Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 26. október 2018 - Pétur Magnússon, forstjóri

Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 26. október 2018.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Árshátíð Hrafnistu 2019 og framtíðarskipulag árshátíða

Eins og þið sjálfsagt þekkið höfum við haft þann sið að hafa sameiginlega árshátíð fyrir öll Hrafinstuheimilin annað hvert ár. Mér er ánægja að tilkynna að árshátíð starfsfólks Hrafnistuheimilanna árið 2019 fer fram laugardaginn 13. apríl (2019). Hún verður að þessu sinni á Hilton Nordica hótelinu við Suðurlandsbraut. Veislustjóri verður Gísli Einarsson fjölmiðlamaður og sjálfur Páll Óskar mun halda uppi stuðinu fram á nótt!

Samhliða þessu ætlum við að gera breytingu á fyrirkomulagi árshátíða. Áfram munum við halda sameiginlega árshátíð Hrafnistuheimilanna annað hvert ár en vegna vaxandi fjölda starfsmanna verður sameignlega árshátíðin svokölluð „standandi árshátíð“, þ.e. ekki sitjandi borðhald. Það eru þó alveg a.m.k. 200 sæti á svæðinu og matarstöðvar verða á nokkrum stöðum. Þetta form árshátíðar hefur tekist mjög vel til á Hilton Nordica samkvæmt nokkrum fyrirtækjum sem við höfum leitið til eftir upplýsingum. Hins vegar er svo ætlunin að hitt árið sem ekki er sameiginleg árshátíð, að þá verði haldin sérstök árshátíð fyrir hvert heimili þar sem auðveldlega er hægt að hafa sitjandi borðhald og heimatilbúin skemmtiatriði, kjósi skemmtinefnd viðkomandi Hrafnistuheimilis að gera svo.

Þetta verður nú allt kynnt vel og rækilega þegar nær dregur en ágætt að fólk fari að taka dagsetninguna frá – þetta verður fjör!

 

Starfsafmæli í október

Nú í októbermánuði eiga nokkrir úr okkar glæsta starfsmannahópi formleg starfsafmæli og fá þau afhentar formlegar starfsafmælisgjafir af því tilefni.

Þetta eru:

3 ára starfsafmæli: Í Reykjavík eru það Eygló Tómasdóttir deildarstjóri á Lækjartorgi og Margrét Sigurðardóttir í sjúkraþjálfun. Á Hlévangi er það Erla Durr Magnúsdóttir deildarstjóri iðjuþjálfunar og Gergana D. Hristova í Garðabæ.

5 ára starfsafmæli: Matte Bjarni Karjalainen á Sól-/Mánateig og Sunneva Tómasdóttir á Vitatorgi, bæði í Reykjavík. Í Hafnarfirði eru það Hafdís Arna Sigurðardóttir á Sjávar-/Ægishrauni, Ingigerður R. Kristinsdóttir í iðjuþjálfun og Þórdís Eiríksdóttir á Ölduhrauni. Í Kópavogi er það Guðný Þórunn Þórarinsdóttir.

15 ára starfsafmæli: Sigrún Stefánsdóttir forstöðumaður og Sigríður Þ. Ingólfsdóttir í iðjuþjálfun, báðar á Hrafnistu Reykjavík. Í Hafnarfirði er það Laufey M. Jóhannesdóttir á Ölduhrauni.

20 ára starfsafmæli: Gróa Guðrún Magnúsdóttir á Lækjartorgi Hrafnistu í Reykjavík og Guðrún Hjördís Ásmundsdóttir á Bylgjuhrauni Hrafnistu í Hafnarfirði.

Hjartanlega til hamingju öll og kærar þakkir fyrir ykkar störf í þágu aldraðra og Hrafnistu!

 

59 dagar til jóla!

Þar sem nú eru aðeins 59 dagar til jóla vildi ég upplýsa ykkur að jólagjöf Hrafnistu til starfsfólks verður með svipuðum hætti og í fyrra en þó ekki eins! Það er nefnilega alltaf gott að gera breytingar öðru hverju.

Þeir sem eru í 30% starfi eða meira fá inneignarbréf í Kringluna. Upphæð inneignarinnar er 7.500 kr og hefur þessi gjöf mælst vel fyrir. Rétt er að taka fram að inneignarbréf í Kringlunni eru valin fram yfir hefðbundinn inneignarkort í banka þar sem viðskiptabanki okkar rukkar 500 krónu fyrir hvert bankakort og þar með myndi innhald gjafarinnar rýrast í 7.000 kr. Það erum við ekki sátt við og völdum því að færa okkur í Kringluna. Jafnframt fá allir starfmenn Hrafnistu nú gjafabréf fyrir vandaða vettlinga í verslunum 66°N en bíómiðar, eins og verið hefur síðustu ár, verða hvíldir í bili. Vettlingarnir eru að verðmæti 5.000 kr. Það skal áréttað að þeir sem eru í minna en 30% starfi fá einungis gjafabréf fyrir vettlingum (í stað bíómiða áður) en fá ekki Kringlu-kortið. Allir sem eru í 30% starfi eða meira fá Kringlukort (7.500 kr) og gjafabréf fyrir vettlingum.

Dreifing afmælisgjafa verður kynnt þegar nær dregur en ég vona að þessi tilbreyting mælist vel fyrir hjá fólki.

 

Hrafnista er ekki að fara að opna á Tálknafirði

Á dögunum fjallaði fréttastofa Stöðvar 2 um stöðu öldrunarmála á Tálknafirði í fréttatíma sínum. Fín umfjöllun en töluverða athygli vakti þegar sveitarstjórnarmaður sagði í viðtali að sveitarfélagið ætti í viðræðum við Hrafnistu um byggingu hjúkrunarheimilis á staðnum.

Þetta verð ég að fá að leiðrétta og upplýsa ykkur um að engar slíkar viðræður eru í gangi. Við höfum þó aðeins verið í samskiptum við fulltrúa frá Tálknafirði sem er í formi óformlegra ráðlegginga og svörun fyrirspurna, rétt eins og við gerum fyrir marga aðra. Við sendum þó auðvitað góða strauma til þeirra á Tálknafirði og vonum að þeim gangi allt í haginn!

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

Lesa meira...

Síða 171 af 330

Til baka takki