Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 11. janúar 2019 - Gestaskrifari er Hálfdan Henrysson, stjórnarformaður Sjómannadagsráðs

Lesa meira...

Nýárskveðja til starfsfólks Hrafnistuheimilanna, starfsfólks Sjómannadagsráðs og happdrættis DAS.

 

Fyrir hönd Sjómannadagsráðs  höfuðborgarsvæðisins sendi ég öllu starfsfólki Hrafnistuheimilanna, starfsfólki skrifstofu Sjómannadagsráðs Naustavarar og Ölduvarar og starfsfólki happdrættis DAS mínar bestu nýárskveðjur. Mér er efst í huga þakklæti fyrir frábært starf ykkar og framtak á liðnu ári. Án framúrskarandi framlags ykkar hefðum við ekki getað sýnt skjólstæðingum okkar, íbúum á Hrafnistuheimilunum og leiguíbúðum þá virðingu og skjól sem þeir eiga skilið á efri árum. Megin tilgangur Sjómannadagsráðs utan þess að halda Sjómannadaginn hátíðlegan og minnast látinna sjómanna,  er að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.  Það hefur verið gert í rúmlega sextíu ár sem er sá tími frá því Hrafnista í Laugarási tók til starfa og fjörutíu ár síðan hafin var starfsemi  Hrafnistu í Hafnarfirði. Auk þeirra hafa á undanförnum árum bæst við heimilin í Kópavogi, Reykjanesbæ og Garðabæ sem rekin eru með sérstökum samningum við viðkomandi bæjarfélög.

Skjólstæðingar okkar á Hrafnistuheimilunum eru nú samtals vel yfir 700 sem skiptast í hjúkrun,dvalarrými, dagdvöl, dagþjálfun og hvíldarinnlagnir. Auk þessa á og rekur Sjómannadagsráð 200 leiguíbúðir fyrir aldraða. Starfsfólk Hrafnistuheimilanna og Sjómannadagsráðs eru nú um 1200 manns.

Á liðnu ári var ýmislegt gert á heimilunum til skemmtunar og fróðleiks. Mikil vinna við undirbúning á skemmtunum og hátíðahöldum hvílir á starfsfólki utan venjulegs vinnutíma og er mér sérstakt þakklætisefni. Það hefur verið verulega ánægjulegt að hafa fengið tækifæri til  að fylgjast með hvað starfsfólk heimilanna sýnir íbúum og gestum mikla virðingu og umhyggju. Margt var gert til að minnast aldarafmælis fullveldis Íslands.  Hápunktur hátíðahaldanna var viðburðurinn „Fullveldisbörnin“ en þá komu saman á fullveldishátíð Hrafnistu í Laugarási 22 íslenskir heiðursgestir  sem voru 100 ára og eldri.  Forsetahjónin sýndu okkur öllum þá ánægju að taka þátt í hátíðahöldunum. Elsti íbúi Hrafnistu er nú 109 ára.

Margir aðilar sýndu okkur mikla velvild á árinu eins og oftast endranær. Vil ég sérstaklega minnast félaga í Oddfellow reglunni, klúbbanna  Kiwanis og Lions auk fjölda einstaklinga og félaga.

Það er ljóst að komandi ár verður annasamt.  Gert er ráð fyrir að hjúkrunarheimilið við Sléttuveg verði tilbúið um og eftir næstu áramót.  Þar er gert ráð fyrir 99 íbúum.  Á seinni hluta ársins þarf að huga að ráðningu starfsfólks, búnaði öllum og fyrirkomulagi.  Vonandi vefst það ekki fyrir neinum enda reynslumikið og ábyrgt starfsfólk sem þar kemur að máli.  Það hefur hingað til reynst okkur vel að hafa á að skipa mjög færu starfsfólki og engin ástæða til að kvíða opnun heimilisins þrátt fyrir að um sé að ræða viðamikið verkefni.  Á sama tíma verður ennfremur tekin í notkun ný þjónustumiðstöð sem stendur á milli hjúkrunarheimilisins og leiguíbúða Sjómannadagsráðs.  Reykjavíkurborg mun að stærstum hluta leigja þjónustumiðstöðina fyrir ýmsa starfsemi fyrir íbúa nærliggjandi hverfis.  Sjómannadagsráð og Hrafnista hefur átt í miklu samstarfi við Reykjavíkurborg vegna byggingar hjúkrunarheimilisins og væntanlegs reksturs í þjónustumiðstöðinni.  Hefur samstarf við Reykjavíkurborg verið ánægjulegt og vonumst við eftir áframhaldandi samstarfi í framtíðinni.  Sama má líka segja um þau bæjaryfirvöld sem Sjómannadagsráð og Hrafnista hafa átt í samstarfi við vegna reksturs hjúkrunarheimila að engan skugga hafi borið á það samstarf.

Vegna stækkunar og fjölgunar íbúa á Hrafnistuheimilunum einkanlega vegna tilkomu Hrafnistu við Sléttuveg var ljóst að stækka þyrfti eldhús Hrafnistu.  Eldhúsið eins og það er getur ekki ráðið  þá stækkun og því ljóst að ráðast yrði í fjárfrekar famkvæmdir.  Eftir vandaða yfirferð á margskonar möguleikum var ákveðið að stækka eldhús Hrafnistu í Laugarási en það eldhús hefur fram til þessa framleitt mat fyrir heimilin í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ. Niðurstaða könnunar varð sú að stækka eldhúsið í Laugarási og byggja yfir sund milli Laugarásbíós og „A“ álmu Hrafnistu sem næst liggur bíóinu. Um mikla framkvæmd er að ræða sem á að verða lokið á sama tíma og byggingu Hrafnistu við Sléttuveg lýkur. Búast má við að um verulega truflun verði að ræða á Hrafnistu bæði hjá íbúum og starfsfólki.  Reynt verður að stilla framkvæmdum í hóf til að minnka sem mest má verða  truflun á heimilisstarfi og biðjum við alla hlutaeigandi velvirðingar á því. Hafist verður handa við framkvæmdir fljótlega á þessu ári.  Starfsemi eldhúss  verður flutt til Hrafnistu í Hafnarfirði meðan á framkvæmdum stendur í Reykjavík.

Auk áðurgreindra framkvæmda verður fljótlega hafist handa við að breyta þriðju hæð „A“álmu Hrafnistu í Laugarási í dagdeild fyrir minnisskerta einstaklinga. Jafnframt breytingum verður skipt út lyftu í holi hússins og tekur sú breyting væntanlega nokkrar vikur.

 

Hálfdan Henrysson

Stjórnarformaður Sjómannadagsráðs.

 

Lesa meira...

Síða 163 af 330

Til baka takki