Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 3. maí 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 3. maí 2019.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Gleðilegt sumar

Miðað við veðurfarið síðustu daga er alveg ljóst að vorið er komið og sumarið er á næsta leiti. Um leið og ég bíð sumarið velkomið, vil ég nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki, stjórnendum, stjórnarmönnum, íbúum og aðstandendum Hrafnistuheimilanna fyrir samstarf og samverustundir á liðnum vetri. Megi sumarið 2019 verða ykkur gæfurík!

Starfsafmæli í apríl!

Í apríl-mánuði voru að vanda þó nokkur formleg starfsamæli hér á Hrafnistuheimilunum. Allir í þessum flotta starfsmannahópi fá afhentar viðeigandi gjafir. Flestir eru þegar búnir að fá sínar gjafir en vegna fría um páskana eru reyndar nokkrar ennþá sem ekki hafa komist til skila en það gerist á næstunni.

Þeir sem áttu formleg starfsafmæli í apríl eru:

3 ára starfsafmæli: Greta Norkeviciute og Alexander Fannar Kristjánsson á Vitatorgi í Laugarásnum og Anna Margrét Sigurjónsdóttir á Ölduhrauni í Hraunvangi.

5 ára starfsafmæli: Álfheiður Gunnarsdóttir á Bylgjuhrauni í Hraunvangnum og Stefanía Guðmundsdóttir á Hlévangi. Á Nesvöllum eru það Margrét Hermannsdóttir deildarstjóri í eldhúsi, Edyta Anna Maniak, Signý Elíasdóttir, Guðfinna Björg Kristinsdóttir og Hafdís Lára Halldórsdóttir.

10 ára starfsafmæli: Rebekka Ingadóttir, hjúkrunardeildarstjóri í Boðaþingi, Hulda Jóhannesdóttir á Sól- og Mánateigi í Laugarási og Boguslawa Kocur í ræstingunni í Laugarási.

15 ára starfsafmæli: Sigurbjörg Hannesdóttir deildarstjóri iðjuþjálfunar í Laugarási

Og síðast en ekki síst Magnús Margeirsson kokkur sem nú hefur starfað fyrir Hrafnistu í 40 ár!

Hjartanlega til hamingju öll og hjartansþakkir fyrir traust, tryggð og glæst störf í þágu Hrafnistuheimilanna.

Skógarbær orðið sjöunda Hrafnistuheimilið

Í gær, fimmtudaginn 2. maí, var hátíðisdagur í sögu Hrafnistu en þá tók Hrafnista formlega við rekstri hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar sem staðsett er við Árskóga í Reykjavík. Rekstur og skuldbindingar starfseminnar munu áfram hvíla hjá Skógarbæ, en Hrafnista tekur yfir að stjórna og reka hjúkrunarheimilið.

Rebekka Ingadóttir, sem stýrt hefur málum Hrafnistu Boðaþingi í Kópavogi undanfarin ár, hefur verið ráðin forstöðumaður Skógarbæjar, og hóf hún störf í gær.

Mannauðsstefna Hrafnistu mun gilda í Skógarbæ líkt og á öðrum Hrafnistuheimilum og engin breyting verður á ráðningarsambandi við starfsfólk sem áfram verður við Skógarbæ. Starfseminni verður háttað í samræmi við hugmyndafræði Hrafnistu þar sem áhersla er lögð á andlega, líkamlega og félagslega vellíðan íbúanna. Í samningnum felst einnig nýting og rekstur á hluta af húsnæði félagsmiðstöðvarinnar Árskóga sem samtengd er hjúkrunarheimilinu og rekin er af Reykjavíkurborg að hluta. Skógarbær er hjúkrunarheimili skammt frá Mjódd í Reykjavík, stofnsett árið 1997 með 81 hjúkrunarrými. Þar er meðal annars sérstök þjónusta fyrir unga hjúkrunaríbúa. Aðilar og stofnendur að sjálfseignarstofnuninni eru Reykjavíkurborg, Rauði Krossinn í Reykjavík og Efling stéttarfélag.

Skógarbær er sjöunda Hrafnistuheimilið og þetta verður spennandi verkefni!

Nýtt lógó Hrafnistu

Vegna þess að Hrafnistuheimilin eru orðin sjö talsins tökum við í dag í notkun nýtt lógó fyrir Hrafnistuheimilin þar sem er í raun gamla merki Hrafnistu en nafni Skógarbæjar hefur verið bætt í upptalningu heimilanna þar. Bið ykkur því að tileinka ykkur notkun þess frá og með deginum í dag.

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Lesa meira...

Síða 148 af 330

Til baka takki