Top header icons

Fyrir starfsfólk

 

Örugg skjalamótttaka

Örugg skjalamótttaka

Fyrir starfsfólk

Hrafnista á Facebook

Föstudagsmolar 1. desember 2017 - Gestaskrifari er Þóra Geirsdóttir, verkefnastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistu

Á ný afstaðinni afmælisráðstefnu Sjómannadagsráðs ræddi framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, Sigríður Gunnarsdóttir, meðal annars um að sjúklingar væru veikari í dag þegar þeir legðust inn á spítalann og hjúkrunarþyngd hefði aukist.  Þetta er sama þróun og við finnum á Hrafnistu, fólk er veikara þegar það flytur til okkar og flóknari meðferð veitt á heimilunum en áður var.  Þetta sjáum við á niðurstöðum RAI mælinga þar sem þyngdarstuðull heimilanna og landsmeðaltalið hefur hækkað.

RAI mælitækið er ekki einungis til að mæla þyngdarstuðul. Það er einstaklingshæft og gefur okkur möguleika á að vinna með mikilvæg atriði í lífi skjólstæðinga okkar. Það bendir á ef einstaklingur getur haft gagn af meðferð eða stuðningi sem tengist hinum ýmsu vandamálum hvort sem er til að leysa þau, minnka hættu á afturför eða auka möguleika á framför.  Það er því nauðsynlegt að skoða niðurstöður hvers og eins með tilliti til þess hvort hægt sé að bæta lífsgæði hans.  Matstækið bendir okkur á áhættuþætti og meðferðarleiðbeiningar frá interRAI, sem til eru á öllum hjúkrunardeildum, eru gott verkfæri til að skoða ástæður og tillögur að meðferðaráætlun.  Á Hrafnistu vinnum við markvisst að úrbótum og nýtum okkur m.a. RAI mælitækið til þess.  Hin ýmsu teymi skoða niðurstöður RAI mælinga og eru deildum til ráðgjafar.  Sem dæmi má nefna byltuteymið, sárateymið og sýkingavarnateymið auk annarra. 

Síðustu ár hefur Hrafnista verið í hröðu breytingaferli í átt til framtíðar, ferli sem hefur leitt af sér betri skráningu sjúkragagna, skýrara verklag, öruggara lyfjaeftirlit, betri sýn á hjúkrunarþarfir heimilismanna og aukinn stuðning við stjórnendur svo fátt eitt sé nefnt.  Og áfram höldum við.

Það er mikilvægt að fylgja framþróun hvort sem er í starfi eða einkalífi og óttast hana ekki.  Því þó tækni og sjálfvirkni eigi eftir að breyta störfum á hjúkrunarheimilum framtíðarinnar kemur hún aldrei í stað samskipta, sköpunar og gagnrýninnar hugsunar en það eru þættir sem margir telja að verði meiri áhersla á í menntun framtíðar, þættir þar sem tölvur og tækni standa okkur langt að baki.

 

Eigið góðan dag.

 

Þóra Geirsdóttir,

Verkefnastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistu

 

 

Til baka takki

Þessi vefsíða notar kökur (cookies). Með því að halda áfram að nota vefinn, samþykkir þú þessa virkni vefsins.
Samþykkja kökur