Top header icons

Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

Vegna umfjöllunar um þjónustu Hrafnistu í Laugarási

b_250_250_16777215_00_images_frettir_2019_reykjavk_crop.jpeg

 

Eftir því sem aðstandendur taka aukinn þátt í öldrunarþjónustunni, fjölgar líka þeim sem hafa skoðanir á þjónustunni sem veitt er. Væntingar aðstandenda til þjónustu við aldraða eru jafn margvíslegar og aðstandendurnir eru margir. Þótt flestir séu ánægðir og þakklátir fyrir þjónustuna koma upp tilvik þar sem ekki tekst að uppfylla væntingar.

Um leið er gríðarlega mikilvægt að skjólstæðingar hjúkrunarheimila geti treyst því að persónuleg mál þeirra séu ekki í almennri umræðu af okkar hálfu. Við tökum heldur ekki þátt í opinberri umræðu um einstök og oft mjög viðkvæm mál. Ástæðan er þagnarskyldan sem hvílir á okkur sem starfsfólki og henni lýkur ekki við andlát. Sjónarmið okkar heyrast því sjaldan enda þótt ávallt séu ýmsar hliðar á sérhverju máli. Óvægin umræða og stundum dómharka samfélagsins í kjölfar einhliða málflutnings tekur vissulega á starfsfólk, sérstaklega þá sem rækja starf sitt af hvað mestri trúmennsku. Hún getur líka tekið verulega á aðra íbúa og aðstandendur þeirra.

Þar með er ekki sagt að við sem störfum að umönnun aldraðra séum hafin yfir gagnrýni. Þess vegna er það markmið okkar og ásetningur að hlusta vel á málefnalega gagnrýni og ekki síst góðar ábendingar um það sem betur megi fara og vera gagnrýnin á okkur sjálf. Við þurfum líka að hafa kjark til að biðjast afsökunar verði okkur á mistök. Slík samskipti eiga sér hins vegar stað milliliðalaust og í trúnaði, eins og önnur samskipti við íbúa og aðstandendur þeirra. Þjónusta við aldraða krefst fagmennsku, þolinmæði, hjartahlýju og einlægs áhuga á því að vera með öldruðum.

Til að lágmarka fjölda neikvæðra tilvika hafa hjúkrunarheimilin innleitt í æ ríkara mæli reglulegar gæðamælingar og skýrar verklagsreglur sem þó taka breytingum í samræmi við reynslu og bestu rannsóknir á  hverjum tíma á lífsgæðum aldraðra. Jafnframt er mikilvægt að geta þess að í lok síðasta árs stofnaði Hrafnista sérstakt embætti Umboðsmanns íbúa og aðstandenda á Hrafnistuheimilunum. Í þessu starfi felst að samræma upplýsingagjöf til íbúa og aðstandanda, um þá þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilum sem og ýmis önnur ráðgjöf og fræðsla, til dæmis þegar ættingjum finnst þjónustunni verulega ábótavant. Hrafnistuheimilin leggja sig fram um að veita eins góða þjónustu og kostur er.

Nú standa yfir veigamiklar breytingar á eldhúsi Hrafnistu í Laugarási og er tilgangurinn að auka gæði og þjónustu við íbúa, starfsfólk og aðra þjónustuþega. Meðan á framkvæmdum stendur er heitur matur fyrir Hrafnistu í Laugarási eldaður í bráðbirgðaraðstöðu og hefur það gengið vel.

Það er hins vegar ekkert launungarmál að skert fjárframlög og stíf inntökuskilyrði hins opinbera, þar sem aðeins hinir allra veikustu fá heimild til búsetu á hjúkrunarheimili, hafa gert starfið meira krefjandi. Þrátt fyrir það erum við öll af vilja gerð til að gera ávallt okkar besta. Okkur þykja því sárar alhæfingar sem af og til birtast um slæma meðferð á öldruðum á Íslandi. Við fögnum hins vegar málefnalegri og uppbyggilegri umræðu. Við skulum jafnframt hafa í huga að hrós, þakklæti og hvatning sem starfsfólk hjúkrunarheimila fær frá íbúum og ættingjum, gefur kraft og lífsgleði til að halda góðu starfi áfram þó stundum blási á móti.

 

Pétur Magnússon,

forstjóri Hrafnistuheimilanna.

 

 

 

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur