
Kristrún Benediktsdóttir, forstöðumaður á Hrafnistu Boðaþingi í Kópavogi, var nýlega í viðtali við vefmiðilinn Lifðu núna um breytingar og uppbyggingu í Boðaþinginu. Samhliða stækkun í Boðaþingi tók Hrafnista við rekstri á þjónustumiðstöðinni Boðanum í haust sem Kópavogsbær rak áður. Farið var í ýmsar breytingar til að gera umhverfið heimilislegra, aðgengilegra og notalegra fyrir íbúa, gesti og starfsfólk. Byggingarnar eru orðnar mun meiri heild og skapa sannkallaðan lífsgæðakjarna fyrir eldra fólk.
„Hingað koma alltaf um það bil hundrað manns í hádegismat og félagsstarfið er mjög vel sótt. Mér hefur fundist flestir staldra við lengur en áður. Fólk kemur fyrr og situr lengur. Mjög margir í okkar allra næsta nágrenni nýta sér aðstöðuna. Hér beint á móti eru leiguíbúðir á vegum DAS íbúða og flestar blokkirnar eru byggðar fyrir eldri borgara svo við erum ótrúlega vel staðsett fyrir þá sem eru hættir að vinna og vilja brjóta upp daginn,“ segir Kristrún í viðtalinu.
„Hér er félagsstarf í gangi og margt sjálfsprottið. Við höfum hvatt til þess að fólk sem kemur geti komið á fót alls konar hlutum með okkar stuðningi hver eftir sínu áhugasviði. Það er svo gaman að sjá hvað hefur orðið til mikið af vinahópum hér innan veggja. Fólk kemur eitt en er svo komið í einhvern hóp og eignast nýja vini. Ein kona sagði við mig að það væri svo gott að koma hingað því hér uppgötvaði hún að það er aldrei of seint að eignast nýja vini og það er einstakt að sjá hvernig ný vinátta verður til“, segir Kristrún við Lifðu núna.
Viðtalið í heild sinni má lesa hér á vefsíðu Lifðu núna.
