Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 14. júní 2019 - Pétur Magnússon, forstjóri

Lesa meira...

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 14. júní 2019.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Kvennahlaupið á Hrafnistu!

Hrafnistuheimilin hafa um árabil haldið sín kvennahlaup í tengslum við kvennahlaup ÍSÍ og Sjóvár sem í ár fer fram á morgun. Í dag og síðustu daga hafa hlaupin farið fram á heimilunum okkar í góðu veðri og miklu fjör. Stöð 2 heimsótti til að mynda kvennahlaupið í Hraunvangi í dag en meðal keppenda var Sigríður Kristín, íbúi á heimilinu, sem fagnar 100 ára afmæli sínu á árinu. Eins og þið þekkið hlaupa eða ganga þátttakendur hver með sínu lagi og auðvitað veitið þið starfsólkið þeim viðeigandi stuðning. Enda þótt hlaupið sé miðað við þá sem nýta sér þjónustu Hrafnistu er það öllum opið, enda sérlega ánægjulegt þegar ættingjar og vinir, börn og barnabörn slást með í för. Þátttaka í kvennahlaupum Hrafnistuheimilanna hefur yfirleitt verið góð og má sem dæmi nefna að í gær tóku um eitt hundrað manns þátt í kvennahlaupi Hrafnistu við Laugarás og mjög góður hópur á Nesvöllum og Hlévangi. Á Hrafnistu í Hafnarfirði hefur þátttakan einnig ávallt verið góð og þar hefur hlaupið raunar farið fram á hverju ári frá árinu 1990 þegar kvennahlaup ÍSÍ var fyrst haldið. Kvennahlaup Hrafnistuheimilanna eiga upphaf sitt að rekja til áræðni og dugnaðar Lovísu Einarsdóttur, leikfimikennara aldraðra á Hrafnistu í Hafnarfirði og síðar samskiptafulltrúa á heimilinu og í Boðaþingi í Kópavogi. Lovísa lést langt fyrir aldur fram árið 2013.

Að lokum er gaman að segja frá því að sé fjöldi þátttakenda í kvennahlaupum Hrafnistuheimilanna lagður saman er Hrafnista meðal stærstu staða sem standa fyrir kvennahlaupi.

Kærar þakkir öll fyrir ykkar framlag við að gera þessa skemmtilegu viðburði að veruleika!

 

Öllum 100 ára á árinu boðið í afmælisveislu á Hrafnistu með forseta Íslands

Það er gaman að segja frá því að á þriðjudaginn, 18. júní, bjóðum við á Hrafnistu þeim landsmönnum, sem eiga 100 ára afmæli á árinu, til afmælisveislu á Hrafnistu Hraunvangi. Viðstödd veisluna verða m.a. forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem flytur ávarp auk Dagnýjar Erlu Gunnarsdóttur, sem er fimmtán ára og sitja mun þingfund ungmenna í Alþingishúsinu á þjóðhátíðardaginn 17. júní í tilefni af 75 ára afmælis lýðveldisins. Boðið verður upp á afmælisköku og söngatriði sem tenórsöngvarinn Gissur Páll Gissurarson annast. Auk ofangreindra og fleiri aðila er öllum íbúum Hrafnistu í Hraunvangi boðið til veislunnar. Þess má geta að á þessu ári eiga 25 Íslendingar 100 ára afmæli, átján konur og sjö karlar. Flest eru afmælisbörnin búsett á höfuðborgarsvæðinu og hafa um tíu þeirra þegar boðað komu sína til veislunnar Þetta er í fyrsta sinn sem Hrafnista býður landsmönnum til 100 ára afmælisveislu ásamt forseta Íslands og er ætlunin að þetta verði árlegur viðburður sem ferðast milli heimilanna. Hefur undirbúningur m.a. verið unninn í samstarfi vð Jónas Ragnarsson sem allt frá árinu 2006 hefur haldið úti vefsíðu um langlífa Íslendinga, haldgóð hjónabönd, stóra systkinahópa og fleira. Þessi áhugaverði vettvangur Jónasar er nú vistaður á síðunni Langlífi á Facebook.

 

Góða helgi og gleðilega þjóðhátíð!

Bestu kveðjur,

Pétur

 

 

Lesa meira...

Síða 142 af 330

Til baka takki