Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 28. ágúst 2015 - Gestaskrifari Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Hafnarfirði

Hamingja er ekki áfangastaður heldur stöðugt ferðalag, njóttu ferðalagsins

Sumarið er liðið, haustið er framundan og allt er komið á ,,fullt“ eins og stundum er sagt á mínu heimili – grunnskólinn, vinnan, menntaskólinn, laxveiðin, fótboltinn, háskólinn, ræktin, fara í berjamó, hitta vinina, smala, gæsaveiðin, Menningarnótt, sveppatínsla… og svo mætti lengi telja. Allir á fleygiferð, heppni ef öll fjölskyldan nær að borða saman 2-3x í viku. Held að þessi hraði sé ekkert einsdæmi á mínu heimili, en stundum held ég að æskilegt væri að við gæfum okkur meiri tíma til að staldra við og njóta. Í sumar gafst mér tækifæri á að fara í vikuferð til Tyrklands, ekkert fyrirfram skipulagt eina marmiðið var að staldra við og njóta.

Mig langar að bjóða ykkur með í lítið ferðalag, Ferðalög geta verið margskonar, þau eiga það sammerkt að þau hafa upphaf og endi. Ímyndið ykkur að þið séuð stödd í Garðabæ og leiðin liggur út á Álftanes, hugsanlega á Bessastaði – það þarf ekki alltaf að fara langt til að njóta. Við ætlum ekki malbikaða veginn, heldur sláumst við í för með Benedikt Gröndal og  njótum leiðarinnar:

"Garðahraun er partur af hinum stórkostlegu Reykjaneshraunum og eykur það landsfegurðina eigi lítið á sumrin, þar sem silfurgrár gamburmosi klæðir hvervetna hraunklettana, sumstaðar eins og stórir flákar, en sumstaðar í dældum og djúpsignum lautum, en í gjótunum vaxa ýmis grös og jurtir og verða hávaxnar og sællegar, þar sem þær eru í skjóli fyrir öllum vindum og geta notið sólarinnar í næði: stórar brekkur með fagurgrænum laufaskurði bærast uppi fyrir fjólubláu lyfjagrasi og heiðgulum dvergasóleyjum; sumstaðar hallast einstaka jarðarber upp við grænan kúluvaxinn kodda, alvaxinn lifrauðu lambagrasi, en geldingahnapparnir eða gulltopparnir lúta fram yfir gjótubarmana, þar sem kóngulóin hefur dregið sinn smágjörva vef. Sumstaðar mæna undarlega vaxnir hraundrangar upp úr grastóm og mosabingjum; á forntroðnum götustígum minna máðar steinbárur á eldvelluna, sem hefur áður verið rennandi og gljúp - sólskríkjur, steindeplar og maríuerlur fljúga til og frá og tísta við og við, annars heyrist hér ekkert hljóð,...." Tilvitnun lýkur (úr Dægradvöl eftir Benedikt Gröndal).

Erum við kannski dags daglega á of mikilli hraðferð í leit að hamingju?  Einblínum við um of á markið? Pössum okkur á því að staldra við og njóta leiðarinnar sjálfrar, hvert einasta skref skiptir máli.

Hamingjan er ekki áfangastaður heldur stöðugt ferðalag, það er bara að njóta þess smáa á leiðinni eins og Benedikt benti okkur á.

Munið að njóta ekki þjóta!

Eigið yndislega helgi.

Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur