Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 25. maí 2018 - Gestaskrifari er Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Hafnarfirði

Lesa meira...

Vorið er mikill uppáhaldstími hjá mér, sá tími þegar nóttin verður björt og gróður vaknar af vetrardvala. Það sama má jafnvel segja um okkur mannfólkið, með hækkandi sól hristir maður af sér vetrardrungann, það styttist í sumarfrí og fleiri samverustundir með fjölskyldu og vinum. Sumarstarfsmenn mæta galvaskir til starfa, sumir vanir starfsmenn en aðrir að stíga sín fyrstu skref við umönnun aldraðra. Það rifjaðist upp fyrir mér á dögunum að nú í maí eru 30 ár síðan ég kom til starfa sem sumarstarfmaður á Hrafnistu í Hafnarfirði, þetta var skemmtilegt sumar, ég kynntist mörgu nýju fólki, íbúum, aðstandendum og samstarfsfólki. Sumir voru í sömu sporum og ég, byrjendur í starfi, þá skipti miklu máli að hafa góða leiðbeinendur sem kenndu manni réttu handtökin en ekki síður skipti það máli að mæta skilningi, jákvæðni og þolinmæði. Ég man hvað mér þótti gaman að kynnast íbúunum, allt í einum ,,átti” ég fullt af öfum og ömmum sem var yndislegt að fá að umgangast á hverjum degi. Ég held að þetta sumar hafi markað framtíð mína en alla daga síðan þá hef ég starfað við umönnun og hjúkrun aldraðra, fyrst sem sumarstarfmaður með skóla og síðar sem hjúkrunarfræðingur. Ég tel þá vera lánsama sem velja starf við umönnun aldraðra, starfið er gefandi, lærdómsríkt, þroskandi og skemmtilegt. Það er hægt að mæla með að allir prufi að starfa í þessum geira einhverntíman á lífsleiðinni.

Mig langar að nota tækifærið og bjóða alla sumarstarfmennina okkar velkomna til starfa og ég hlakka til að starfa með þessum flotta hópi í sumar. Jafnframt vona ég að samstarfmenn mínir eigi gott sumarfrí í vændum og komi endurnærðir úr fríi.

 

Munið að njóta þess að vera til!

 

Árdís Hulda Eiríksdóttir

Forstöðumaður

Hrafnistu Hafnarfirði

Síða 189 af 330

Til baka takki