Leit

svæði efst í haus hægra megin

 Hrafnista á Workplace FacebookHrafnista á Facebook

 

 
 

Topp slide - reykjavik

Líf og fjör í Reykjavík á árlegum hátíðisdegi sjómanna

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur við Grandagarð í Reykjavík sunnudaginn 3. júní sl. Í ár er Sjómannadagurinn tileinkaður 100 ára fullveldisafmæli þjóðarinnar. Dagurinn hófst kl. 10:00 með athöfn við Minningaröldur sjómannadagsins við Fossvogskapellu þar sem flutt voru minningarorð og bæn áður en sjómannaguðsþjónusta hófst í Dómkirkjunni klukkan ellefu, þar sem starfsfólk Landhelgisgæslunnar stóð heiðursvörð. Eftir hádegi hófst fjölbreytt skemmtidagskrá sjómannadagsins við höfnina sem að venju var útvarpað í beinni útsendingu á Rás 1 með Gerði G. Bjarklind fyrrum útvarpsþuli.

Sjómannadagurinn í 80 ár
Sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur 6. júní árið 1938 í Reykjavík og á Ísafirði. Þá kom Sjómannadagsblaðið jafnframt út í fyrsta sinn og er blaðið í ár, sem dreift var til allra heimila á höfuðborgarsvæðinu, hið 81. frá upphafi. Hátíðisdagurinn hefur síðan þá breiðst út um sjávarplássin um allt land. Árið 1987 var hann lögskipaður frídagur sjómanna. Á sjómannadaginn heiðrar Sjómannadagsráð sjómenn fyrir störf sín um leið og þeirra er minnst sem drukknað hafa eða týnst við störf á sjó. Á tuttugustu öldinni fórust yfir fjögur þúsund sjómenn á hafi. Samfara mikilli þróun, svo sem með betri og öruggari skipum, hertum öryggiskröfum, menntun og síðast en ekki síst breyttu hugafari sjómanna hefur tekist að snúa þróuninni við og stórfækka slysum. Eins og mörg undanfarin ár lést enginn sjómaður við störf sín á síðasta ári, hvorki á fiskiskipi né farskipi hér við land.

Heiðraðir 2018
Heiðrun sjómanna fór fram á Grandagarði á sjómannadaginn. Heiðraðir voru Trausti Aðalsteinn Egilsson og Sigurður Steinar Ketilsson frá Félagi skipstjórnarmanna. Elliði Norðdahl Ólafsson og Jóhann Páll Símonarson frá Sjómannafélagi Íslands, og Magnús Trausti Ingólfsson frá Félagi vélastjóra og málmtæknimanna (VM). Helgi Sigurjónsson sem fékk Neistann, viðurkenningu VM. Hálfdan Henryson, stjórnarformaður Sjómannadgasráðs, heiðraði sjómenn. Ávarp flutti Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra. Ræðumaður dagsins var Guðmundur Hallvarðsson. Þá flutti Marin Frýdal, fulltrúi borgarstjórn Þórshafnar í Færeyjum einnig ræðu í tilefni af komu færeyska kúttersins Westward Ho.

Minningaröldurnar
Fyrir rúmum tveimur áratugum lét Sjómannadagsráð reisa listaverkið Minningaröldur um drukknaða og týnda sæfarendur við Fossvogskapellu, þar sem vitinn um óþekkta sjómanninn stendur í bakgrunni. Allt frá því að öldunum var komið fyrir við kapelluna hafa ættingjar látinna sjómanna látið koma nöfnum ástvina sinna fyrir á öldunum og eru þau nú alls orðin vel á sjötta hundrað talsins. Má segja að þeir sjómenn hafi skilað sér heim til lands. Áhafnarmeðlimir vitaskipsins Hermóðar, sem fórst með tólf manns við Reykjanes í febrúar árið 1959, voru þeir fyrstu sem fengu nöfn sín á Minningaröldurnar í Fossvogi.

Sjómannadagsráð 
Sjómannadagsráð er samband stéttarfélaga sjómanna á höfuðborgarsvæðinu sem stofnað var af ellefu sjómannafélögum í Reykjavík og Hafnarfirði 25. nóvember 1937. Upphaflegt markmið var að efna til árlegs hátíðisdags fyrir íslenska sjómenn og var hann fyrst haldinn 6. júní 1938. Sjómannadagurinn hefur frá árinu 1987 verið lögskipaður frídagur sjómanna. Fljótlega eftir stofnun Sjómannadagsráðs vaknaði sú hugmynd að ráðið stæði að byggingu dvalarheimilis fyrir aldraða sjómenn og sjómannsekkjur sem síðan varð að veruleika árið 1957 þegar Hrafnista í Reykjavík tók til starfa. Tuttugu árum síðar tók Hrafnista í Hafnarfirði til starfa sem í dag er stærsta hjúkrunarheimili landsins.

Sjómannadagsráð annast í dag rekstur sex hjúkrunarheimila á suðvesturhorni landsins og núna í júní hefjast verklegar framkvæmdir við byggingu sjötta heimilisins þar sem Hrafnista tekur til starfa 2019 við Sléttuveg í Reykjavík. Á meðal fleiri markmiða Sjómannadagsráðs er að kynna þjóðinni mikilvægi sjómannastarfsins fyrir landi og þjóð, stuðla að og efla samstarf allra starfsgreina sjómanna og beita sér fyrir menningarmálum er varða sjómannastéttina ásamt því að vinna að margvíslegum velferðar- og öryggismálum sjómanna.

 

 • Til baka takki

  Banners neðst á forsíðu 1

  Happdrætti DAS 

   

  Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
  Samþykkja kökur