Föstudagsmolar

Föstudagsmolar eru vikulegur pistill sem forstjóri Hrafnistu skrifar með upplýsingum til starfsfólks um það sem er efst á baugi í starfsemi Hrafnistuheimilanna. Öðru hverju eru ýmsir úr stjórnendahópi Hrafnistu fengnir sem gestahöfundar föstudagsmola.
 
 
 
 

Föstudagsmolar 29. maí 2020 - Gestahöfundur er Sigurður Á. Sigurðsson, forstjóri Happdrættis DAS

Das ist güt!

 

Árlegri söluherferð Happdrættis DAS er nýlokið en „áramótin“ eru 1. maí ár hvert.

Í ár var ákveðið að vera með nýja nálgun og vekja þannig athygli á happdrættinu. Sleppa málefninu í bili og leggja áherslu á söluhvatningar enda af nægu að taka þar. Sem dæmi er dregið um 1,3 milljarð króna á happdrættisárinu, dregið vikulega, eitt mánaðargjald og mestu líkur á að hljóta aðalvinning á bilinu 4 – 30 milljónir króna á tvöfaldan miða.

Herferðin gekk út á að spila með orðið DAS á ýmsan máta. Orðið das þýðir á þýsku „það“ og því hægt að spila með orðið das á ýmsan máta. Söguþráðurinn í sjónvarpsauglýsingunni var; Was ist DAS? (hvað er DAS) og það flýgur happdrættismiði á framrúðu Trabantseiganda. Hann kaupir miðann og vinnur þann STÓRA. Til að halda áfram að vinna ákveður hann að kaupa einbýlishús á Íslandi og flytja þangað. Fer í lýtaaðgerðir og lifir eins og kóngur á Íslandi og ræður sér þjón.

Margir höfðu gaman af þessari auglýsingu en fullorðna fólkinu fannst hún leiðinleg. Enda náði það ekki húmornum eða skyldi ekki samhengið. Ekki bætti úr skák að maðurinn talaði bjagaða íslensku enda nýkominn til Íslands og ekki búinn að ná tökum á íslenskunni.

Það má segja að setningin„Das ist güt“ hafi komið á réttum tíma í miðju COVID-19 faraldrinum þar sem Hrafnista fór í fararbroddi í að draga úr smithættu með heimsóknarbanni. Enginn íbúi Hrafnistu smitaðist sem er ótrúlegt afrek hafandi í huga hvernig farið hefur fyrir dvalar- og hjúkrunarheimilum erlendis

„Das ist güt“ á því vel við í þessu sambandi.Og nú spyrja fjölmiðlar í Þýskalandi: „Was ist DAS“ (hvað er DAS).

En hvað sem öllu líður þá náðum við athygli fólks og salan hefur gengið afar vel. Þá er tilgangnum náð enda er Happdrætti DAS fjárhagslegur bakhjarl í allri uppbyggingu og viðhaldi fasteigna Hrafnistu DAS í Laugarási og Hafnarfirði.

Stöndum saman og hvetjum fólk til að kaupa miða. Um leið og góðu málefni er lagt lið er von á góðum vinningum.

Fyrir hönd Happdrættis D.A.S. og starfsfólks óskum við starfsfólki Hrafnistu í Laugarási, Hraunvangi, Boðaþingi, Reykjanesbæ, Ísafold, Skógarbæ og Sléttuvegi gleðilegs sumars.

 

Sigurður Ágúst Sigurðsson,

forstjóri  Happdrættis D.A.S.

 

Lesa meira...

Síða 101 af 330

Til baka takki