Leit

social link

Rannsóknarsjóður Hrafnistu

 

Topp slide - reykjavik

Föstudagsmolar 24. nóvember 2017 - Pétur Magnússon, forstjóri

FÖSTUDAGSMOLAR FORSTJÓRA

Föstudaginn 24. nóvember 2017.

 

Ágæta samstarfsfólk á Hrafnistuheimilunum,

 

Vel heppnuð afmælisráðstefna um lífsgæði aldraðra

Ég ætla að fá að byrja að þakka ykkur kærlega fyrir síðast –  á ráðstefnunni okkar glæsilegu í Hörpunni á þriðjudag!

Ráðstefnan tókst mjög vel en rúmlega 400 manns mættu til leiks og nutu fjölbreyttrar dagskrár um þetta merkilega málefni, Lífsgæði aldraðra.

Ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð úr öllum áttum en gaman er að segja frá því að líklega er þetta fjölmennasta ráðstefna um öldrunarþjónustu sem haldin hefur verið hér á landi (fyrir utan alþjóðlegar ráðstefnur).

Hjartans þakkir til fyrirlesara, ráðstefnustjóra, undirbúningsnefndar og ykkar allra sem tókuð þátt í þessari glæsilegu ráðstefnu. Við erum hrærð yfir öllum þeim fjölda sem gaf sér tíma til að vera með okkur á þessum tímamótum og gera ráðstefnuna jafn glæsilega og raun bar vitni.

Fjöldan allan af skemmtilegum myndum frá ráðstefnunni má sjá á heimasíðunni okkar.

Kærar þakkir enn og aftur, þetta er sannarlega enn ein skrautfjöðurinn í okkar starfsemi á 80 ára afmæli Sjómannadagsráðs sem er einmitt á laugardag, 25. nóvember.!

 

Starfsfólki Hrafnistu boðið í jólamat

Nú er undirbúningur jólanna í hámarki hjá okkur. Fyrir flesta er þetta mjög skemmtilegur tími þó það reyni á þolinmæði og ýmislegt fleira hjá mörgum. Auðvitað er þetta heldur ekki auðveldur tími fyrir alla, getur til dæmis rifjað upp erfiðar minningar. Við þurfum því að vera sérstaklega góð og þolinmóð hvert við annað og íbúana okkar þessa daga og þá verður þetta auðvitað mjög gaman.

Og auðvitað gleðjumst við!

Afhending jólagjafa frá Hrafnistu til starfsfólks fer fram sbr. neðangreint yfirlit en í hádeginu þessa daga er öllu starfsfólki viðkomandi heimilis boðið í Purusteik og meðlæti:

Hlévangur: Jólahádegisverður og afhending gjafa til starfsfólks: fimmtudaginn 14. desember kl 13:00 Allir hvattir til að klæðast einhverju rauðu!

Nesvellir: Jólahádegisverður og afhending gjafa til starfsfólks: fimmtudaginn 14. desember kl 17:00 Allir hvattir til að klæðast einhverju rauðu!

Hafnarfjörður: Jólahádegisverður og afhending gjafa til starfsfólks: fimmtudaginn 14. desember kl 12:45. Allir hvattir til að klæðast einhverju rauðu!

Kópavogur: Jólahádegisverður og afhending gjafa til starfsfólks: fimmtudaginn 14. desember kl 12:45. Allir hvattir til að klæðast einverju rauðu!

Reykjavík: Jólahádegisverður og afhending gjafa til starfsfólks: föstudaginn 15. desember kl 12:15. Allir hvattir til að klæðast einhverju rauðu!

Garðabær: Jólahádegisverður og afhending gjafa til starfsfólks: föstudaginn 15. desember kl 13:00. Allir hvattir til að klæðast einhverju rauðu!

 

Fundað með trúnaðarmönnum

Þessa dagana erum við Lucia, mannauðsstjóri, að funda með trúnaðarmönnum Hrafnistuheimilanna, ásamt forstöðumanni á hverju heimili. Síðustu ár hefur skapast sá skemmtilegi siður að við boðum alla trúnaðarmenn á hverju heimili til fundar (alls 5 fundir) að vori og hausti. Tilefnið er ekkert sérstakt heldur er farið yfir það sem er á döfinni í „Hrafnistulífinu“ en einnig er gott að heyra í fólki um helstu málefni og sjálfsagt mun afmælisárið, Sléttuvegur og fleira bera á góma.

Það er mjög mikilvægt fyrir stórt fyrirtæki eins og okkar að hjá okkur sé virkt og öflugt net trúnaðarmanna. Það nýtist bæði starfsfólk og fyrirtækinu sjálfu.

Nýr mannauðsstjóri á næsta ári og fræðslumál starfsfólks efld

Að lokum langar mig að geta þess að Lucia mannauðsstjóri mun færa sig til í starfi um áramót og fara í fræðslumál hjá okkur. Þar ætlum við að setja inn aukin kraft enda margir ónýttir möguleikar og Lucia er alveg rétta manneskjan til að virkja það. Nú um helgina verður auglýst starf mannauðsstjóra í Fréttablaðinu og ég efast ekki um að margir góðir aðilar munu sækja um!

 

Góða helgi!

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka takki

Banners neðst á forsíðu 1

Happdrætti DAS