Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 29. nóvember 2019 - Gestahöfundur er Sara Pálmadóttir, deildarstjóri iðju- og sjúkraþjálfunar á Hrafnistu Ísafold

Lesa meira...

Í gegnum tíðina hef ég fengið tækifæri til að prófa allskonar hluti í ólíkum hlutverkum hjá Hrafnistu. Ég hóf störf á Hrafnistu þegar ég var um 16 ára gömul í aðhlynningu á Vistheimilinu sem var þá í Hafnarfirðinum. Þar starfaði ég í um sjö ár og lærði sjúkraliðann samhliða vinnu. Seinna fór ég svo að vinna samhliða námi í iðjuþjálfun á Hrafnistu í Boðaþingi. Þar vann ég sem sjúkraliði, sem starfsmaður í dagdvölinni og sem sundlaugarvörður. Eftir útskrift frá Háskólanum á Akureyri réði ég mig á Hrafnistu Ísafold og er nú deildarstjóri iðju- og sjúkraþjálfunar þar. Þannig að til að taka þetta aðeins saman þá hef ég starfað á þremur Hrafnistuheimilum í allavega fimm ólíkum hlutverkum. Um daginn fékk ég enn eitt tækifærið og það var að fara á ráðstefnu til að kynna mér nálgun í umönnun sem heitir Namaste-Care.

Í þjálfun erum við alltaf að reyna að mæta ólíkum þörfum fólks þannig að fólk upplifi lífsgæði þrátt fyrir sjúkdóma eða fötlun. Namaste er hannað fyrir fólk sem er með heilabilun og getur ekki nýtt sér þjálfun eða virkni. Einkunnarorð nálgunarinnar eru „To honor the spirit within“ og snýst um að fólk njóti lífsins en sé ekki bara til (Living-not existing). Þess vegna var ég forvitin að skoða hvort og þá hvernig ég, sem iðjuþjálfi, gæti komið að Namaste.

Í Namaste eru tvær megináherslur en þær eru: Að skapa rólegt, notalegt umhverfi og að snerting sé kærleiksrík. Þessi áhersla á umhverfið rímar vel við þá sýn iðjuþjálfa að umhverfið hafi áhrif á einstaklinginn og öfugt. Það er þetta flókna samspil sem skiptir svo miklu máli og getur haft veruleg áhrif á heilsu okkar, hvernig okkur líður og virkum í daglegu lífi.

Í Namaste er áhersla á þessa kærleiksríku snertingu, nudd, góðan ilm, bragð og tónlist. Það felur í sér áreiti á öll skynfærin og gæti verið hluti af því sem við iðjuþjálfar köllum skynörvun. Slík örvun hefur reynst vel til að ýta undir vellíðan, aukna líkamsvitund og slökun. Það hentar fólki sem lifir með langt komna heilabilun vel því það eru ekki gerðar neinar kröfur um vitræna færni hjá þeim sem tekur þátt. En um leið er einnig unnið með félagsleg samskipti og tengsl á einstaklingsmiðaðan hátt, maður á mann, og hverjum og einum mætt þar sem hann er staddur.

Það er gaman að pæla aðeins í snertingu og skynjun. Er mikilvægt að fá og veita öðru fólki snertingu? Það er ólíkt hvernig fólk tekur því að fá snertingu frá öðrum. Sumum finnst gott að fá faðmlag á meðan öðrum finnst það vera mjög persónulegt og óþægilegt. Hvernig snertingu fær fólkið sem býr á Hrafnistu? Fær það einhverntíman þétt faðmlag frá einhverjum? Við erum mismunandi skyn-næm eins og við erum mörg og upplifum oft sömu aðstæður ólíkt. Það er talað um að það hafi marktæk áhrif á þroska barna að fá faðmlög og snertingu því þá er heilinn á fullu að mynda nýjar taugatengingar til að skapa færni til framtíðar. Sú þörf hverfur ekki þó við verðum gömul því þá er svo mikilvægt að fólk fái þessa örvun á taugakerfið til að halda í þá færni sem það hefur. Þá gildir máltækið „use it or loose it“, annars sigtar heilinn út og hættir að næra þær stöðvar sem við notum ekki. Maður heyrir oft frá eldra fólki að það finni t.d. ekki lykt, en ef maður gefur sér tíma og lofar fólki að reyna á sig þá nær það oft að skynja hlutina betur og finna lyktina.

 

Stöldrum við, hægjum á okkur og gefum okkur tíma til að veita þessu athygli....

Namaste.

 

Sara Pálmadóttir

Deildarstjóri iðju- og sjúkraþjálfunar Hrafnistu Ísafold.

 

Lesa meira...

Síða 123 af 330

Til baka takki