónustu á heimilunum.

Á Hrafnistu er veitt sólarhrings hjúkrunar- og læknisþjónusta og við flutning á heimilið flyst ábyrgð á hjúkrunar- og læknismeðferð alfarið yfir til sérfræðinga Hrafnistu, þ.m.t. ákvarðanir um lyfjameðferð. Læknar Hrafnistu sjá um allar lyfjaávísanir auk þess sem ákvarðanir um tilvísanir til sérfræðilækna utan heimilis eru teknar af læknum og hjúkrunarfræðingum heimilisins. Í þeim tilvikum greiðir Hrafnista ferðakostnað tengdan heimsóknum til lækna og sama gildir um rannsóknir sem framkvæmdar eru utan heimilis. Til að tryggja öryggi í lyfjameðferð íbúa er nauðsynlegt að upplýsa hjúkrunarfræðing um öll þau lyf, þ.m.t. náttúrulyf, vítamín og fæðubótarefni, sem íbúi tekur og ekki er ávísað af lækni.

Þegar heilsu íbúa fer að hraka er gott að vera búin að hugleiða hver afstaða hans er tengt inngripum í mikilli eða bráðri afturför á heilsufari og vilja hans tengdum meðferð við lífslok. Að fylgja ástvini síðasta spölinn í lífinu getur verið dýrmæt lífsreynsla og er áhersla lögð á góð samskipti og samvinnu við íbúa og fjölskyldu hans.

Sjúkra- og iðjuþjálfun

Hlutverk sjúkra- og iðjuþjálfunar er að viðhalda og/eða auka færni íbúa og er mikilvægur liður í að efla lífsgæði þeirra. Sjúkra- og iðjuþjálfar veita bæði einstaklings- og hópþjálfun og með faglegu mati er tekið mið af getu og áhuga hvers og eins við skipulagningu þjálfunar. Sjúkra- og iðjuþjálfar Hrafnistu meta þörf fyrir hjálpartæki, sækja um þau og aðlaga að þörfum viðkomandi íbúa.

Föst dagskrá á vegum sjúkra- og iðjuþjálfunar fer fram á dagvinnutíma á virkum dögum. Á upplýsingatöflum deilda er hægt að sjá dagskrána.

Tannlæknaþjónusta

Á Hrafnistu leggur starfsfólk sig fram við að viðhalda góðri tann- og munnheilsu íbúa þar sem það hefur umtalsverð áhrif á lífsgæði og líðan. Hjá Hrafnistu er starfandi tanntæknir sem er ráðgefandi í málum sem snúa að tannheilsu en hjúkrunarfræðingar meta þörf á aðkomu hans. Einnig er Hrafnista í samstarfi við tvær tannlæknastofur. Önnur sinnir þeim íbúum sem ekki eru með eigin heimilistannlækni og hin sinnir þeim íbúum sem ekki geta þegið tannlæknaþjónustu utan heimilis.

Þeir íbúar sem eru í reglulegu eftirliti hjá sínum tannlækni halda því áfram.

Önnur þjónusta

Fótaaðgerð og hárgreiðsla

Á Hrafnistu hafa íbúar aðgengi að fótaaðgerðarstofu og hárgreiðslustofu. Um er að ræða verktaka sem ekki er starfsfólk Hrafnistu. Aðstandendur sjá um tímabókanir og að fylgja sínum íbúa í bókaða þjónustu sé þess þörf, ef verktakar bjóða ekki upp á flutningsþjónustu. Upplýsingar um símanúmer og netföng verktaka er að finna í tengiliðaskrá.

Matur og sérfæði

Á Hrafnistu er rík áhersla lögð á fjölbreytta og næringaríka fæðu sama um hvaða máltíð dagsins er að ræða. Tekið er tillit til ofnæmis/óþols og áferðar og sjá hjúkrunarfræðingar deilda um að meta þörf fyrir sérfæði og skráningu. Áhersla er á að umhverfi máltíða sé hlýlegt og heimilislegt.

Ræsting

Herbergi íbúa eru þrifin 1x í viku að undanskildum salernum sem eru metin alla virka daga og þrifin eftir þörfum. Ekki er þurrkað af smáhlutum í hillum og er það á ábyrgð íbúa/aðstandenda sem og þrif á eldhússkápum, fataskápum og ísskáp ef við á.

Algengar spurningar og svör

Hvað á að gera ef heyrnartæki týnist hjá íbúa á Hrafnistu?

Því miður getur það gerst að heyrnartæki tapast hjá íbúum á hjúkrunarheimilum og geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Hrafnista ber ekki ábyrgð á heyrnartækjum og bætir þau ekki ef þau tapast eða eyðileggjast. Sjúkratryggingar Íslands styrkja einstaklinga um ákveðna upphæð til kaupa á heyrnartækjum. Allar upplýsingar er að finna hjá Sjúkratryggingum Íslands HÉR.

Hvað á að gera ef tanngómur eða tannpartur skemmist eða týnist á Hrafnistu?

Því miður getur það gerst að tanngómur eða tannpartur annað hvort týnist eða skemmist hjá íbúum. Hrafnista bætir ekki skemmdir eða tap á tanngómum eða tannpörtum. Sjúkratryggingar Íslands styrkja einstaklinga um ákveðna upphæð vegna endurnýjunar á tanngómi eða tannparti ef þeir týnast t.d. á hjúkrunarheimili. Hrafnista bendir aðstandendum á að snúa sér til tannlæknis vegna þessa. Allar upplýsingar er að finna hjá Sjúkratryggingum Íslands HÉR

Er haldið uppá afmæli íbúanna?

Á stórafmælum íbúa er haldið upp á daginn á deildinni og boðið upp á veitingar fyrir íbúa deildarinnar. Ef aðstandendur vilja halda afmæli fyrir fjölskyldu og vini geta þeir komið með veitingar á deildina og á sumum heimilum er hægt að fá leigða aðstöðu fyrir slíkar samkomur. Mikilvægt er að skipuleggja slíkt í samráði við deildarstjóra.

Geta gestir komið í mat?

Ekki er gert ráð fyrir gestum í mat hjá Hrafnistu á hjúkrunardeildum en öllum er velkomið að koma með mat til íbúans og borða með honum. Þá getur verið gott að nota herbergið hans ef það er hægt eða fá lánað hentugt rými í samráði við starfsfólk deildar. Á hátíðisdögum er hægt að panta mat fyrir einn aðstandanda og er það auglýst sérstaklega.

Geta aðstandendur gist?

Almennt er ekki gert ráð fyrir því að aðstandendur gisti hjá íbúum en í sérstökum tilvikum er það velkomið. Það á einkum við ef íbúi er mjög veikur eða ef aðstæður eru þannig tímabundið að það sé litið þannig á að það sé betra fyrir íbúa að hafa einhvern nákominn hjá sér á meðan á slíku stendur. Aðstandendur þurfa að ræða við hjúkrunarfræðing á vakt um það hvort til staðar sé aðbúnaður vegna gistingar (t.d. dýna/stóll/sófi/teppi). Mikilvægt er þó að hægt sé að komast vel um herbergi til að sinna íbúanum allan sólarhringinn.

Geta íbúar farið í ferðalag?

Já, íbúar geta farið í ferðalög bæði innanlands og utanlands ef aðstandendur treysta sér til að fara með þeim í slíkar ferðir. Kostnaður af öllum ferðum er alfarið á ábyrgð íbúans. Við bendum á nauðsyn þess að yfirfara allar ferðatryggingar þar sem kostnaður við læknisheimsóknir erlendis getur orðið verulegur.

Mikilvægt er að skipuleggja slíkar ferðir vel og í samráði við deildarstjóra viðkomandi deildar. Ef íbúi tekur lyf að staðaldri þarf hann að fá þau lyf með og aðstandandi ber ábyrgð á að gefa þau á meðan á ferðinni stendur.

Ferðir erlendis eru alfarið á ábyrgð íbúa/aðstandenda og þarf að skrifa undir yfirlýsingu frá Hrafnistu þess efnis þegar farið er í slíka ferð með íbúa. Frekari upplýsingar er að finna hjá stjórnendum hjúkrunardeilda.

Tengiliðaskrá

Hrafnista Laugarási
Aðal símanúmer: 585 9500

Hjúkrunardeildir

Lækjartorg
Vakthafandi hjúkrunarfræðingur: 693 9527

Vitatorg
Vakthafandi hjúkrunarfræðingur: 693 9542

Miklatorg
Sími: 585 9445
Vakthafandi hjúkrunarfræðingur: 693 9545

Engey
Sími: 585 9410
Vakthafandi hjúkrunarfræðingur: 693 9529

Sólteigur
Vakthafandi hjúkrunarfræðingur: 693 9581

Mánateigur
Vakthafandi hjúkrunarfræðingur: 693 9580

Deildarstjórar

Sólteigur
Netfang: marianna.hansen@hrafnista.is

Mánateigur
Netfang: elsaa@hrafnista.is

Annað

Sjúkraþjálfun
Sími: 585 9380

Iðjuþjálfun
Sími: 664 9594

Hárgreiðslustofa
Sími: 585 9472

Fótaaðgerðarstofa
Netfang: arngrimsdottir.soffia@gmail.com

Bókhald
Netfang: bokhald@hrafnista.is

Efnisyfirlit

Megin markmið Hrafnistu er að veita framúrskarandi þjónustu til þess að íbúar, aðrir þjónustuþegar og aðstandendur upplifi öryggi, traust og vellíðan. Til að styðja við þetta markmið vinnur Hrafnista eftir hugmyndafræði sem lýsir því hvaða upplifun, menningu og tilfinningu við viljum skapa, bæði fyrir þjónustuþega og starfsfólk.

Nafn á þjónustu

Vivamus sagittis lacus vel augue laoreet rutrum faucibus dolor auctor. Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Fusce dapibus, tellus ac cursus commodo, tortor mauris condimentum nibh, ut fermentum massa justo sit amet risus. Aenean eu leo quam. Pellentesque ornare sem lacinia quam venenatis vestibulum. Cras mattis consectetur purus sit amet fermentum. Sed posuere consectetur est at lobortis.

Curabitur blandit tempus porttitor. Donec ullamcorper nulla non metus auctor fringilla. Integer posuere erat a ante venenatis dapibus posuere velit aliquet. Aenean eu leo quam. Pellentesque ornare sem lacinia quam venenatis vestibulum.

Maecenas faucibus mollis interdum. Aenean lacinia bibendum nulla sed consectetur. Donec ullamcorper nulla non metus auctor fringilla. Cras mattis consectetur purus sit amet fermentum. Fusce dapibus, tellus ac cursus commodo, tortor mauris condimentum nibh, ut fermentum massa justo sit amet risus. Cum sociis natoque penatibus et magnis dis parturient montes, nascetur ridiculus mus. Maecenas faucibus mollis interdum.