Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 26. janúar 2018 - Gestaskrifari er Þuríður Ingibjörg Elísdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Reykjanesbæ

 

Skilvirkni og lífsgæði í lífi og starfi

Í nútímasamfélagi eru kröfur á vinnandi fólk úr öllum áttum. Allir vilja standa sig sem best í starfi og einkalífi en mörgum reynist oft erfitt að samþætta þessar kröfur til að njóta þess sem við erum í raun og veru að gera á hverjum einasta degi. Ég get sagt ykkur að það er veruleg kúnst að njóta. Ég las grein fyrir nokkrum árum í Húsfreyjunni sem ég hef oft hugsað um. Greinin fjallaði um þessa samþættingu og þá sérstaklega gagnvart konum. Við konurnar viljum vera hinir fullkomnu starfsmenn og láta það orðspor af okkur fara í starfi að við gerum hlutina vel. Þegar vinnudegi lýkur þá skal drífa sig heim, halda húsinu hreinu, þvo þvott, elda heimilislegan mat (hin „fullkomna húsmóðir“),  sinna heimanámi barnanna, fara með börnin á íþróttaæfingar (hin „fullkomna móðir“), rækta eigin líkama og sál og sinna makanum (hin „fullkomna eiginkona“). Hin útkeyrða kona í nútímasamfélagi!   Í greininni var svo skrifað um að þegar herramenn fara heim úr vinnunni, að þá sé vinnudeginum lokið og hægt sé að fara upp í sófa og hafa það bara nokkuð náðugt. Ekki það að ég sé að halla á hlut karlmanna en þetta var það sem fram kom í greininni.  Ég sá svolítið af sjálfri mér þegar ég las þessa grein og er viss um að það á við um fleiri ungar konur.

 

Skömmu fyrir jól kynntist ég hugtakinu „skilvirkni“ á annan hátt en ég er kannski vön. Það fékk mig til að hugsa betur um þá hluti sem ég sinni dags daglega og hvernig ég er að njóta þess sem ég er að gera. En að hafa gaman af því sem maður er að gera hvort sem það er í starfi eða í einkalífi eykur lífsgæði til muna og gefur aukna orku inn í hvern dag.

Ég ákvað að taka „skilvirkni hugtakið“ af fullum þunga inn í líf mitt árið 2018. Núna set ég allt upp í skipulag fyrir hvern einasta dag og fyrir hverja viku. Þannig næ ég betur að hafa yfirsýn fyrir allt sem ég er að gera og næ að deila verkefnunum út á vikuna því það er ekki hægt að gera allt á einum degi. Þó að manni langi til að fara frá hreinu skrifborði þegar maður fer heim í lok dags þá næst það sjaldnast. En það þarf að læra að róa hugann frá því og það næst þegar skipulagið er gott.

Orkan sem sparast við svona skilvirkni er ótrúleg og í dag á ég  mikla orku eftir þegar vinnudegi lýkur til að njóta alls þess sem bíður mín þegar heim er komið. Að bæta við jákvæðni og gleði inn í skilvirki er ótrúlegt „boost“ inn í daginn. Þú afgreiðir verkefni hratt og vel og allir dagar verða nánast hamingjudagar. 

Í lokin vil ég aðeins koma inn á smá vangaveltur um samskipti og að gefa sér tíma til að spjalla við íbúana okkar. Fyrir stuttu síðan settist ég niður með nokkrum íbúum og var að spjalla um lífið og tilveruna. Allir voru svo ánægðir og glaðir fyrir þessa stuttu en skemmtilegu stund. Svo kemur upp í samtalinu að einn íbúinn segir : „hér talar enginn saman og starfsfólkið ræðir bara við hvort annað“. Ég fékk sting í hjartastað við þessi orð. Gefum gaum að þessu og hvetjum okkar fólk til að gefa sér þó að ekki sé nema smá tíma til að setjast niður og ræða við íbúana okkar. Það gefur þeim svo mikla gleði að gefa þeim tíma. Þetta er einn liður í þjónustunni sem við erum að veita og þetta skiptir jafn miklu máli og að veita góða líkamlega aðhlynningu. Það eykur líka lífsgæði íbúanna okkar ekki síður en okkar eigin lífsgæði.

Og munið að lífið snýst um gæði lífs, ekki bara okkar eigin heldur einnig þeirra sem við njótum samvista við á hverjum degi.

 

Kærleikskveðjur frá Reykjanesbæ,

Þuríður Ingibjörg Elísdóttir

Forstöðumaður Hrafnistu í Reykjanesbæ, Nesvalla og Hlévangs

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur