Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 8. febrúar 2019 - Gestaskrifari er Þuríður I. Elísdóttir, forstöðurmaður Hrafnistu Reykjanesbæ

Lesa meira...

Fræðsla, samskipti og listin að líkna

Í upphafi hvers árs er kjörið tækifæri til að líta yfir liðið ár og þau verkefni sem við í umönnunarstörfum höfum verið að vinna að. Nauðsynlegt er að fara yfir það sem vel hefur verið gert og það sem betur mætti fara. Það er ávallt árangursríkara að setja sér vinnutengd  markmið  eins og persónuleg til að ná árangri í lífi og starfi. Það eru endalaus verkefni og áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í hinu daglega starfi okkar innan hjúkrunarheimilanna, þau eru misflókin en með samstilltu átaki starfsmanna er auðveldara að leysa öll þau verkefni sem okkur eru falin. Við þurfum að vinna saman sem ein liðsheild og ef allir innan liðsins leggja sig vel fram þá eru lífsgæði og lífsgleði okkar og íbúanna okkar svo miklu meiri.

            Það hefur verið meiri starfsmannavelta síðastliðið ár hjá okkur í Reykjanesbæ og því fylgja margar áskoranir t.d. í formi fræðslu og kennslu. Það þarf að gæta þess að fræða vel nýju starfsmennina svo að þeir geti unnið sjálfstætt og fagmannlega að þeim verkefnum sem þeim eru falin. Allir þurfa að vita hvað ætlast er til af þeim og að hlutverk þeirra séu vel skýrð.  Þar kemur inn mikilvægi reyndara starfsfólks sem hefur mikla reynslu og þekkingu til að miðla til þeirra sem enga reynslu hafa. Það býr svo mikil fagþekking og reynsla innan veggja heimilanna ekki einungis frá fagfólki heldur því starfsfólki sem hefur unnið til margra ára vinnu sína af miklum heilindum og fagmennsku. Við þurfum endalaust að vera að segja sömu hlutina og það getur verið erfitt oft á tíðum, en það bara þarf þegar starfsmannavelta er örari til að upplýsingaflæði sé gott, og þar sannast máltækið „að aldrei er góð vísa of oft kveðin“.

            Alla daga og allar nætur snýst líf okkar á hjúkrunarheimilum um samskipti. Ekki bara við annað samstarfsfólk heldur einnig við íbúa og aðstandendur þeirra. Mikilvægi þess að eiga góð og uppbyggjandi samskipti er ómetanlegt fyrir hvern vinnustað. Það kemur því í hlutverk allra stjórnenda að reyna að upphefja góða vinnustaðamenningu með jákvæðni, gleði og bjartsýni að markmiði. Hvað við segjum og hvernig við segjum hlutina skiptir öllu máli í samskiptum. Samskipti og upplýsingagjöf til aðstandenda er einnig mikilvægur liður í því,  bæði til að byggja upp traust og veita þeim  öryggi.  Að vera dugleg að vera á undan að hefja samskiptin, ekki alltaf að láta aðstandendur koma til okkar. Það sýnir þeim að við erum virkilega að leggja okkur fram ekki bara við að láta íbúunum okkar líða vel heldur að sinna fjölskyldunni og huga að velferð hennar allrar.

             Það er veruleg list að kunna að veita góða umönnun eins og það er list að kunna góða samskiptatækni. Á stóra sviðinu hjá okkur erum við að þjálfa upp góða listamenn. Það er mismunandi hvernig hver og einn starfsmaður nálgast verkefni sitt en takmarkið er alltaf það sama, það er að reyna að bæta og efla lífsgæði íbúanna okkar. Íbúarnir okkar koma sífellt veikburðari til okkar og það er okkar list að gera líf þeirra eins innihaldsríkt og hægt er þann tíma sem þeir búa hjá okkur. Við verðum að einbeita okkur að því hvað hver og einn getur og vinna út frá styrkleikum hvers og eins. Það er meiri hvati að vinna með það jákvæða og er einnig mun vænlegra til árangurs.

            Ef markmið okkar er skýrt þá ætti okkur ekki að bregðast sú list að líkna vel. Ef við hugsum um hvern íbúa sem okkar eigin aðstandanda þá ættum við ekki að missa marks á að gera eins vel og við getum. Og ef við förum heim með það í hjartanu að hafa virkilega lagt okkur fram og gert eins vel og hægt var þá getum við vel við unað. Stundum er besta umönnunin kærleikur, umhyggja, virðing og gleði.  Og ekki gleyma þeim mætti sem brosið hefur, það bæði gefur og gleður og það kostar ekki krónu. Hugarfarið að reyna að gera betur í dag en í gær á ávallt við í okkar starfi sem og okkar daglega lífi.

            Eitt gott heilræði inn í líf okkar allra á nýju ári :

 Eina manneskjan sem þú ættir að reyna að vera betri en --- er manneskjan sem þú varst í gær.

Góða helgi og kærar kveðjur úr Reykjanesbæ

Þuríður Ingibjörg Elísdóttir - Forstöðumaður

 

Lesa meira...

Síða 159 af 330

Til baka takki