Fréttasafn

Breytingar á yfirstjórn og skipulagi Hrafnistu

Lesa meira...

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistu,

 

Hrafnista er í dag ein allra stærsta heilbrigðisstofnun landsins en eitt af okkar megin markmiðum er að vera leiðandi aðili í þjónustu við aldraða þar sem við stuðlum að andlegri, líkamlegri og ekki síst félagslegri vellíðan íbúanna okkar. Opinberar gæðamælingar sína öll Hrafnistuheimilin jafnan í hópi þeirra sem allra hæst skora, töluvert yfir landsmeðaltali. Við erum með starfsemi á sex stöðum í fimm sveitarfélögum en við starfrækjum yfir 20% hjúkrunarrýma hér á landi og erum jafnframt stærsti veitandi dagdvalarþjónustu. Fjárhagsleg velta er yfir 8 milljarðar. Um 1.000 manns njóta þjónustunnar á degi hverjum og um 1.200 starfsmenn eru jafnan á launaskrá sem gerir Hrafnistu að stærri vinnustöðum landsins.

Þrátt fyrir mikið umfang eru næg verkefni framundan. Á næsta ári opnum við nýtt og glæsilegt 99 rýma hjúkrunarheimili við Sléttuveg í Fossvogi. Við þekkjum vel að það er mikil vinna að opna nýtt hjúkrunarheimili, hvaða þá í stærð sem þessari en það verður sannarlega spennandi og gaman. Stækkun á starfsemi okkar í Kópavogi er einnig handan við hornið. Áætluð stækkkun er um 64 hjúkrunarrými en því miður er ennþá óljóst hvenær framkvæmdir hefjast. Þrátt fyrir samþykki á öllum stöðum bíður verkefnið enn hönnunar. Að auki má bæta við að reglulega leita aðilar til Sjómannadagsráðs um samstarf í öldrunarþjónustu af ýmsu tagi þannig að gott er að haga málum þannig í starfseminni, að hægt sé að taka þátt þegar frábær tækifæri bjóðast.

Til að mæta með markvissum hætti, komandi vexti Hrafnistu og jafnframt til að viðhalda því að ná fram sem mestum gæðum og þjónustu út úr þeim daggjöldum sem við fáum til starfseminnar, hefur verið ákveðið að gera töluverðar skipulagsbreytingar á Hrafnistu. Breytingarnar taka gildi 1. október á þessu ári og verður nýtt skipurit þá gefið út með formlegum hætti.

Breytingar felast í því að öðru núverandi stoðsviða Hrafnistu, rekstrarsviði, verður nú skipt upp í tvær öflugar einingar. Önnur einingin er fjármálasvið. Á henni verður núverandi launa- og bókhaldsdeild sem áfram mun sjá um greiðslu reikninga, færslu bókhalds, launavinnslu og fleiri þætti með óbreyttu sniði. Stjórnandi sviðsins mun jafnframt sinna daglegri fjármálastjórnun Hrafnistu, áætlanagerð og eftirfylgni. Hluti af starfi stjórnanda fjármálasviðs verður að starfa beint fyrir Sjómannadagsráð að fjármálastýringu þess og dótturfélaganna, ásamt fjármálaráðgjöf og greiningu.

Hin einingin mun áfram heita rekstrarsvið. Eldhús Hrafnistu verða áfram þar undir eins og er í dag en einnig verða þar innkaupamál og upplýsingatæknimál munu áfram fá aukið vægi. Önnur verkefni inn á sviðinu verða meðal annarssamningagerð, utanumhald samninga, tilboðsgerð, áætlunargerð rekstrargjalda, eftirfylgni rekstrargreininga og fleira.

Mannauðsdeild, sem verið hefur hluti af rekstrarsviði Hrafnistu, verður nú sjálfstæð deild sem heyrir beint undir forstjóra.

Eins og kunnugt er, hefur Harpa Gunnarsdóttir, núverandi framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, óskað eftir að láta af störfum nú síðar í haust. Því verður á næstu vikum ráðið í tvö laus stjórnunarstörf sem verða til við þessa breytingu, starf fjármálastjóra annars vegar og starf rekstrarstjóra hins vegar.

Ég er sannfærður um að þessi breyting verður Hrafnistu til mikilla heilla. Þó fæstir starfsmenn finni kannski beint fyrir breytingunni í sínu daglega starfi, mun hún vonandi fyrr en síðar skila sér með beinum og óbeinum hætti í betri og markvissari þjónustu og bættu vinnuumhverfi. Enda er markmiðið að gera góða Hrafnistu ennþá betri.

 

Bestu kveðjur,

Pétur

 

Lesa meira...

Rósa Mjöll Ragnarsdóttir 10 ára starfsafmæli á Hrafnistu

F.v. Pétur, Rósa Mjöll og Sigrún.
Lesa meira...

Rósa Mjöll Ragnarsdóttir, sjúkraþjálfari og aðstoðardeildarstjóri sjúkraþjálfunardeildar Hrafnistu í Reykjavík, hefur starfað á Hrafnistu í 10 ár. Um leið og við óskum henni til hamingju með áfangann er henni þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem hún hefur sýnt heimilinu.

 

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Pétur Magnússon forstjóri Hrafnistu, Rósa Mjöll og Sigrún Stefánsdóttir forstöðumaður Hrafnistu í Reykjavík.

 

Lesa meira...

Grillað í Garðabænum

Lesa meira...
Í blíðunni í gær var slegið upp glæsilegri grillveislu í Garðabænum. Þar starfrækir Hrafnista 60 rýma hjúkrunarheimili í Sjálandshverfinu og erum við í miklu og góðu samstarfi við Garðabæ sem meðal annars rekur dagdvöl í húsinu. Það voru því vel á annað hundrað manns í grillveislunni í gær eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Hreinn Magnússon ljósmyndari tók.
 
Gaman er að segja frá því að Fréttablaðið er í dag með skemmtilega mynd úr veislunni á blaðsíðu 2.

 

Lesa meira...

Besti dagur sumarsins í grillinu í Reykjavík

Lesa meira...
Hrafnista í Reykjavík hélt þessa ljómandi fínu grillveilsu í hádeginu í gær fyrir íbúa og starfsfólk. Grillað var fyrir rúmlega 300 manns og var mikið fjör i veðurblíðunni á Laugarásnum en þetta var klárlega sólríkasti dagur sumarsins hérna megin á landinu. Svona fjölmenna grillveislu þarf reyndar að undirbúa með góðum fyrirvara og starfsfólkið í Reykjavík er greinilega alveg með á hreinu hvernig á að stíla inn á veðrið.
 
Veislan í veðurblíðunni tókst ákaflega vel en meðfylgjandi myndir tók ljósmyndarinn Hreinn Magnússon.

 

Lesa meira...

Hrafnista fær glæsilega bókargjöf

Lesa meira...
Á fullveldishátíð Hrafnistu í Reykjavík, þann 19. júlí síðast liðinn, færði Afmælisnefnd aldarafmælis fullveldis Íslands, Hrafnistu í Reykjavík glæsilega bókargjöf.
 
Um er að ræða nýja hátíðarútgáfu af Íslendingasögum en í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands var farið í þessa útgáfu en Alþingi fól afmælisnefnd að stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagnanna á afmælisárinu.
 
Það Einar Kristinn Guðfinnsson formaður afmælisnefndarinnar sem færði Hrafnistu gjöfina ásamt fallegum blómvendi. Guðjón Ármann Einarsson, varaformaður Sjómannadagsráðs, eiganda Hrafnistuheimilanna og Sigrún Stefánsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Reykjavík, tóku við gjöfinni.
 
Vafalaust eru margir íbúar og gestir spenntir að glugga í bækurnar.
 
Færum við afmælisnefndinni okkar bestu þakkir fyrir þenna hlýhug til okkar og þökkum þeim fyrir skemmtilegt samstarf.
 

Íbúar á Ísafold fagna fullveldi Íslands

Lesa meira...
Það var líf og fjör á Hrafnistu Garðabæ – Ísafold, þegar íbúar og starfsfólk fögnuðu, í samvinnu við dagdvöl Garðabæjar, 100 ára fullveldi Íslands. Listamenn fluttu dagskrá tileinkaða fullveldisárinu í tali og tónum og fluttar voru ræður. Að lokum var öllum boðið upp á Fullveldistertuna, kaffi og kleinu, hvort sem þeir treystu sér til að vera með í hátíðarsalnum eða voru uppi á hjúkrunardeildunum.
 
Sannarlega gleðilegur og glæsilegur dagur eins og meðfylgjandi myndir sýna.
 
Lesa meira...

Fullveldishátíð Hrafnistu í Reykjavík og fullveldisbörnin.

Lesa meira...
Það var merkisviður í Íslandssögunni í gær þegar 22 Íslendingar fæddir 1918 eða fyrr (100 ára og eldri), voru staddir á sama staðnum, en það hefur aldrei gerst áður í sögunni. Þetta var viðburðurinn „Fullveldisbörnin“ sem við á Hrafnistu stóðum fyrir ásamt Afmælisnefnd aldarafmælis fullveldis Íslands. Viðburðurinn var hluti af Fullveldishátíð Hrafnistu í Reykjavík þar sem íbúum þar var boðið til hátíðar. Heiðursgestir voru allir Íslendingar fæddir árið 1918 og fyrr, ásamt forsetahjónunum. Margir af íbúum Hrafnistu treystu sér ekki af heilsufarsástæðum niður í salinn til okkar en gátu hins vegar fylgst vel með og tekið þátt, því hátíðinni var sjónvarpað á Hrafnisturásinni um allt hús. Gaman var líka að sjá að deildirnar skreyttu margar hverjar húsakynni sín með glæsilegum hætti.
 
 
Það voru listamennirnir Guðmundur Ólafsson leikari og Auður Gunnarsdóttir sópransöngkona ásamt Matthildi Önnu Gísladóttur píanóleikara sem fluttu dagskrá í tali og tónum í anda fullveldisársins og Landsamband bakarameistara kynnti Fullveldistertuna sem byggir á uppskriftum frá árinu 1918. Lokaorðin voru svo í höndum Einars K. Guðfinnssonar, formanns afmælisnefndar. Tertan var svo borin fram í lok dagskrár og voru henni gerð góð skil.
 
Þetta var mjög skemmtilegur dagur og áætlað er að hátt í 500 manns hafi tekið þátt í hátíðarhöldunum víðsvegar um húsakynni Hrafnistu í Reykjavík.
 
Hreinn Magnússon tók þessar glæsilegu myndir fyrir okkur.
Lesa meira...

Sögulegur viðburður – Fullveldisbörnin komu saman á Hrafnistu

Lesa meira...
Í gær buðu Hrafnista og Afmælisnefnd aldarafmælis fullveldis Íslands öllum Íslendingum fæddum 1918 og fyrr til hátíðarsamkomu á Hrafnistu í Reykjavík í tilefni þess að öld er liðin frá því að Ísland varð sjálfstætt og fullvalda ríki. Viðburðurinn „fullveldisbörnin“ sem tókst sannarlega glæsilega, var mjög sögulegur þar sem þetta er í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar, ef ekki í heiminum, sem öllum ríkisborgurum þjóðar, 100 ára og eldri, er boðið saman til veislu.
 
Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna 1. desember 1918 og var það einn merkasti áfanginn í sjálfstæðisbaráttu landsmanna sem stóð í nær heila öld. Á Íslandi eru í dag alls 64 einstaklingar, búsettir víða um land, sem náð hafa þessum merka áfanga á lífsleiðinni, og 22 þeirra mættu til veislunnar ásamt gesti. Þeirra á meðal var elsti núlifandi Íslendingur, Jensína Andrésdóttir, sem verður 109 ára þann 10. nóvember næstkomandi. Jensína býr á Hrafnistu í Reykjavík, en alls búa átta manns á Hrafnistuheimilunum sex sem náð hafa hundrað ára aldri eða meira.
 
Viðburðurinn „fullveldisbörnin“ var liður í Fullveldishátið Hrafnistu í Reykjavík og auk fullveldisbarnanna sóttu íbúar Hrafnistu í Reykjavík hátíðina og var fullt út úr dyrum. Meðal þeirra sem fluttu ávarp var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem heiðraði samkomuna ásamt eiginkonu sinni, Elizu Jean Reid. Auður Gunnarsdóttir sópransöngkona söng nokkur falleg lög og Guðmundur Ólafsson leikari flutti skemmtilegar stiklur úr sögu þjóðarinnar frá árinu 1918. Í lokin var gestum boðið upp á sérstaka fullveldisköku sem Landssamband bakarmeistara hefur sett saman, en hún byggir á vinsælum uppskriftum frá 1918 sem færðar hafa verið til nútímabúnings.
 
Sérstök hópmynd var  til að minnast tímamótanna í sögu lands og þjóðar en ásamt fullveldisbörnunum og forsetahjónunum eru í bakgrunni þeir sem fram komu á hátíðinni.

Síða 1 af 86

Til baka takki