Fréttasafn

Hanna Jóna Ragnarsdóttir ráðin aðstoðarhjúkrunardeildarstjóri á Hrafnistu Garðabæ - Ísafold

Lesa meira...

Hanna Jóna Ragnarsdóttir hefur verið ráðin sem aðstoðarhjúkrunardeildarstjóri Hrafnistu Garðabæ – Ísafold. Hanna Jóna er 37 ára, gift Kristjáni Páli og þau eiga tvær dætur, Petrúnellu 18 ára og Katrínu Diljá 11 ára. Þau búa ásamt þremur köttum í Kópavogi.

Hún tók sér ýmislegt fyrir hendur áður en hún skellti sér í hjúkrunarfræði við HÍ 2010. Lauk m.a. tveimur árum í fornleifafræði við HÍ, verslunarprófi, námi í Grafíski miðlun við Iðnskólann í Reykjavík og var flugfreyja hjá Icelandair.

Frá 2009 - 2012 vann hún við aðhlynningu á Grund og varð hópstjóri þar eftir að fyrsta ári  hjúkrunarnáms hennar lauk. Frá 2013 vann hún með námi á næturvöktum á taugalækningadeild Landspítalans. Eftir útskrift fór hún á dag- og kvöldvaktir á sömu deild. Hanna útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur 2015. Hún byrjaði að vinna á Ísafold í janúar 2017.

 

Við bjóðum Hönnu Jónu velkomna í stjórnendahóp Hrafnistu.

 

Lesa meira...

Sigrún Skúladóttir ráðin hjúkrunardeildarstjóri á Hrafnistu Garðabæ - Ísafold

Lesa meira...

Sigrún Skúladóttir hefur verið endurráðin sem hjúkrunardeildarstjóri á Hrafnistu Garðabæ - Ísafold í nýju skipulagi heimilisins, sem er einn hjúkrunardeildarstjóri ásamt aðstoðardeildarstjóra, í stað tveggja deildarstjóra. Sigrún er 43 ára, einhleyp með 2 börn, Hugrúnu Evu 6 ára og Skúla Þór 12 ára. Hún býr í Hafnarfirði, fæddist á Sólvangi og vann við aðhlynningu og hjúkrun þar af og til frá 17 ára aldri allt til ársins 2013. Sigrún útskrifaðist með BSc í hjúkrunarfræði vorið 2001 og master í stjórnun heilbrigðisþjónustu frá Bifröst vorið 2009.  Hún hefur víðtæka starfsreynslu frá útskrift , m.a. á hjartadeild LSH, bæklunardeild sjúkrahússins í Álaborg Danmörku, Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar, Liðsinni, Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins m.a. í ungbarnavernd, slysavakt og afleysingu hópstjóra heimahjúkrunar og nú síðast sem hjúkrunarforstjóri Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað. Hún hóf störf sem deildarstjóri á Ísafold 1. janúar 2013.

Við bjóðum Sigrúnu velkomna í stjórnendahóp Hrafnistu.

 

Lesa meira...

Forseti Íslands í heimsókn á Hrafnistu Garðabæ - Ísafold

Lesa meira...

Það var mikið um dýrðir þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heimsótti Hrafnistu Garðabæ - Ísafold á dögunum. Boðið var  upp á kaffimeðlæti, tónlistaratriði flutt og í framhaldinu heilsaði forsetinn upp á íbúa og starfsfólk.

Þökkum forsetanum kærlega fyrir komuna.

 

Meðfylgjandi eru myndir frá heimsókninni.

 

Lesa meira...

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra í heimsókn á Hrafnistu í Reykjavík

Lesa meira...

Fimmtudaginn, 11. maí sl.,  kom Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra í heimsókn á Hrafnistu í Reykjavík. Hann átti rúmlega klukkutíma langan fund með Framkvæmdaráði þar sem honum voru kynntar okkar umfangsmikla starfsemi og áherslur. Einnig fóru fram góðar umræður um stöðu hjúkrunarheimila og öldrunarþjónustu almennt. Ráðherrann gaf sér svo góðan tíma til ganga um húsið, heilsa upp á íbúa og starfsfólk og kynna sér starfið af eigin raun.

 

Meðfylgjandi eru myndir frá heimsókninni.

 

Lesa meira...

Nýr formaður Sjómannadagsráðs - Hálfdan Henrysson

Lesa meira...

Í gærkvöld, fimmtudaginn 11. maí,  fór fram aðalfundur Sjómannadagsráðs, eiganda Hrafnistuheimilanna.

Þar bar helst til tíðinda að Guðmundur Hallvarðsson, sem verið hefur formaður stjórnar ráðsins frá árinu 1993 gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Guðmundur kom fyrst inn í starfsemi Sjómannadagsráðs árið 1970. Árið 1984 tók hann sæti í stjórn Sjómannadagsráðs og hefur hann verið formaður stjórnarinnar frá árinu 1993 eins og áður segir.

Nýr formaður var kjörinn Hálfdan Henrýsson. Hálfdan kom inn í stjórnina árið 1993 og hefur gengt þar stöðum ritara, gjaldkera og nú síðast varaformanns.

Guðmundur hefur haft mikil áhrif á starfsemi Sjómannadagsráðs, Hrafnistuheimilanna og annara fyrirtækja Sjómannadagsráðs þennan tíma. Mjög margt hefur breyst og hefur starfsemin vaxið og dafnað svo um munar. Starfsemi Sjómannadagsráðs telst til stærstu fyrirtækja landsins og er Hrafnista ein stærsta heilbrigðisstofnun landsins.

Við þökkum Guðmundi kærlega fyrir samstarfið, samfylgdina og samveruna öll þessi ár og óskum honum allra heilla í framtíðinni!

Hálfdan bjóðum við hjartanlega velkominn í formannsstólinn og hlökkum til skemmtilegs og spennandi samstarfs!

 

Á meðfylgjandi mynd afhendir fráfarandi formaður Sjómannadagsráðs, Guðmundur Hallvarðsson, nýkjörnum formanni, Hálfdan Henryssyni, lyklana af skrifstofu Sjómannadagsráðs.

Lesa meira...

Nýtt hjúkrunarheimili, þjónustumiðstöð og leiguíbúðir fyrir aldraða rísa við Sléttuveg í Fossvogsdal

Lesa meira...

 

Nýtt hjúkrunarheimili, þjónustumiðstöð og leiguíbúðir fyrir aldraða rísa við Sléttuveg í Fossvogsdal

 

·         Hjúkrunarheimili með rúmgóðum einstaklingsrýmum fyrir 99 íbúa.

·         Í nýrri þjónustumiðstöð verður matarþjónusta, afþreying, tómstundir, heilsurækt, útivist og opið félagsstarf eins og Reykjavíkurborg veitir í þjónustumiðstöðvum sínum.

·         125 nýjar leiguíbúðir fyrir aldraða.

 

Í dag skrifuðu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Guðmundur Hallvarðsson formaður Sjómannadagsráðs undir samninga og viljayfirlýsingu um byggingu og rekstur nýs hjúkrunarheimilis, þjónustumiðstöðvar og leiguíbúða fyrir aldraða við Sléttuveg í Fossvogsdal. Fyrirkomulag verður svipað því sem er í dag hjá Hrafnistu við Laugarás í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Byggingarframkvæmdir hefjast seinni hluta þessa árs og er gert ráð fyrir að þeim verði lokið 2019. Í fyrsta áfanga verður nýtt  hjúkrunarheimili byggt og í beinu framhaldi hefjast framkvæmdir við þjónustumiðstöð og leiguíbúðir.

 

Rúmgóð einstaklingsrými fyrir 99 íbúa

Á hjúkrunarheimili Hrafnistu verða rúmgóð einstaklingsrými fyrir 99 íbúa ásamt setustofum, matsal og aðstöðu þar sem innangengt verður í þjónustumiðstöðina. Gert er ráð fyrir að heimilið taki til starfa á seinni hluta árs 2019. Reykjavíkurborg og ríkið gerðu í nóvember með sér samning um byggingu hjúkrunarheimilis við Sléttuveg sem Reykjavíkurborg mun reisa í samvinnu við ríkið. Borgin hefur nú ritað undir viljayfirlýsingu við Sjómannadagsráð, eiganda Hrafnistuheimilanna, um rekstur hjúkrunarheimilisins. Við hönnun og útfærslu heimilisins verður unnið í nánu samstarfi við velferðarsvið borgarinnar en við byggingu þess verður fylgt reglum velferðarráðuneytisins um skipulag hjúkrunarheimila. Jafnframt er stefnt að því að nýta á sem bestan hátt þá áratugalöngu þekkingu og reynslu sem Hrafnista hefur af víðtækri þjónustu við aldraða.

 

Fjölbreytt og mikil þjónusta

Í samningnum sem undirritaður var í dag gætir m.a. þeirrar nýbreytni að Sjómannadagsráð mun byggja, eiga og reka fyrirhugaða þjónustumiðstöð sem samtengd verður Hrafnistuheimilinu og þremur nýjum fjölbýlishúsum með leiguíbúðum Naustavarar. Hrafnista mun bjóða öldruðum margvíslega þjónustu eins og þá sem veitt er á öðrum Hrafnistuheimilum en einnig ýmsa aðra sem veitt verður í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar í sjálfri þjónustumiðstöðinni. Þar á meðal verður matarþjónusta, afþreying, tómstundir, heilsurækt, útivist og opið félagsstarf eins og Reykjavíkurborg veitir í þjónustumiðstöðvum sínum  í borginni ásamt þjónustu fótaaðgerðasérfræðinga og hárgreiðslumeistara.

 

Leiguíbúðir njóta nálægðar við hjúkrunarheimili

Síðar á árinu munu framkvæmdir við byggingu fjölbýlishúss með leiguíbúðunum hefjast við hlið fyrirhugaðrar þjónustumiðstöðvar við Sléttuveg og á byggingarreit við Skógarveg. Í húsunum verða u.þ.b. 125 leiguíbúðir sem leigðar verða öldruðum. Meirihluti íbúðanna verður frá 50-70 m2, en einnig verða byggðar 70-85 m2 hjónaíbúðir og nokkrar 90 m2 íbúðir eða stærri.Í starfsemi leiguíbúðanna er lögð höfuðáhersla á nálægð við hjúkrunarheimili og þjónustumiðstöð þar sem aldraðir hafa aðgang að fjölbreyttri þjónustu, þar á meðal sérhæfðri þjónustu í samræmi við einstaklingsbundna þörf.

 

Guðmundur Hallvarðsson, formaður Sjómannadagsráðs, segir að ráðið hafi rutt brautina hvað þessa áherslu varðar á íbúðaleigumarkaði fyrir aldraða hér á landi. Markmiðið sé að þeim sem kjósa að búa á eigin vegum sé gert það kleift í öruggu umhverfi sem lagað er að mismunandi þörfum aldurshópsins. Eins og í öðrum hverfum þar sem Sjómannadagsráð leigir eldri borgurum sérhæfðar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu verður m.a. starfrækt húsvarsla allan sólarhringinn í húsum félagsins við Sléttuveg.  Meginmarkmiðið að sögn Guðmundar er að bjóða íbúunum alhliða þjónustu í samræmi við þarfir hvers og eins þar sem þjónustan fylgir einstaklingum eins og stuðningur við hann krefst hverju sinni.

 

Uppbygging fyrir eldri borgara á Sléttuvegi

Við Sléttuveg í Reykjavík hefur á undanförnum árum átt sér stað uppbygging íbúða fyrir eldri borgara. Með samsetningu þeirrar uppbyggingar sem nú er fyrirhuguð og staðfest var í dag bjóðast eldri borgurum fleiri valkostir. Sléttuvegur er afar skjólsælt hverfi með góðu útsýni og góðu aðgengi að göngustígum í miðju Reykjavíkurborgar.

 

Lesa meira...

Gjafir til Hrafnistu í Hafnarfirði frá Lionsklúbbi Hafnarfjarðar

Lesa meira...

Félagar í Lionsklúbbi Hafnarfjarðar hafa undanfarin ár stutt  dyggilega við starfsemi Hrafnistu í Hafnarfirði með veglegum gjöfum.

Aðallega er það sjúkraþjálfunin sem notið hefur  góðs af  en henni hafa þeir gefið ófá afar fullkomin tæki til þjálfunar og meðferðar á þjónustuþegum  deildarinnar.  Nýlega komu þeir færandi hendi og afhentu  deildinni fjölþjálfa, teg. Tr 4  að andvirði kr. 900.000- en áður höfðu þeir gefið annan sambærilegan. Tækin sem sjúkraþjálfun Hrafnistu Hafnarfirði hefur fengið með þessum hætti auka mikið á þjálfunarúrræði og afkastagetu  deildarinnar þannig að unnt er að veita breiðari hóp viðeigandi meðferð.  

Þessir heiðursmenn hafa einnig gefið Hrafnistu í Hafnarfirði aðrar gjafir. Má þar nefna sérlega vandað ferðarúm sem aðstandendur geta nýtt sér, spariborðbúnað fyrir 40 manns og nú síðast nýjan hjartarita  ásamt peningagjöf til bókasafns heimilisins. Þessar gjafir eru kærkomin búbót á stóru heimili þar sem sífelld endurnýjun og aukning á búnaði er nauðsynleg.

Félagar  í Lionsklúbbi Hafnarfjarðar eiga svo sannarlega heiður skilinn fyrir ómetanlegt framlag í þágu eldri borgara með gjöfum sínum til heimilisins.

Myndirnar eru frá mótttöku sem haldin var í mars s.l. á Hrafnistu Hafnarfirði í þakklætisskyni fyrir gjafirnar.

Bryndís Fanný Guðmundsdóttir, sjúkraþjálfari.

 

 

Lesa meira...

Síða 14 af 71

Til baka takki