Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir undanfarna mánuði við Hrafnistu Boðaþing í Kópavogi þar sem risið er nýtt 64 rýma hjúkrunarheimili og verður það tekið í notkun á vormánuðum. Nýja hjúkrunarheimilið tengist við þjónustumiðstöð og núverandi hjúkrunarheimili við Boðaþing 5-7, leiguíbúðum aldraðra við Boðaþing 22-24 og verður innangengt á milli þessara bygginga. Fyrri áfangi hjúkrunarheimilisins, 44 hjúkrunarrými, var tekinn í notkun árið 2010 og hefur Hrafnista séð um að reka heimilið frá upphafi. Þegar nýja hjúkrunarheimilið verður tekið í notkun verða hjúkrunarrýmin alls 108 talsins í Boðaþingi. Sjómannadagsráð og Hrafnista hafa komið að hönnun og skipulagi á nýja heimilinu enda mikil þekking og reynsla sem býr þar að baki. Framkvæmdasýslan Ríkiseignir (FSRE) og Kópavogsbær standa að baki framkvæmdinni. THG Arkitektar eru aðalhönnuðir byggingarinnar og stýriverktaki er ISTAK. Samvinna allra aðila á framkvæmdatímanum hefur verið með miklum ágætum og áberandi er metnaður allra að skila góðu verki.
Meðfylgjandi mynd var tekin í síðustu viku þegar stjórn Sjómannadagsráðs fór í skoðunarferð um nýju bygginguna til að fylgjast með framvindu verkefnisins.