Fréttasafn

Hrafnista á Snapchat

 

Mjög skemmtilegt verkefni fór í gang í gær þegar Snapchat Hrafnistu fór í loftið. Verkefnið gengur út á það að ólíkar deildir á Hrafnistuheimilunum sex er með snappið í viku í senn og  skiptast á að senda út skemmtilegt snapp á hverjum degi. Þannig geta áhugasamir fylgst með því lífi og starfi sem fram fer á Hrafnistuheimilunum.

Endilega fylgist með snappinu á Hrafnista DAS.

Skemmtileg umfjöllun var um Hrafnistusnappið í Fréttablaðinu í dag og inn á visir.is en hana má lesa með því að smella á linkinn hér fyrir neðan.

http://www.visir.is/g/2017171209151

 

Lesa meira...

Monique Vala Körner Ólafsdóttir 10 ára starfsafmæli á Hrafnistu

F.v. Pétur, Árdís Hulda, Hrönn, Monique og Hrefna.

 

Monique Vala Körner Ólafsson, sjúkraliði á Ölduhrauni Hrafnistu Hafnarfirði, hefur starfað á Hrafnistu í 10 ár. Um leið og við óskum henni til hamingju með áfangann er henni þakkað fyrir gott starf og þá tryggð sem hún hefur sýnt heimilinu.

 

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Pétur Magnússon forstjóri, Árdís Hulda Eríksdóttir forstöðumaður Hrafnistu í Hafnarfirði, Hrönn Önundardóttir deildarstjóri á Ölduhrauni, Monique og Hrefna Ásmundsdóttir aðstoðardeildarstóri á Ölduhrauni.  

 

Lesa meira...

Langþráð skóflustunga tekin að nýju og glæsilegu hjúkrunarheimili í Fossvogi í dag - Hrafnista nr. 7

 

Enn einn áfanginn í langri og glæstri sögu Sjómannadagsráðs við uppbyggingu fyrir aldraða átti sér stað í dag þegar fyrsta skóflustungan var tekin að nýju hjúkrunarheimili við Sléttuveg í Fossvogi. Skóflustunguna tóku þeir Guðmundur Hallvarðsson, fyrrverandi formaður Sjómannadagsráðs, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur og Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.

Athöfnin er táknrænt upphaf verklegra framkvæmda við nýtt hjúkrunarheimili Hrafnistu fyrir 99 íbúa, en gert er ráð fyrir að jarðvinna við það hefjist í desember. Fljótlega hefjast einnig framkvæmdir við byggingu þjónustumiðstöðvar, sem Sjómannadagsráð mun eiga og reka, og þriggja 14 þús. fm. fjölbýlishúsa með 140 leiguíbúðum Naustavarar, dótturfyrirtækis Sjómannadagsráðs. Þetta verkefni í Fossvogi er fjórða verkefnið að þessu tagi sem Sjómannadagsráð hefur ráðist í frá stofnun þess 25. nóvember 1937, fyrir réttum 80 árum. Áður hefur Sjómannadagsráð staðið að sambærilegri uppbyggingu í Laugarási í Reykjavík, Hraunvangi í Hafnarfirði og Boðaþingi í Kópavogi.

 

Reykjavíkurborg hefur ritað undir viljayfirlýsingu við Hrafnistu, dótturfyrirtæki Sjómannadagsráðs, um rekstur hjúkrunarheimilisins og verður það sjöunda Hrafnistuheimilið. Þá hefur Reykjavíkurborg leitað til Sjómannadagsráðs um að hafa umsjón með framkvæmdum og stýra hönnun heimilisins innan samnings þess sem er á milli Reykjavíkurborgar og Velferðarráðuneytisins um byggingu hjúkrunarheimilisins. Gert er ráð fyrir að það taki til starfa á síðari hluta árs 2019. Á þeim tímamótum bætast við nærri eitt hundrað langþráð hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu.

 

Sjómannadagsráð mun byggja, eiga og reka fyrirhugaða þjónustumiðstöð sem samtengd verður Hrafnistuheimilinu og þremur nýjum fjölbýlishúsum með 140 íbúðum Naustavarar sem leigðar verða á almennum markaði fyrir eldra fólk. Reykjavíkurborg mun leigja hluta þjónustumiðstöðvarinnar auk þess sem aðrir sem veita þar sérhæfða þjónustu, svo sem á sviði veitinga, fræðslu, sjúkraþjálfunar, heilsueflingar, afþreyingar og menningar, verða þar einnig með aðstöðu. Í fjölbýlishúsum Naustavarar verða leigðar út íbúðir í nokkrum stærðarflokkum, en algengustu stærðir verða 50 til 70 fermetra en einnig 70-85 m2 hjónaíbúðir auk nokkurra stærri íbúða. Leiguíbúðirnar verða sérhannaðar fyrir eldra fólk sem vill búa sjálfstætt en njóta nálægðar og aðgangs að þeirri þjónustu sem veitt verður á svæðinu, m.a. sérhæfðri þjónustu sem tekur mið af einstaklingsbundinni þörf hvers og eins. Áætlað er að hefja jarðvegsvinnu undir fjölbýlishús leiguíbúðanna fyrir árslok.

 

Þetta eru sannarlega ánægjuleg tíðindi og spennandi tímar framundan!

 

Meðfylgjandi eru myndir frá skólfustungunni sem Hreinn Magnússon ljósmyndari tók:

Lesa meira...

Afmælisráðstefna Sjómannadagsráðs í Hörpu 21. nóvember

 

Afmælisráðstefna Sjómannadagsráðs, eiganda Hrafnistuheimilanna, um Lífsgæði aldraðra var haldin í Hörpu í gær þriðjudaginn 21. nóvember. 

Fyrir hádegi var áhersla lögð á dagskrá fyrir starfsfólk í velferðar- og heilbrigðisþjónustu en eftir hádegi var almenningi boðið að slást í hóp ráðstefnugesta og njóta dagskrárinnar.

Ráðstefnan var hin glæsilegasta og heppnaðist í alla staði mjög vel að mati ráðstefnugesta sem voru rúmlega 400 talsins. Líklegt þykir að þetta sé ein fjölmennasta íslenska ráðstefna sem haldin hefur verið af þessu tagi, a.m.k. hin síðari ár.

Sjómannadsagsráð og Hrafnista þakka góðar viðtökur.

 

Meðfylgandi eru myndir frá ráðstefnunni sem Hreinn Magnússon ljósmyndari tók:

 

 

Lesa meira...

Elst núlifandi Íslendinga

Jensína og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.

 

Jensína Andrésdóttir fagnaði 108 ára afmæli sínu á Hrafnistu í Reykjavík í dag, föstudaginn 10. nóvember. Jensína, sem búið hefur á Hrafnistu frá árinu 1997, er elsti núlifandi Íslendingurinn og fagnaði hún áfanganum með vinum og ættingjum á Miklatorgi á Hrafnistu í dag. Jensína er frá Þórisstöðum í Þorskafirði í Reykhólahreppi þar sem hún fæddist árið 1909. Á bænum voru sautján í heimili, foreldrar og fimmtán systkini. Jensína fór snemma til starfa utan æskuheimilisins, fyrst á bæ í Ísafjarðardjúpi þar sem hún var í tvo vetur áður en hún fluttist til Reykjavíkur. Á höfuðborgarsvæðinu hefur hún búið síðan og starfað við ýmis þjónustustörf auk þess að sinna ræstingum, m.a. á læknastofum. Jensína er sá íbúi sem náð hefur hæstum aldri í 60 ára sögu Hrafnistu.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, ræddi við Jensínu í sumar þegar hann kom í heimsókn á Hrafnistu í Reykjavík í tilefni af 60 ára afmæli heimilisins og var meðfylgjandi mynd tekin við það tækifæri. 

 

Lesa meira...

Lionsklúbburinn Njörður færði Hrafnistuheimilunum í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi höfðinglegar gjafir

Félagar úr Lionsklúbbnum Nirði heimsóttu Hrafnistu nýlega og komu færandi hendi en Hrafnisturnar í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi nutu aldeilis góðs af. 

Lionsklúbburinn færði Hrafnistuheimilunum í Reykjavík og Hafnarfirði rafknúna sturtustóla sem  hægt er að hækka og lækka og stilla þar með  vinnuhæð ásamt því að geta hallað aftur baki og lyft undir neðri part. Stólar af þessu tagi koma til með að nýtast hvort heldur sem er fyrir sturtu- og/eða salernisferðir. 

Þessar gjafir gera okkur betur kleift að sinna okkar veikustu heimilismönnum sem ekki hafa lengur getu né krafta til að sitja stuðningslaust, svo sem eftir heilablóðföll og aðra sjúkdóma.

Að komast í sturtu á þægilegan og öruggan hátt fyrir einstakling veitir bæði ánægju og vellíðan ásamt því að gera starfsmanni fært að aðstoða á léttari og öruggari hátt.

Hrafnista í Kópavogi fékk afhentar 4 loftdýnur að gjöf frá Lionsklúbbnum Nirði. Dýnurnar eru frábrugðnar venjulegum rúmdýnum að því leiti að þær skiptast upp í lofthólf sem dreifir vel þrýstingi. Ofan á lofthólfunum er þunnt svampefni sem tryggir mýkt og þægindi fyrir íbúann. Dýnurnar henta fyrir þá sem eru í áhættu á að fá þrýstingssár og eru nokkrir íbúar í þeim hóp á heimilinu. Það skiptir þá miklu máli að geta notað lofdýnur og íbúunum líður betur að liggja á þeim en á venjulegum rúmdýnum.

Hrafnistuheimilin í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi þakka Lionsklúbbnum Nirði kærlega fyrir þessar höfðinglegu gjafir sem voru að verðmæti alls kr. 2,5 milljónir. 

 

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar formaður Lionsklúbbsins Njarðar, Heimir Salvar Jónatansson, afhenti Hrafnistu þessar góðu gjafir á dögunum. Sveinn Snorrason, aldursforseti klúbbsins 92 ára, mátaði stólinn. 

 

Lesa meira...

Síða 4 af 75

Til baka takki