Fréttasafn

Púttmót Hrafnistu

Lesa meira...
Púttarar frá Hrafnistu í Hraunvangi og Laugarási mættust á skemmtilegu púttmóti í Laugarásnum. Veðrið var fínt fyrir spræka púttara og endaði mótið eins og vanalega með kaffisamsæti og verðlaunaafhendingu.
 
Úrslitin urðu Laugarásnum í vil þar sem púttmeistararnir í kvenna og karlaflokki koma bæði úr Laugarásnum.
 
Í karlaflokki var Stefán V. Pálsson sigurvegari, hann sigraði líka heildar keppnina.
 
Í kvennaflokki var sigurvegarinn Dýrleif Jónsdóttir.
 
Lesa meira...
 
Lesa meira...
 
Lesa meira...

Lesa meira...

Lesa meira...

Lesa meira...

Lesa meira...

Lesa meira...


 

Hrafnista Hraunvangi Hafnarfirði 45 ára

 

Á Sjómannadaginn þann 5. júní árið 1977, hóf Hrafnista Hraunvangi í Hafnarfirði sína starfsemi. Þann 29. júní sl. var haldið upp á tímamótin og íbúar og starfsfólk á Hrafnistu Hraunvangi gerðu sér glaðan dag meðal annars með því að njóta ljúfra tóna KK sem hélt tónleika í tilefni afmælisins.

Fjarðarfréttir litu við og mynduðu gleðina á Hrafnistu Hraunvangi - KK kitlaði hláturtaugar heimilisfólks á Hrafnistu

 

Lesa meira...

Góða skapið og gleði í lífinu lykillinn að langlífi

 

Sumargleði Hrafnistu í Laugarási var haldin í dag. Það viðraði svo sannarlega vel á íbúa og starfsfólk sem skelltu sér út í garð til að njóta veðurblíðunnar og hafa gaman saman í hópleikfimi, samsöng og gleði.

Gleðin er lykillinn að langlífinu 
Stöð2 leit við og spjallaði við þær Ólínu Þorvaldsdóttur og Herminu Lilliendahl sem voru sammála um að góða skapið og gleði í lífinu væri lykillinn að langlífi (spila frétt)

Hljómsveitin BREK spilaði með í söngstund Hörpu
Harpa Þorvaldsdóttir söngkona hefur komið til okkar á Hrafnistu í Laugarási undanfarin ár með vinsæla söngstund fyrir íbúa okkar og gesti í dagdvölum. Í gær komu með henni leynigestir en það voru meðlimir hljómsveitarinnar BREK, en Harpa er einmitt í þeirri hljómsveit og vöktu þau mikla lukku.

 

Lesa meira...

Mikilvægi persónulegra sýkingarvarna svo ekki þurfi að grípa til heimsóknartakmarkana

 

Kæru íbúar og aðstandendur.

Eins og staðan er í dag er mikil aukning á fjölda þeirra sem greinast með COVID-19 í samfélaginu. Hrafnistuheimilin hafa verið án heimsóknartakmarkana síðan í vor og telur Neyðarstjórn Hrafnistu mikilvægt að íbúar og aðstandendur þeirra geti haldið áfram að njóta samvista án heimsóknartakmarkana.

Til að svo megi verða áfram vill neyðarstjórn Hrafnistu minna aðstandendur á:

  • Mikilvægi persónulegra  sýkingavarna s.s. handþvott og handsprittun.
  • Að koma ALLS ekki í heimsókn ef þeir eru með einkenni sem gætu bent til COVID-19 eða önnur almenn einkenni um veikindi.

Alls ekki koma í heimsókn ef: 

a. þú ert með COVID-19 eða flensulík einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang, uppköst o.fl.).

b. þú ert með einhver önnur almenn einkenni um veikindi.

c. þú ert með COVID-19.

d. ekki eru liðnir 5 dagar frá því þú greindist með COVID-19.

e. þú ert með einkenni eftir COVID-19 þó að liðnir séu meira en 5 dagar frá greiningu.

Neyðarstjórn Hrafnistu leggur áherslu á að staðan getur breyst mjög hratt og mögulegt er að grípa þurfi til frekari aðgerða og takmarkana ef þörf krefur.

Fjórði skammtur bóluefnis gegn COVID-19

Heilbrigðisyfirvöld mæla með fjórðu bólusetningunni fyrir alla sem eru 80 ára og eldri og fyrir alla íbúa hjúkrunarheimila (líka þá sem eru undir 80 ára). Margir íbúar Hrafnistuheimilanna hafa nú þegar þegið fjórðu bólusetninguna við COVID-19, en alls ekki allir. Við viljum hvetja ykkur, kæru íbúar, til að þiggja þá bólusetningu ef þið hafið ekki þegar fengið hana.

 

Kær kveðja,

Neyðarstjórn Hrafnistu

 

Bréf til íbúa og aðstandenda fimmtudaginn 23. júní 2022

 

 

 

 

Lesa meira...

Komið víða við á löngum starfsferli

Einn þeirra sjómanna sem heiðraðir voru á sjómannadaginn er Sigurður Ólafsson vélstjóri. Í viðtali við Fréttablaðið fer hann yfir starfsævina sem að stærstum hluta tengist sjómennsku eða við störf sem tengjast sjávarútvegi með einhverjum hætti.

Viðtalið í heild sinni má lesa HÉR 

Komið víða við á löngum starfsferli

Siglufjörður, Leníngrad, Jan Mayen og þorskastríðið, skipa stóran sess í lífi Sigurðar Ólafssonar vélstjóra, sem hefur verið viðloðandi sjómennsku stóran hluta ævi sinnar.

Einn þeirra fjölmörgu Íslendinga sem hafa varið stærstum hluta starfsævinnar á sjó eða við störf sem tengjast sjávarútvegi með einhverjum hætti, er Sigurður Ólafsson vélstjóri, sem bæði starfaði sem sjómaður og hjá Faxaflóahöfnum í mörg ár. Sigurður fæddist 12. júní 1951 og verður því 71 árs gamall á sjómannadaginn á morgun. Hann hefur dundað sér við það undanfarin ár að skrifa æviminningar sínar á blað og var svo indæll að leyfa lesendum Fréttablaðsins að lesa nokkur minningabrot frá fyrri tíð.

Byrjaði ungur á sjó
„Það má segja að sjómennskan hafi byrjað þegar ég var fimm ára gamall á fraktskipinu M/S Kötlu. Pabbi minn, Ólafur Sigurðsson, var yfirvélstjóri á Kötlunni og tók mig með í siglingar yfir sumartímann. Yfirleitt var þetta einn túr en hann var oft langur. Ég fór víða með honum, til dæmis til Álaborgar til að sækja Portlands-sement, til Rússlands að sækja timbur, bæði til Arkangelsk og Leníngrad, og margra annarra hafna í Eystrasaltinu. Alltaf var komið við í Kaupmannahöfn að sækja kost og olíu, svo var siglt áfram til Leníngrad.“

Hann lenti í ýmsum ævintýrum í þessum ferðum.

„Eitt skiptið heimsóttum við súkkulaðiverksmiðju í Leníngrad og þegar það uppgötvaðist að ég átti afmæli var hlaðið á mig heilum ósköpum af súkkulaði þannig að ég átti birgðir allt sumarið. Eitt skiptið þegar við vorum á sjómannaheimilinu í Leníngrad var kallað á okkur feðga og pabbi spurður hvort þeir mættu taka mynd af stráknum til að eiga ef það kæmi eitthvað fyrir mig. Hann sagði það væri nú í lagi en honum var tjáð að þessar myndir yrðu sendar til Moskvu og við fengjum ekki eintak af þeim. Þannig komst ég í skjalasafn hinnar frægu leyniþjónustu KGB. Þessar sumarferðir stóðu yfir þangað til foreldrar mínir sendu mig í sveit í Eyjafjörðinn.“

Níu mánaða ævintýri
„Þegar leið á haustið 1967 kallaði pabbi í mig norður á Siglufjörð og réð mig sem smyrjara á Haförninn frá Siglufirði. Þar var ég þangað til ég hóf nám í Vélskóla Íslands árið 1969. Þetta voru 2-3 túrar á viku og við sigldum meðal annars til Jan Mayen.Þegar síldarævintýrinu lauk og skipinu var lagt í einhverja mánuði á Siglufirði var áhöfninni ekki sagt upp. Ákveðið var að leigja skipið til A.P. Moller í flutninga á eldsneyti á milli borga í Evrópu en einnig fluttum við jurtaolíu til Alsír. Þetta ævintýri tók níu mánuði og þá kom skipið heim til Reykjavíkur. Seinna meir var skipið selt til Ítalíu og fórum við feðgar þangað en þá var pabbi hættur til sjós enda orðinn 70 ára. Þessi skiparekstur Síldarverksmiðju ríkisins er rifjaður upp á Síldarminjasafninu á Siglufirði en þar er líkan af Haferninum og mappa með myndum af áhöfninni á skipinu.“

Þorskastríðið eftirminnilegt
„Ég var í Vélskólanum haustið 1969 fram til loka febrúar 1970. Þá lauk ég undirbúningsstigi og við feðgar fórum niður í Héðin til koma mér á samning í vélvirkjun. Ég var settur á suðuverkstæðið til Togga og lærði að sjóða, bæði logsuðu og rafsuðu. Þar var ég fram á haust þangað til ég fór í skólann aftur og tók fyrsta stigið haustið 1970 en ég kláraði Vélskólann 1973. Ég starfaði hjá Héðni á milli anna eða sem vélstjóri á varðskipum í 50 mílna þorskastríðinu, sem var mjög viðburðaríkur tími. Þar lenti ég svo sannarlega í ýmsum atvikum. Eftir skólann fór ég að klára smiðjuna svo ég gæti fengið full vélstjóraréttindi.“

 

Lesa meira...

Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í blíðviðri í gær, sunnudag.  Að venju hófst dagskrá Sjómannadagsráðs með minningarathöfn, um sjómenn sem hafa drukknað eða týnst í sjó, við Minningaröldur Sjómannadagsráðs við Fossvogskirkju í gærmorgun. Við athöfnina stóðu m.a. heiðursvörð fulltrúar frá Landhelgisgæslunni ásamt sjóliðum hollenska, portúgalska og þýska sjóhersins. Að athöfn lokinni fór fram sjómannadagsmessa í Dómkirkjunni, þar sem Sr. Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur prédikaði. Líkt og mörg undanfarin ár lögðu Halldór Guðmundsson og fjölskylda blómsveig á leiði týnda sjómannsins í Fossvogskirkjugarði á meðan á messu stóð.

Heiðrun sjómanna
Heiðrun sjómanna fór fram með athöfn í Hörpu kl.14.00. Lúðrasveit Reykjavíkur setti athöfnina með laginu Íslands Hrafnistumenn, Gerður G. Bjarklind var kynnir og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra flutti ræðu. Karlakórinn Fóstbræður tók lagið og Guðmundur Helgi Þórarinsson, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, var ræðumaður dagsins fyrir hönd sjómanna.

Eftirtaldir aðilar voru heiðraðir fyrir farsæl störf og björgun mannslífa: Guðjón Hafsteinn Guðmundsson, Sjómannafélagi Íslands, Finnbogi Aðalsteinsson, Sjómannafélagi Íslands, Valdimar H. Sigþórsson, Sjómannafélagi Íslands, Helgi Vignir Kristinsson, Sjómannafélagi Íslands, Sigurður Ólafsson, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Kristinn Daníel Hafliðason, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Ægir Kristmann Franzson, Félagi skipstjórnarmanna, og Ingvar Friðriksson, Félagi skipstjórnarmanna.

Hrafnistuheimilin í hátíðarbúning
Það var mikill hátíðarbragur yfir Hrafnistuheimilunum öllum í gær enda er sjómannadagurinn einn helsti hátíðisdagur okkar hér á Hrafnistu þar sem öllu er tjaldað til. Öll Hrafnistuheimilin voru með skipulagða dagskrá og buðu upp á kaffiveitingar í tilefni dagsins. Í garðinum á Hrafnistu í Laugarási spilaði Lúðrasveit Reykjavíkur af sinni alkunnu snilld. Séra Jón Ragnarsson, prestur í Áskirkju, annaðist guðsþjónustu, og Guðrún Árný Karlsdóttir söngkona sá um söng og píanóleik fyrir gesti í Skálafelli. Á Hrafnistu Nesvöllum í Reykjanesbæ spiluðu og sungu bræðurnir Hjörleifur og Eiður í bandinu Heiður fyrir íbúa, gesti og starfsfólk, svo eitthvað sé nefnt.

Fjölbreytt dagskrá sjómannadaginn
Við Grandagarð fór fram viðamikil og fjölbreytt dagskrá sem hófst kl. 13 og sótti fjölmenni hátíðina. Helstu bakhjarlar hátíðarinnar voru Sjómannadagsráð, Brim og Faxaflóahafnir, en undirbúningur hátíðarinnar stóð yfir í hálft ár í samstarfi við Önnu Björk Árnadóttur hjá  viðburðarfyrirtækið Eventum og Elísabetu Sveinsdóttur markaðskonu. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til. Við erum þakklát öllum þeim sem tóku þátt í að gera dag sjómanna eftirminnilegan.

Að lokum má geta þess að 85. árgangur Sjómannablaðsins var gefið út á fimmtudaginn. Hægt er að lesa blaðið á vefslóðinni https://sjomannadagurinn.is/sjomannadagsbladid/

 

Lesa meira...

Sýning á munum Happdrættis DAS á Hrafnistu í Laugarási

 

Á Hrafnistu í Laugarási hefur verið sett upp sýning á munum Happdrættis DAS sem spannar hátt í nær 70 ár.

Meðal muna á sýningunni eru:

-Líkan af einbýlishúsinu á Lindarflöt 32 í Garðabæ en húsið var aðalvinningur happdrættis DAS árið 1965.

-Líkan af raðhúsunum að Ásgarði 2 - 8 í Reykjavík sem voru í aðalvinning á árunum 1955-1958. Fyrst var Ásgarður 2 dreginn út 1955 og að síðustu var Ásgarður 8 dreginn út árið 1958.

-Eftirlíkingar af bifreiðum sem voru vinningar happdrættisins. Chevrolet Bel Air árið 1954, Vespa árið 1955, Ford Customline árgerð 1958, Ford Mustang árgerð 2005, Hummer árgerð 2006 og Harrley Davidson bifhjól árgerð 2008.

-Munir sem tengjast Bingó Lottó, sjónvarpsbingó á Stöð 2 sem Ingvi Hrafn stjórnaði á árunum 1994 - 1995.

-Hljómdiskar með „Íslenskum karlmönnum“, upptaka frá live-tónleikum í Háskólabíó með Stuðmönnum og Karlakór Fóstbræðra voru í vinninga eitt árið. Þá var sérstök útgáfa gefin út í samstarfi við Kristján Jóhannsson óperusöngvara en fyrsta skiptið sem Kristján kom fram opinberlega var einmitt á Sjómannadaginn. Allir sem áttu miða fengu „afmælisgjöf“ frá Happdrætti DAS í tilefni að 40 ára afmæli þess árið 1995.

Auk þess er til sýnis ferðalitasjónvarp sem var meðal vinninga eitt árið, alls 1 þús. eintök. Vasaútvarp og einnota myndavél sem voru meðal annarra vinninga í skafmiðahappdrættinu „Gull molinn“.

Að lokum eru meðal muna innsigli frá Dómsmálaráðuneytinu, gamlir happdrættismiðar, gamlir skafmiðar o.fl.

Fyrirhugað er að setja þessa sýningu upp á Hrafnistu Hraunvangi í Hafnarfirði í sumar.

 

Lesa meira...

Sjómannadagsblaðið fullt af fróðleik í 85 ár

 

Sjómannadagsblaðið, sem Sjómannadagsráð höfuðborgarsvæðisins hefur gefið út árlega í tilefni sjómannadagsins allt frá árinu 1938, kom í vikunni ylvolgt úr prentvélunum, þaðan sem blaðið fór í dreifingu til þúsunda viðtakenda.

Í blaði ársins gætir að venju fjölbreyttra viðfangsefna, en meðal þeirra sem rætt er við um sjávartengd málefni eru forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem vinnur að bók um útfærslu landhelginnar í tólf mílur fyrir fimmtíu árum, en átökin sem þá urðu segir Guðni hafa verið óumflýjanleg.

Einnig er rætt við Kristján Ragnarsson, fyrrverandi formann Landssambands íslenskra útvegsmanna, sem segir það draumóra að ætla að ná allsherjarsátt um fiskveiðistjórnunina.

Sömuleiðis er rætt við Einar Magnús Magnússon, sérfræðing hjá Samgöngustofu, sem segir félagslega þáttinn mikilvægt öryggisatriði á sjó en nokkuð vanmetinn. Því hafi Samgöngustofa hrint úr vör sérstöku átaki þar sem kastljósinu er beint að breyskleikum af ýmsum toga geti beinlínis valdið slysum á sjó.

Þá er í blaðinu ennfremur afar fróðlegt viðtal við Margaret Willson, mannfræðing og aðstoðarprófessor við Washingtonháskóla í Bandaríkjunum, um sjósókn íslenskra kvenna sem hún hefur rannsakað ítarlega og gefið út í bók sem þýdd hefur verið á fjölda tungumála. Hún segir sjósókn íslenskra kvenna allt frá landnámi hafa verið mun meiri en talið var og von sé á nýrri bók frá henni, að þessu sinni um Þuríði formann.

Wilson segir kveikjuna að þeirri bók hafa verið heimsókn í Þuríðarbúð á Stokkseyri þegar hún áttaði sig á því að skipstjórinn sem verið var að fræða hana um hefði verið kona.

Sjómannadagsblaðið upplesið af hljóðbókasafni Íslands
Athygli er vakin á að nú er einnig hægt að nálgast efni Sjómannadagsblaðsins upplesið af hljóðbókasafni Íslands. Það er Pétur Eggerz sem les. Opna hlekk á upplesturinn með því að smella HÉR

Hátíðarhöld sjómannadagsins 
Fjölmargt fleira áhugavert er að finna í Sjómannadagsblaðinu í ár sem nýkomið er út í átttugasta og fimmta sinn, m.a. dagskrá hátíðarhalda sjómannadagsins sem fram fer með fjölbreyttri dagskrá á Grandanum á sunnudag, sjómannadaginn, eins og hægt er að kynna sér í Sjómannadagsblaðinu sem nálgast til lestrar á vefslóðinni: sjomannadagurinn.is/sjomannadagsbladid.

 
Lesa meira...

Síða 14 af 175

Til baka takki