Ráðstefnan Öldrunarþjónusta á gervigreindaröld fór fram í Hörpu, fimmtudaginn 10. apríl síðastliðinn. Ráðstefnan var vel sótt og þar komu fram fjölmargir fyrirlesarar sem starfa á einn eða annan hátt við öldrunarþjónustu og tækniþróun í heilbrigðisgeiranum. Bergur Ebbi var fundarstjóri.
Góð stemning var á ráðstefnunni og fyrirlestrarnir fræðandi og einnig var slegið á létta strengi – og meira að segja sungið! Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs, opnaði ráðstefnuna á stuttu erindi og tók svo upp gítarinn og fékk allan salinn til að syngja Í Hlíðarendakoti.
Aðalumfjöllunarefni fyrirlesaranna var tækniþróun í heilbrigðiskerfinu, þá sérstaklega gervigreindin og hvernig hún mun koma til með að létta störf í umönnun. Kristín Sól Ólafsdóttir róbótahugbúnaðarverkfræðingur kynnti hönnun og þróun róbóta í umönnunarstörfum, sem fyrirtækið F&P Robotics í Sviss er að vinna að, þar sem markmiðið er fyrst og fremst að bæta lífsgæði fólks og létta störf.
Heilbrigð öldrun og gott heilsufar eldri borgara var líka til umræðu og svo hvernig velferðartækni í þróun getur séð til þess að fólk geti búið lengur heima hjá sér. Þá var félagslíf aldraðra sérstaklega rætt og hversu mikilvægt það er að halda félagslegri virkni á efri árum til að sporna við þróun sjúkdóma og einmannaleika. Í því samhengi var uppbygging lífsgæðakjarna DAS fyrir eldri borgara kynnt og hvernig kjarnarnir styðja við sjálfstæða búsetu eldri borgara og efla félagslíf.
Allir fyrirlesarar sem fram komu voru sammála um að til að geta mætt þeim miklu áskorunum sem fram undan eru í málefnum aldraðra þarf samstöðu og samvinnu margra aðila.