
Eldur kom upp í rafmagnstöflu á 1. hæð hjúkrunarheimilis Hrafnistu við Sléttuveg upp úr kl. 10:30 í morgun. Töluverður reykur myndaðist sem varð þess valdandi að flytja þurfti 22 íbúa af 1. hæð og 11 íbúa af jarðhæð hússins þar sem reykur og vatn hafði borist þangað niður. Slökkvilið, lögregla og starfsfólk Hrafnistu brást skjótt við, mjög vel gekk að ráða niðurlögum eldsins og rýmingin gekk hratt fyrir sig. Engan sakaði, en verið er að vinna að því að finna tímabundin pláss fyrir 22 íbúa á meðan verið er að reykræsta húsnæðið. Óvíst er hvenær því lýkur og til að byrja með verður dagdvölin við Sléttuveg lokuð af þeim sökum.
Fulltrúar Hrafnistu hafa þegar haft samband við aðstandendur íbúa og munu halda áfram að upplýsa þá um gang mála.
Sjómannadagsráð og fulltrúar Hrafnistu vilja nota tækifærið og þakka slökkviliði, lögreglu og starfsfólki Hrafnistu fyrir snör og markviss vinnubrögð við þessar krefjandi aðstæður.
