Fréttasafn

Föstudagsmolar 14. desember 2018 - Gestaskrifari er Sigríður Rós Jónatansdóttir, hjúkrunardeildarstjóri Hrafnistu Nesvöllum

Lesa meira...

Aðventan er tími fjölskyldunnar og oftar en ekki ætlar maður að nýta tímann öðruvísi en á síðasta ári. Fara á nokkra jólatónleika, gerast fimmtán sorta konan, skreyta piparkökuhús, velja og saga niður jólatré, tína köngla í skógarferð með börnunum og ég veit ekki hvað og hvað. 

Jólin eru skemmtilegur tími en undirbúningur og umstang í kringum jólin er oft yfirgengilegur. Við megum ekki gleyma því að njóta jólaundirbúningsins og ekki stressa okkur of mikið í hreingerningum, bakstri, jólaskreytingum og jólagjafakaupum. Það er endalaust verið að herja á okkur að gera eitthvað fyrir jólin og kaupa meira og meira. Jólin koma alveg þótt ekki hafi verið skúrað á  aðfangadagsmorgun. Miðað við það magn af auglýsingabæklingum sem streymir inn um lúguna þessa dagana þá er eins og við eigum helst að eiga allan heiminn. En mest af þessu eru dauðir hlutir sem boðnir eru til sölu og því meira sem maður á af þeim því minni er sálarfriðurinn. 

Kúplum okkur út úr jólastressinu og förum út í göngu, skoðum náttúruna, drögum að okkur andann. Finnum að við erum á lífi en erum ekki þrælar jólastressins. Tökum einhvern sem okkur þykir vænt um með í gönguferð og hver veit nema sú ferð verði eftirminnilegri en dýrasta jólagjöfin

Mörgum starfsmönnum þykir erfið sú hugsun að mæta til vinnu á aðfangadagskvöld en ég er ekki þannig sjálf því mér finnst það yndislegt. Rúmlega 20 ár eru síðan ég vann mitt fyrsta aðfangadagskvöld og því gleymi ég seint. Ég var að vinna með yndislegum konum og einu upplýsingarnar sem ég fékk fyrir þetta kvöld voru að ég ætti að mæta í nælonsokkabuxum. Vinnufatnaðurinn þetta kvöld var skyrtukjóll, röndóttur, ljósgrænn og hvítur, agalega lekker. Það skipti engu hvað ég hafði um málið að segja, í kjólinn skyldi ég fara. Íbúar og starfsfólk borðuðu saman á slaginu 18:00 við hljóm kirkjuklukknanna, kveikt var á kertum og allir í sínu fínasta pússi með bros á vör. Allir gæddu sér á dýrindis hamborgarhrygg og jólaöli og skemmtilegar sögur voru sagðar yfir borðhaldinu. Þegar líða tók á kvöldið og búið var að aðstoða íbúa við að opna nokkra pakka og fá sér frómans var sest niður í betri stofunni, boðið upp á sherry og dregnir voru upp vindlar. Nú fáum við okkur sherry og vindil Sigríður (ég fæ enn kjánahroll). Nei takk… jú jú það er ekkert annað í boði. Maður vinnur víst ekki á aðfangadagskvöld nema að fá sér vindil og sherry með íbúunum. Þetta var fyrsta og eina skiptið sem ég hef fengið mér sherry og vindil. Ég hef unnið nokkur aðfangadagskvöld um ævina enda þykir mér gott fyrir sálina að vinna þennan dag. Að fá að upplifa jólin í gegn um íbúana er yndislegt og myndi ég ekki vilja hafa misst af því.

En lífið á Nesvöllum er lítið frábrugðið öðrum heimilum í landinu þegar líður að jólum. Búið er að setja upp jólaljós í gluggana og jólatré eru komin upp. Starfsfólkið er duglegt við að setja jólalög á fóninn og gaman er að mæta starfsfólkinu í jólapeysum á göngunum þegar nær dregur jólum. Ilmurinn af jólabakstrinum er farinn að dreyfast um húsið og jólakortin farin að streyma inn um lúguna. Íbúar okkar hafa margir hverjir skemmtilegar sögur að segja um jólahefðir sem gaman er að heyra og sjá yngstu kynslóðina klóra sér í höfinu yfir. Margir viðburðir eru einnig í desember, krakkar koma að syngja og spila á deildunum. Að sjá ljómann í andlitum íbúa okkar þegar þau sjá börnin koma og syngja er alveg yndislegt.

Sorgin knýr oft að dyrum jólahátíðina hjá íbúum okkar og þarf að gefa því gaum, hlusta, sýna tilitsemi og nærgætni í samskiptum. Eitt faðmlag eða gott spjall jafnvel yfir kaffisopa eða sherrystaupi er svo dýrmætt íbúum okkar og aðstandendum þeirra.

 

 

Megi þið eiga gleðilega hátíð.

Jólakveðja,

Sigríður Rós Jónatansdóttir

Hjúkrunardeildarstjóri Hrafnista-Nesvellir

 

Lesa meira...

Ásdís Guðmundsdóttir 20 ára starfsafmæli á Hrafnistu

Lesa meira...

 

Ásdís Guðmundsdóttir, sjúkraliði með sérnám á  Ölduhrauni Hrafnistu Hafnarfirði, hefur starfað á Hrafnistu í 20 ár. Um leið og við óskum henni til hamingju með áfangann er henni þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem hún hefur sýnt heimilinu.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri:  Árdís Hulda Eiríksdóttir, Hrönn Önundardóttir (fjórða frá vinstri), Ásdís Guðmundsdóttir (sjötta frá vinstri) og Pétur Magnússon forstjóri Hrafnistu.

 

Lesa meira...

Stórtónleikar á Hrafnistu í Reykjavík í gær þegar Katrín Halldóra söng lög Ellý Vilhjálms

Lesa meira...

 

Í gær voru haldnir stórtónleikar á Hrafnistu í Reykjavík þegar Kartrín Halldóra Sigurðardóttir, leik- og söngkona kom í heimsókn og söng fyrir vel yfir 200 manns sem skemmtu sér vel á tónleikunum í troðfullum sal í Skálafelli.  Katrín hefur slegið í gegn í hlutverki Ellý Vilhjálms í samnefndu leikriti í Borgarleikhúsinu þar sem yfir 170 sýningar hafa verið sýndar og ekkert lát er á  vinsældum þess.

 

Lesa meira...

Fjórar fallegar meðferðakisur á Hrafnistu Hafnarfirði

Lesa meira...

 

Það hefur heldur fjölgað á heimilinu okkar á Hrafnistu í Hafnarfirði undanfarið. Fjórar kisur hafa flutt þar inn en þessar kisur eru engar venjulegar kisur heldur eru þetta meðferðakisur sem eru sérstaklega hannaðar fyrir einstaklinga með heilabilun. Þær mjálma, mala, lyfta loppunni, velta sér yfir á bakið og elska að láta klappa sér. Lionsklúbburinn Ásbjörn færði Hrafnistu í Hafnarfirði þessar myndarlegu kisur og þökkum við þeim innilega fyrir þessa fallegu gjöf sem á eftir að nýtast okkar heimilisfólki vel í framtíðinni.

 

Lesa meira...

Jólaball fyrir starfsfólk Hrafnistu Hafnarfirði og Garðabæ

Lesa meira...

 

Hrafnista bauð starfsfólki sínu í Hafnarfirði, Garðabæ og fjölskyldum þeirra á jólaball í gær. Langleggur og Sjóða sáu um skemmtidagskrána og leiddu um 120 manns í kringum jólatréð. Jólasveinar mættu á svæðið með góðgæti í poka fyrir börnin. Boðið var upp á heitt súkkulaði og tertur og áttu allir notalega samverustund saman.

 

Lesa meira...

Jólaball fyrir starfsfólk Hrafnistu Reykjanesbæ

Lesa meira...

 

Hrafnista bauð starfsfólki sínu í Reykjanesbæ og fjölskyldum þeirra á jólaball í gær. Leikhópurinn Lotta sá skemmtidagskrána og leiddi um 150 manns í kringum jólatréð. Jólasveinar mættu á svæðið með góðgæti í poka fyrir börnin. Boðið var upp á heitt súkkulaði og smákökur og áttu allir notalega samverustund saman.

 

Lesa meira...

Síða 7 af 100

Til baka takki