Í næsta nágrenni við Hrafnistu Boðaþingi eru útivistarperlurnar Elliðavatn og Heiðmörk. Við heimilið er stór garður sem nýttur er til útivistar. Á Hrafnistu Boðaþingi er rekið kaffihús þar sem kostur gefst á að setjast niður í fallegu umhverfi og njóta kaffidrykkja og veitinga.
Við heimilið er lífsgæðakjarni sem endurspeglar samspil hjúkrunarheimilis, leiguíbúða og þjónustumiðstöðvar. Með virku samstarfi þeirra sem þar búa, starfa og þangað sækja myndast kjarni með fjölbreyttri þjónustu. Það stuðlar að auknu öryggi, meiri vellíðan og bættum lífsgæðum eldra fólks
Heimilið stendur á einstökum stað í miðri útivistarparadísinni við Elliðavatn í rólegu hverfi. Því er ekki óalgengt að heyra fuglasönginn berast inn þegar farið er út í garð eða út á svalir.
Frá heimilinu er óviðjafnanlegt útsýni þar sem kallast á skógurinn í Heiðmörk og kyrrt vatnið, auk fallegrar fjallasýninnar.