Stafsfólk Hrafnistu í Boðaþingi varði Lífshlaups meistaratitil sinn frá því í fyrra og er þetta í þriðja sinn á fjórum árum sem Hrafnista Boðaþing fagnar sigri sem Lífshlaups meistarar Hrafnistu. Lífshlaupið er árlegt heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa. Í Lífshlaupinu eru landsmenn allir hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er þ.e. í frítíma, í og úr vinnu og skóla og við val á ferðamáta.
Vinnustaðakeppni í Lífshlaupinu stendur yfir í þrjár vikur í febrúar og hefur starfsfólk á Hrafnistuheimilunum ekki látið sitt eftir liggja. Undanfarin ár hafa verið stofnaðir fjölmargir hreyfihópar innan Hrafnistu og heimilin hafa síðan keppt sín á milli um titilinn Lífshlaups meistarar Hrafnistu. Nöfn allra þátttakenda í Lífshlaupinu á Hrafnistu fóru síðan í pott og dregin hafa verið upp úr pottinum af handahófi fjölmörg nöfn starfsmanna sem eiga von á veglegum vinningum á næstu dögum.
Átakið lífgar svo sannarlega upp á annars dimman febrúarmánuð og það var stórkostlegt að fylgjast með frammistöðu starfsfólks.
Meðfylgjandi mynd var tekin þegar hluti þátttakenda Hrafnistu Boðaþingi tóku á móti farandbikar Hrafnistu til varðveislu í eitt ár sem Lífshlaupsmeistarar Hrafnistu 2025. Til hamingju Boðaþing!
Hrafnista óskar öllum þátttakendum til hamingju með frábæra frammistöðu!